SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. nóvember 2020

FRÆÐIN, HVAÐ ER TÍTT?

Fræðaskjóða (2020) er bókmenntafræði fyrir þá sem áhugasamir eru um fræði, greiningu, helstu breytur og hugtök í íslenskum bókmenntum. Áhersla er lögð á lesandann og lestrarupplifunina og miðlun og aðferðir en líka á sögumanninn og hin ólíku andlit hans. Kynni af fræðunum geta leitt til þess að lesandi tekur eftir einhverju sem annars hefði farið fyrir ofan garð og neðan, tengir og yfirfærir, sem dýpkar lestrarreynsluna.

Höfundur bókarinnar er dr. Bergljót Soffía Kristjánsdóttir sem hefur rannsakað íslenskar bókmenntir og kennt bókmenntafræði um áratuga skeið. Hún hefur gríðarlega yfirsýn á skáldskap allra tíma sem lesendur Fræðaskjóðu fá nú að njóta. Heitið -skjóða vísar til helstu hirslu kvenna um aldir og sitthvað dýrmætt má þar finna.

Á rás eitt er fróðlegt viðtal Þrastar Helgasonar við Bergljótu sem nýlega lét af störfum sem prófessor við Háskólann. Rætt er við hana um Fræðaskjóðuna og hvernig bókmenntir eru lesnar, bókmenntakennslu og fræði síðustu áratugi og skáldskap 21. aldar.

 

 

 

Í viðtalinu kemur m.a. fram að með kvenrithöfundum og uppgangi kvennafræða höfum við fengið í hendurnar bókmenntir sem snúa að og taka á margskonar málefnum og tabúi, m.a. ofbeldi gegn konum og börnum. En hvað er mest í gangi núna í bókmenntum, að mati Bergljótar?

Þörf er á að fjalla um poppfemínisma sem á ensku er popular feminism eða popculture, í því er mikil gerjun núna. Nærtækt íslenskt dæmi er Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Ágengt þema og yrkisefni núna hjá skáldum er loftslagsógn og náttúran, skáldkonurnar Guðrún Hannesdóttir, Alda Björk, Kristín Ómars og Steinunn Sig yrkja og skrifa um þetta brýna málefni sem snertir okkur öll, segir Bergljót.

Svo er það hrunið sem hefur sannarlega sett mark á bókmenntirnar. Sumir höfundar leita í fortíðina til að varpa ljósi á samtímann og því hafa sögulegar skáldsögur dafnað vel síðustu ár. Búið er t.d. að fjalla um spænsku veikina í tveimur nýlegum verkum, ætli covid-bókmenntir verði næst á dagskrá? Tæknin og samfélagsmiðlar setja líka mark sitt á skáldskapinn, twitter-ljóð og instagram-sögur eru dæmi um það. Áhugaverð er endurnýjun kvenna á skáldsagnaforminu frá tímum módernisma til vorra daga, t.d. hafa þær Álfrún Gunnlaugsdóttir, Kristín Ómars, Vigdís Gríms og Oddný Eir markvisst fengist við það. Að lokum segir Bergljót í viðtalinu að tímabært sé að endurskoða raunsæi í bókmenntum og að það tengist lífsafstöðu fyrst og fremst.

Fræðaskjóða skiptist í þrjá meginhluta; bókmenntir, ljóð og frásagnir. Bókin er þétt en aðgengileg, fjallað er um fræðileg hugtök á mannamáli og dæmin sem fylgja eru fjölbreytt og lýsandi. Í bókinni eru yfir 400 tilvísanir, stiklur um helstu rannsóknaraðferðir og strauma í bókmenntum og fjöldi athugasemda og ábendinga um áhugavert efni auk nafna- og hugtakaskrár.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið: