SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 2. júní 2019

"Steinsteypulitteratúr"

Ingibjörg Jónsdóttir (1933-1986) er höfundur fjölmargra bóka af ýmsu tagi, auk þess sem hún var mikilvirkur þýðandi. Hún þýddi m.a. þrjátíu af hinum vinsælu bókum Margit Sandemo um Ísfólkið. Ingibjörg hóf ritferil sinn snemma á sjöunda áratugnum með því að skrifa ástarsögur sem nutu mikilla vinsælda, Máttur ástarinnar (1961), Ást í myrkri (1962) og Ást til sölu (1963). Í blaðaviðtali vildi Ingibjörg þó ekki gera mikið úr þessum ritstörfum og kallaði bækurnar "steinsteypulitteratúr" því bækurnar hafði hún skrifað til að auka tekjur heimilisins því fjölskyldan stóð í íbúðarbyggingu. Ingibjörg var fyrsta konan sem átti leikrit á sviði Þjóðleikhússins en það var leikgerð af barnabók hennar Músabörn í geimflugi, sem sett var upp sem söngleikurinn Ferðin til Limbó árið 1964. Ingibjörg Jónsdóttir er komin í skáldatalið okkar.