SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ingibjörg Jónsdóttir

Ingibjörg Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 14. nóvember 1933. Hún var dóttir hjónanna Jóns Sveinssonar útgerðarmanns og konu hans Magneu Jóhönnu Magnúsdóttur.

Ingibjörg vakti sem ungur námsmaður athygli fyrir fljúgandi greind, afbragðs námshæfileika og snögg tilsvör. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1953.

Haustið 1953 giftist Ingibjörg unnusta sínum, Ingva Matthíasi Árnasyni, syni Árna Kristjánssonar píanóleikara og Önnu Steingrímsdóttur. Fyrsta heimili þeirra var á Reynimel í húsi foreldra Ingibjargar. Ingvi og Ingibjörg voru samstúdentar úr MR. Var mikið jafnræði með þeim að sögn kunnugra, bæði stórglæsileg, vel gefin og miklir námsmenn. Þau eignuðust fjóra syni og tvær dætur en urðu fyrir þeim harmi að missa tvo syni árið 1980 og voru þeir báðir á þrítugsaldri.

Auk heimilisstarfa og barnauppeldis vann Ingibjörg sem blaðamaður og við þýðingar og ritstörf, prjónaði og saumaði á börnin og varð síðar mikilvirkur rithöfundur. Ekki vildi Ingibjörg gera mikið úr eigin ritstörfum hún kallaði bækur sínar „steinsteypulitteratúr“ í blaðaviðtali og átti þar við að hún hefði skrifað þær til að auka tekjur heimilisins en þau hjón voru þá einmitt að byggja sér íbúð.

Ingibjörg lést að morgni jóladags, árið 1986.

Fyrstu bækur Ingibjargar voru ástarsögur en fljótlega fór hún einnig að skrifa myndskreyttar barnabækur. Barnasaga hennar Músabörn í geimflugi var færð í búning söngleiks sem settur var upp í Þjóðleikhúsinu undir nafninu Ferðin til Limbó árið 1964. Var það fyrsta leikritið sem Þjóðleikhúsið setti upp eftir íslenska konu og er þetta einnig með fyrstu tilraunum til að skrifa vísindaskáldskap á Íslandi.

Eftir 1970 fékkst Ingibjörg að mestu við þýðingar á ástarsögum og spennusögum, meðal annars eftir þýddi hún bækur eftir Vivien Stuart og George G. Gilman. Þá þýddi hún fyrstu þrjátíu bækurnar um Ísfólkið eftir Margit Sandemo, sem og söguna Gvendur bóndi á Svínafelli eftir J.R.R. Tolkien sem kom út árið 1979.

Hér má lesa vísindaskáldskap eftir Ingibjörgu,  „smásögu úr framtíðinni“ . Tímaritið Fálkinn birti hana í júní 1964 með viðvörun um „að taugaveiklað fólk ætti að láta þessa sögu alveg eiga sig“.

Heimild: Minningargrein eftir Charlottu Maríu Hjaltadóttur í Morgunblaðinu, 9. janúar 1987.


Ritaskrá

  • 1982  Endurfundir
  • 1973  Á ókunnum slóðum
  • 1971  Konurnar pukruðu og hvísluðust á
  • 1971  Einkaritari forstjórans
  • 1967  Einum vann ég eiða
  • 1966  Strákar eru og verða strákar
  • 1966  Hellir hinna dauðu
  • 1966  Sagan af Bra-Bra (Ragnar Lár myndskreytti)
  • 1965  Jóa Gunna: ævintýri litlu brúnu bjöllunnar (Oddur Björnsson myndskreytti)
  • 1965  Þrír pörupiltar (leikrit)
  • 1964  Systurnar
  • 1964  Ferðin til Limbó (leikrit)
  • 1964  Síðasta ferðin, sci-fi smásaga í Fálkanum
  • 1963  Músabörn í geimflugi (Þórdís Tryggvadóttir myndskreytti)
  • 1963  Ást til sölu
  • 1962  Ást í myrkri
  • 1961  Máttur ástarinnar

Tengt efni