Gerður Kristný

Gerður Kristný (Guðjónsdóttir) fæddist í Reykjavík 10. júní 1970. Hún ólst upp í Háaleitishverfinu, gekk í Álftamýrarskóla og fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún lauk B.A. prófi í frönsku með almenna bókmenntafræði sem aukafag frá Háskóla Íslands í febrúar 1992. Lokaritgerðin fjallaði um fegurðina í Les fleurs du mal eftir franska skáldið Baudelaire. Veturinn 1992 - 1993 stundaði Gerður nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands og starfsþjálfun hjá sjónvarpsstöð Danmarks Radio fylgdi í kjölfarið. Hún var ritstjóri tímaritsins Mannlífs á árunum 1998 til 2004 en er nú rithöfundur í fullu starfi.

 

Gerður skrifar jöfnum höndum verk fyrir börn og fullorðna og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikrit auk annars efnis. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar.

 

Ljóð og smásögur Gerðar hafa birst í kennslubókum fyrir grunn- og framhaldsskóla, auk þess sem ljóð hennar og smásögur eru í ýmsum safnritum og tímaritum, íslenskum sem erlendum. Þá hafa verk Gerðar  komið út víða um heim.

 

Gerður Kristný býr í Reykjavík með eiginmanni sínum og tveimur sonum.

Gerður Kristný

  • 2020 Iðunn og afi pönk
  • 2019 Heimskaut
  • 2018 Sálumessa
  • 2017 Smartís
  • 2016 Hestvík
  • 2014 Drápa
  • 2012 Strandir
  • 2011 Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf
  • 2010 Blóðhófnir
  • 2009 Prinsessan á Bessastöðum
  • 2008 Garðurinn
  • 2007 Ballið á Bessastöðum
  • 2007 Höggstaður
  • 2007 Vinir Afríku
  • 2006 Land hinna týndu sokka
  • 2005 Myndin af pabba - Saga Thelmu
  • 2004 Bátur með segli og allt
  • 2004 Jóladýrin
  • 2002 Ég veit þú kemur: Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2002
  • 2002 Marta smarta
  • 2000 Bannað að blóta í brúðarkjól
  • 2000 Launkofi
  • 1998 Eitruð epli
  • 1996 Regnbogi í póstinum
  • 1994 Ísfrétt

   

  Auk þessa hafa birst textar eftir Gerði Kristnýju í safnritum og tímaritum.