SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Aðalheiður Karlsdóttir frá Garði

Aðalheiður Karlsdóttir fæddist í Garði, Ólafsfirði, 9. janúar 1914.

Aðalheiður var húsmóðir og verkakona í Ólafsfirði. Hún giftist Þorleifi Sigurbjörnssyni frá Grímsey og eignuðust þau þrjú börn. Þau bjuggu í Grímsey í áratug frá 1937 og var síðasta bók hennar um lífið í Grímsey en þá voru um 100 manns í eyjunni. „Efni bókarinnar er gott framlag til sögu þessa lands þar sem sagt er frá lífi almúgafólks sem bjó oft við þröngar aðstæður en þraukaði samt“ segir í auglýsingu  um bókina.

Aðalheiður sótti námskeið í íslensku og vélritun í fullorðinsfræðslunni í Gagnfræðaskólanum í Ólafsfirði og aflaði sér nauðsynlegrar þekkingar til þess að skrifa. 

„Alla frænka, eins og við höfum alltaf kallað hana, var atorkusöm og greind kona. Hún var prýðilega ritfær og á efri árum skrifaði hún nokkrar bækur sem gefnar voru út og fengu góðar móttökur. Hún starfaði mikið að félagsmálum, var um tíma formaður kvenfélagsins Æskunnar. Og einnig í forystusveit slysavarnadeildar kvenna í Ólafsfirði“ segir í minningargrein um Aðalheiði í Morgunblaðinu.

Aðalheiður byrjaði seint að skrifa eins og algengt er með konur, fyrsta bók hennar kom út 1980 þegar hún var 66 ára: „Jú, það alveg rétt, ég var orðin fullorðin þegar ég byrjaði að skrifa. Sem barn ætlaði ég alltaf að verða rithöfundur, en fátæktin kom i veg fyrir að ég gæti látið þennan draum rætast fyrr en ég var orðin fullorðin" segir Aðalheiður í viðtali í Degi, 27. nóvember 1993.

Jóhanna Kristjónsdóttir skrifaði ritdóm bækur Ingibjargar Sigurðardóttur og Aðalheiðar í einu, en báðar voru skáldkonur að norðan, og sagði í lokin um bók Aðalheiðar Týnda brúðurin: „Ja, hérna. Þetta fór nú allt vel. En Aðalheiður ætti að stytta mál sitt töluvert og reyna að hafa samfellu í frásögninni. Þá gæti hún líklega skrifað þokkalega afþreyingarbók.“

Jóhanna fjallaði einnig um bók Aðalheiðar, Sturla frá Stekkjarflötum (1987) og segir í lokaorðum: „Aðalheiður Karlsdóttir hefur yndi af að skrifa. Hún er fjálg í orðum og ekki dytti mér í hug að segja, að sögur hennar séu í takt við tímann. Enda virðist hún ekki vera að sperra sig við það. Skrifar eins og henni hugnast bezt. Það er í sjálfu sér heiðarlegt.“

Aðalheiður er oft nefnd í sömu andrá og mæðgurnar Guðbjörg Hermannsdóttir og Snjólaug Bragadóttir og Birgitta Halldórsdóttir en þær eru allar norðlenskir höfundar ástarsagna og afþreyingarbókmennta. Um 1980 var mikið rætt um vinsældir þessara bókmennta í fjölmiðlum og talaði Gunnlaugur Ástgeirsson í ritdómi um „norðlenska skólann“ í þessu tilliti og greindi ástæður vinsældanna svo: 

„Karlmönnum eru reyfararnir og hetjulíferni þeirra uppbót á gráan hversdagsleikann og tilbreytingarlaust líf. Samsömunin við hetjuna eykur sjálfsálit og trúna á eigin karlmennsku, a.m.k. á meðan á lestrinum stendur og á eftir eru menn endurnærðir og tilbúnir til þess að takast að nýju á við erfiða tilveru. (Sumir myndu trúlega segja að þeir væru þá sáttari við að láta kúga sig og arðræna I kapitalísku hagkerfi). Kvenfólkinu eru þá ástarsögurnar uppbót á óhamingjusamt lif og ástlaust hjónaband. Þær geta gleymt sér i faðmi hetjunnar miklu um stund og látið hugann reika um gleðilönd ástarinnar þar sem óheftar ástriðurnar fá að blómgast. Eftir lesturinn eru þær svo endurnærðar og betur í stakk búnar til þess að hverfa aftur til hversdagsleikans með fúlan kall og grenjandi krakka. (Sumir myndu þá sjálfsagt segja að þær væru þá sáttari við að þola og þreyja möglunarlaust kvennakúgun karlrembusamfélagsins).“

Aðalheiður Karlsdóttir lést 3. júní 1996.

 

Mynd af Aðalheiði: Dagur, 27. nóvember 1993.


Ritaskrá

  • 1993  Meðal Grímseyinga: Skin og skúrir við nyrsta haf
  • 1987  Sturla frá Stekkjarflötum
  • 1984  Villt af vegi
  • 1983  Týnda brúðurinn
  • 1982  Kona vitavarðarins 
  • 1981  Fornar rætur
  • 1980  Spor á vegi 
  • 1979  Þórdís á Hrauná