SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir25. janúar 2024

MÁLÞING UM LJÓÐ OG ÓÐFRÆÐI

Næstkomandi laugardag verður haldið málþing í Salnum í Kópavogi. Þingið hverfist um ljóð og óðfræði og stendur frá kl. 12-15. Allt áhugafólk um efni þingsins er velkomið og er aðgangur ókeypis.
 
Að þinginu stendur Óðfræðifélagið Boðn en félagið gefur út tímaritið Són sem nýlega fagnaði 20 ára afmæli. Málþingið er haldið til að minna á nauðsyn þess að hafa vettvang þar sem fjallað er um ljóðlist, bæði að fornu og nýju, tímaritið er eitt fárra á Íslandi sem birtir bæði ljóð og greinar og ritdóma um ljóðlist.
 
Á þinginu verða haldin stutt erindi og auk þess flutt ljóð og ljóðaþýðingar. Flutt verða þrjú erindi og hvatt til umræðna:
  • Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur, og ritstjóri Sónar, ræðir um nauðsyn þess að fjalla um bókmenntaverk í fjölmiðlum og annars staðar á opinberum vettvangi.
  • Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, rekur útgáfusögu tímaritsins og beinir sjónum að athyglisverðu efni sem hefur birst í tímans rás.
  • Ægir Þór Jänke, ljóðskáld og þýðandi, fjallar um ljóðaþýðingar á íslensku og nauðsyn þess að fjallað sé um þær og þær gagnrýndar á einn eða annan hátt.
 
Á þinginu lesa einnig fjórar skáldkonur eigin ljóð, þær Linda Vilhjálmsdóttir, Þóra Elfa Björnsson, Birgitta Björg Guðmarsdóttir og Vala Hauksdóttir sem hlaut nýlega Ljóðstaf Jóns úr Vör
 
Í lokin verða umræður og kaffiveitingar og hægt verður að blaða í gömlum árgöngum af Són og skrá sig í áskrift.
 
Viðburðurinn er styrktur af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.

Tengt efni