SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Auður Ava Ólafsdóttir

Auður Ava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1958.

Auður Ava er menntuð sem listfræðingur og var um árabil lektor og síðan dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur einnig kennt listfræði og listasögu við Leiklistarskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Auður hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsum fjölmiðlum.

Auður Ava hefur skrifað átta skáldsögur. Fyrsta skáldverk hennar var skáldsagan Upphækkuð jörð sem kom út árið 1998. Önnur skáldsagan, Rigning í nóvember, kom síðan út árið 2004 og sú þriðja, Afleggjarinn, 2007. Þessar þrjár skáldsögur eiga það sameiginlegt að fjalla um börn og samskipti þeirra við forráðamenn sína sem eru þó ekki endilega foreldrar þeirra. Raunar eru tjáning, samskipti og samskiptaleysi einskonar leiðarstef í verkum skáldkonunnar.

Skáldsagan Ör kom út árið 2016 en hún fékk einkar góðar viðtökur og var margverðlaunuð bæði hérlendis og erlendis. Í sögunni er fjallað um meginspurningar mannlegrar tilveru: lífið, dauðann og ástina. Sársauki leikur stórt hlutverk í sögunni og hugmyndir um karlmennskuna eru eins og stef í verkinu sem er hvorttveggja í senn ferða- og þroskasaga aðalpersónunnar. Auður Ava skrifaði verkið fyrst sem leikrit en það var þó ekki sett á svið fyrr en eftir útgáfu skáldsögunnar. Hún hefur skrifað fjögur leikrit til viðbótar en öll hafa þau verið sýnd á sviði ef frá er talið leikritið Lán til góðverka sem er útvarpsleikrit. Verkin eiga það sameiginlegt að vera fremur óhefðbundin en einkar áhugaverð.

Skáldsagan Ungfrú Ísland kom út árið 2018 en í henni er ferðast aftur til fortíðar því sagan gerist að mestu í Reykjavík árið 1963. Á raunsannan hátt er vel dregið fram hve erfitt það var að vera ung kona með skáldagrillur á Íslandi á síðustu öld þegar bókmenntaheimurinn var enn afar karllægur. Um leið er einnig gerð grein fyrir flókinni stöðu samkynhneigðra á þessum tíma. Eins og í fyrri verkum Auðar er mennskan einnig miðlægt umfjöllunarefni skáldsögunnar Dýralífs sem kom út árið 2020. Sú saga er brotakenndara verk en fyrri sögur höfundar. Þar leikur Auður sér á áhugaverðan hátt með andstæðurnar myrkur og ljós; fæðing og dauði; í þeim tilgangi að fjalla um þversagnir mannsins sem getur bæði verið grimmasta dýrategundin og sú brotthættasta að mati höfundar.

Auður Ava sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Sálminn um glimmer, árið 2010. Sú bók inniheldur eitt langt ljóð þar sem að einhverju leyti er tekist á við menningararfinn, þjóðsögurnar og bókmenntirnar.

Einkennandi fyrir verk Auðar Övu eru óvenjuleg efnistök, vel skapaðar persónur og lágstemmdur húmor. Allt frá upphafi hefur hún markvisst reynt að afbyggja hugmyndir lesenda um karlmennsku og kvenleika í verkum sínum og spurt forvitnilegra spurninga um mennskuna. Þekking Auðar Övu á listfræði setur gjarnan mark sitt á skrif hennar en þau eru einatt bæði myndræn og táknræn. Textinn hennar eru iðulega afar ljóðrænn en hún leikur sér auk þess oft með formið og brýtur markvisst upp prósann eins og má til dæmis sjá í skáldsögunum Undantekningin, Ör og Dýralíf.

Auður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar, bæði heima og erlendis. Hún hefur fjórum sinnum verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og tvisvar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bæði þessi verðlaun hlaut hún síðan fyrir skáldsöguna Ör.

Afleggjarinn er margverðlaunuð bók, meðal annars hlaut hún Menningarverðlaun DV og Fjöruverðlaunin árið 2008 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2009. Skáldsagan vakti einnig mikla athygli í Frakklandi þegar hún kom þar út í þýðingu Catherine Eyjólfsson sem Rosa Candida árið 2010. Franska þýðingin verðlaunuð í Quebec í Kanada vorið 2011.

Haustið 2019 hlaut Auður frönsku Médici-verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í flokki erlendra bóka. Bókin kom út í Frakklandi það haust í þýðingu Erics Boury, sem Miss Islande. Verðlaunin eru veitt bæði frönskum og þýddum skáldsögum. 2022 hlaut Miss Islande svo önnur frönsk bókmenntaverðlaun, San Clemente Rosalía verðlaunin en þau eru veitt af ungu fólki í framhaldsskólum landsins í samvinnu við stofnunina Rosalía de Castro í Santiago de Compostela sem kennd er við samnefnt skáld.

Auður Ava býr í Reykjavík. Hún á tvær uppkomnar dætur.


Ritaskrá

  • 2023 DJ Bambi
  • 2022  Eden
  • 2020  Dýralíf
  • 2018  Ungfrú Ísland
  • 2016  Ör
  • 2012  Svartur hundur prestsins
  • 2012  Undantekningin – de arte poetica
  • 2010  Sálmurinn um glimmer
  • 2007  Afleggjarinn
  • 2004  Rigning í nóvember
  • 1998  Upphækkuð jörð

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2023  Verðlaun bóksala fyrir Dj Bambi
  • 2023  Franska orðan Officier de l’Ordre des Arts et des Lettres
  • 2022  Frönsku San Clemente Rosalía verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í franskri þýðingu
  • 2019  Frönsku Médici-verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í franskri þýðingu
  • 2018  Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Ör
  • 2016  Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Ör
  • 2011  Frönsku Prix des libraires du Québec fyrir Afleggjarann/Rosa Candida í franskri þýðingu
  • 2010  Frönsku Prix de Page fyrir Afleggjarann/Rosa Candida í franskri þýðingu
  • 2008  Menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir Afleggjarann
  • 2008  Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir Afleggjarann
  • 2004  Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir Rigningu í nóvember

 

Tilnefningar

  • 2023  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir DJ Bambi
  • 2022  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Eden
  • 2020  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Dýralíf
  • 2018  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ungfrú Ísland
  • 2018  Til Ítölsku verðlaunanna Premio Strega fyrir Ör
  • 2016  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ör
  • 2012  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Undantekninguna (de arte poetica)
  • 2012  Til Grímuverðlaunanna sem Leikskáld ársins fyrir Svarta hund prestsins
  • 2010  Til Lire Magazine (Frakkland) fyrir Rosa Candida
  • 2010  Til Prix du Roman FNAC (Frakkland) fyrir Rosa Candida
  • 2010  Til Prix Fémina (Frakkland) fyrir Rosa Candida
  • 2009  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Afleggjarann
  • 2005  Til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir Rigningu í nóvember

 

Þýðingar

(í vinnslu)

  • 2023  Éden (Eric Boury þýddi á frönsku)
  • 2021  La vérité sur la lumière (Eric Boury þýddi á frönsku)
  • 2019  Miss Islande (Eric Boury þýddi á frönsku)
  • 2017  Ör (Catherine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2016  Le rouge vif de la rhubarbe (Catherine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2014  L'exception (Catherine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2013  Ratolest' (Zuzana Stankovitsová þýddi á slóvakísku)
  • 2013  Rosa candida (Dora Maček þýddi á króatísku)
  • 2013  Stiklingen (Silje Beite Løken þýddi á norsku)
  • 2013  Zhong mei gui de nan ren (Su Yingwen yi þýddi á kínversku)
  • 2013  Ein Schmetterling im November (Sabine Leskopf þýddi á þýsku)
  • 2012  Výhonek osmilisté růže (Helena Kadečková þýddi á tékknesku)
  • 2012  Rosa candida (Stefano Rosatto þýddi á ítölsku)
  • 2012  L'embellie (Catherine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2012  La mujer es una isla (Elías Portela þýddi á spænsku)
  • 2011  Copilul din flori (Francezǎ de Doru Mareš þýddi á rúmensku)
  • 2011  The greenhouse (Brian Patrick Fitzgibbon þýddi á ensku)
  • 2011  Rosa candida (Enrique Bernárdez þýddi á spænsku)
  • 2011  Rosa candida (Kim Middel þýddi á hollensku)
  • 2010  Rosa candida (Catherine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2009  Stiklingen (Erik Skyum-Nielsen þýddi á dönsku)

Tengt efni