SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir fæddist á Siglufirði árið 1947 og fluttist sjö ára til Reykjavíkur. Hún er með M.A. próf  í sagnfræði og B.A. gráður í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Einnig lauk hún B.Ed. við Kennaraháskóla Íslands. Hún stundaði framhaldsnám í tölvunarfræði við Háskólann í Kent og fékk til þess British Council styrk.

Kristín starfaði í um 20 ár sem skrifstofustjóri á upplýsinga- og þjónustusviði mennta- og menningarmálaráðuneytis, var um tíma forstöðumaður rekstrarsviðs Háskólans í Reykjavík, var námstjóri í tölvunarfræðum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, kenndi í tæp tíu ár við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, íslensku og tölvunarfræði, og var um tíma blaðakona á Tímanum. Kristín vann einnig í nokkur ár sem bókhaldari á borgarskrifstofum Reykjavíkur, vann sem sjúkraliði, starfaði á ferðaskrifstofunni Útsýn, Kreditkassen í Osló og Landmannsbanken í Kaupmannahöfn.

Kristín tók þátt í undirbúningi og stofnun bæði Kvennaframboðs 1982 og Kvennalista árið 1983 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Árið 2017 stofnaði Kristín vefinn Kvennalistinn.is og er ritstjóri hans.

Kristín hefur verið félagi í ýmsum félagasamtökum. Má þar nefna Delta Kappa Gamma, sem eru alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum, og var um tíma formaður Gammadeildar, er í Rótarýklúbbnum Reykjavík‒Austurbær og sat í stjórn UNIFEM 1999‒2003, fyrst sem gjaldkeri og síðar varaformaður.

Kristín hefur setið í fjölda innlendra og erlendra nefnda sem tengjast tölvumálum, upplýsingamálum, vefmálum, húsnæðismálum, jafnréttismálum, innflytjendamálum sem og réttarstöðu samkynhneigðra.

 

Kristín á tvö börn.


Ritaskrá

  • 2017 Jón og Jóna. 
  • 2013 Hugprúði Bolvíkingurinn. 
  • 2010 Kynungabók, (ásamt Berglindi Rós Magnúsdóttur, Guðrúnu M. Guðmundsdóttur, Jónu Pálsdóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur).
  • 2007 „ Hlustaðu á þína innri rödd“, Kvennaframboð í Reykjavík og Kvennalisti 1982‒1987. 
  • 1982 Æskuminning.

Auk þessa hefur Kristín ritað fjöldann allan af greinum í blöð og tímarit, flutt fyrirlestra og tekið viðtöl, bæði innan lands og utan, um jafnréttismál, mannréttindamál, barnabókmenntir, upplýsingatæknimál og innflytjendamál.

Heimasíða

http://kvennalistinn.is/