SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir13. október 2020

KARLVÆNN NÓBEL

 

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum voru fyrst veitt árið 1901 og hafa þau því verið við lýði í 120 ár með fáeinum hléum. Verðlaunin sækja nafn sitt til Svíans Alfred Nobel (1833-1896) en hann setti fram skýrar óskir í erfðaskrá sinni um að megnið af auði hans ætti að renna í verðlaunasjóð. Þar væri horft til afreksfólks í bókmenntum, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði og auk þess ætti að veita sérstök friðarverðlaun.

Líkt og alþjóð veit hlaut Halldór Kiljan Laxness (1902-1998) Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 og er hann eini Íslendingurinn til að fá slíka upphefð. Þegar listinn yfir verðlaunahafa er skoðaður blasir við að verðlaunin hafa mun oftar komið í hlut karla en kvenna. Þeim hefur verið úthlutað 113 sinnum 117 verðlaunahöfum. Þar af eru konur einungis 16 talsins. Þær eru eftirtaldar:

1. 2020 Louise Glück

2. 2018 Olga Tokarczuk

3. 2015 Svetlana Alexievich

4. 2013 Alice Munro

5. 2009 Herta Müller

6. 2007 Doris Lessing

7. 2004 Elfriede Jelinek

8. 1996 Wislawa Szymborska

9. 1993 Toni Morrison

10. 1991 Nadine Gordimer

11. 1966 Nelly Sachs, ásamt Shmuel Yosef Agnon

12. 1945 Gabriela Mistral

13. 1938 Pearl Buck

14. 1928 Sigrid Undset

15. 1926 Grazia Deledda

16. 1909 Selma Lagerlöf

Nóbelsverðlaunin í bókmenntum þetta árið runnu til amerískrar skáldkonu, Louise Glück, og eftir því sem nær líður okkur í tíma fjölgar konum á listanum, sem er vel. Það vekur þó athygli að aldrei hafa verðlaunin verið veitt konum tvö ár í röð.

Til að laga megi þessa kynjaskekkju á listanum þarf konum að fjölga örar. Nóg er af þeim og er margra saknað af listanum, t.d. Virginiu Wolf, Margaret Atwood, Astrid Lindgren, Irish Murdock, Isabel Allende, Alice Walker, Françoise Sagan, Marilyn French og eru þá aðeins fáeinar nefndar.

Á flettimyndunum hér við hliðina má sjá yfirlit yfir Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum frá árinu 1971. Á vef Nóbelsverðlaunanna má sjá lista yfir verðlaunahafana frá upphafi.