SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. ágúst 2020

HVAÐ GERIR MANN AÐ SKÁLDI? - Heimanfylgja

Mynd sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674) er löngu greypt inn í þjóðarsálina. Um hann hafa verið skrifaðar langar bækur og lærðar ritgerðir enda er ævin skrautleg og skáldskapurinn stórbrotinn. Í bók Steinunnar Jóhannesdóttur, Heimanfylgju, er viðfangsefnið Hallgrímur hinn ungi, frá fæðingu til unglingsára. Leitast er við að finna það sem gerði hann að skáldi.

Er það góður bókakostur í uppeldinu, kynni af skáldum eða áfall í bernsku? Sem pínulítill patti yrkir hann um kisu, svo missir hann móður sína og flyst með föður sínum til Hóla í Hjaltadal þar sem Guðbrandur biskup Þorláksson situr og stjórnar prentverkinu. Samband feðganna Péturs og Hallgríms er stirt og snemma ljóst að stráksi er skapbráður, þrjóskur og heiftúðugur. En hann býr yfir snilligáfu, skáldskapnum, sem reynist vera tvíeggjað sverð.

Sautjánda öldin er heillandi tímabil og frjór efniviður í sögulega skáldsögu. Af nógu er að taka af merkisviðburðum og sagan tekur góðan sprett t.d. þegar dómkirkjan á Hólum fýkur í ofviðri 1624. Þá er atburðum lýst með augum stráklingsins, af sjónarhóli vinnufólks og alþýðu. Í Heimanfylgju er almennt veitt góð innsýn í líf þurfamanna, munaðarleysingja og fátæklinga, bæði daglegt amstur, gleði og sorgir. Fólkinu er kalt, það er svangt, híbýlin eru dimm og blaut, klæði og skæði léleg og vinnan bæði seinleg og erfið. Hallgrímur er fátækur hringjarasonur, buxurnar standa honum á beini og og hann er sísvangur: "Hann þráði að fá að gott að borða. Mikið að borða" (210).

Valdabarátta andlegra og veraldlegra höfðingja er fyrirferðarmikil í bókinni ásamt ættfræði og lýsingum á margvíslegum vinnubrögðum, híbýlum, mat og fatnaði. Það er stór galli að sagan líður alltof áreynslulítið áfram og engin stórátök eiga sér stað, hvorki í formi, efni né stíl. Víða er málið knúsað: "Það var í honum ferðahugur. En líka ískyggilegur ferðabeygur. Hann var með mikinn hjartslátt. Hann vissi ekki neitt um það sem beið hans. En það var magnþrungið að horfa upp á svarta skuggamynd himingnæfra fjallanna. Hann var enn með hangikjötsbragð á tungunni og hugsaði til ömmu sinnar og orða hennar: farir þú - þá farðu í Jesú nafni. Ferðabænin flæddi gegnum brjóst hans..." (376-7). Oft eru lýsingar langdregnar og ítarlegar og raunsæið er í öndvegi, t.d. þarf Hallgrímur litli bæði að míga og skíta og hor rennur úr nefi hans (231-232).

Bein samtöl eru fá og stutt og helstu persónur ná varla að lifna nógu vel í sögunni. Togstreitan milli feðganna er þó ágætlega uppbyggð og trúverðug og sumar aukapersónur eftirminnilegar, t.d. Halldóra biskupsdóttir og Geirmundur geitaskinn. Sjaldgæft er að barn og unglingur sé aðalpersóna í sögulegri skáldsögu og bernsk sýnin bæði hamlar skilningi á hlutina og sýnir þá í nýju ljósi. Steinunn nýtir sér margvíslegar heimildir og skáldar í eyðurnar. Um efnistökin segir hún: "Sagan er tilgáta mín, byggð á margra ára könnun heimilda og vísbendinga sem ég hef leyft mér að túlka með fyrirliggjandi hætti" (383). Túlkun Steinunnar bætir þó ekki miklu við þá mynd af Hallgrími sem þegar er orðin til í þjóðarsálinni og spurningunni um hvað gerir mann að skáldi er enn ósvarað.

(Steinunn Inga Óttarsdóttir, 2010)

 

 

 

 

 

Tengt efni