SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir26. ágúst 2020

Eldhús eftir máli

Stuttmynd eftir sögu Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli, verður frumsýnd á RIFF í ár.

Höfundar myndarinnar eru Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson, sem kalla sig stillakynnir.

Leikmunur í réttri stærð. Skjáskot af instagram-síðu Stilla.is

Kvikmyndaformið er svonefnd stillumynd sem sameinar ótrúlega marga miðla, s.s. ljósmyndun, leikmuna- og leikmyndargerð, brúðugerð, hljóð og alls konar tækni. Verkefnið hófst árið 2018 og hefur því tekið tvö ár að fullvinna myndina. Báðir hafa stillumyndasmiðirnir bakgrunn í tónlist. Sólrún Ylfa stundar fiðlunám í Kaupmannahöfn og Atli er hljóð- og tónlistarmaður. Hljóðmynd Eldhúss eftir máli er enda fjölbreytt og vönduð og talsetning er á herðum fagfólks, segir á vef rúv. Myndin er s.s. brúðumynd og leikmunirnir eru ótrúlega smáir og haganlega gerðir.

Verk Svövu Jakobsdóttur eru einstök í bókmenntasögunni, táknum hlaðin og absúrd, með femínískum boðskap sem á sannarlega erindi enn í dag. Leikrit eftir Völu Þórsdóttur sem byggt er á eða innblásið af smásögum Svövu var sett upp í smíðaverkstæði Þjóðleikhússins í desember 2005 í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Verkið hlaut Menningarverðlaun DV í leiklist 2005. Leikhúslistakonur 50+ stóðu fyrir leiklestri á leikverkum Svövu Jakobsdóttur á vordögum 2018 í Hannesarholti. Eldhús eftir máli, leikrit Völu Þórsdóttur eftir smásögum Svövu Jakobsdóttur var síðast í röðinni, miðvikudaginn 18. apríl og sunnudaginn 22.apríl. Verkefnis- og leikstjóri var Þórunn Magnea Magnúsdóttir. Verk Svövu eru víða lesin í skólum landsins og sífellt finnast á þeim nýir fletir.

Svava Jakobsdóttir (f. 1930) hafði með skáldsögum sínum, smásögum og leikritum mikil áhrif á íslenskt menningarlíf og samfélag á ofanverðri tuttugustu öld, en með verkum sínum miðlaði hún meðal annars skarpri sýn á stöðu konunnar í samfélaginu. Hún hefði orðið 90 ára í október í ár, en hún lést árið 2004.

Meiri um stuttmyndina frábæru, sjá instagram stilla.is

Smelltu hér til að sjá brot úr myndinni og viðtal við kvikmyndagerðarfólkið á vef rúv:

Á vefnum skáld.is er fantagóð grein Sigríðar Albertsdóttur um skáldskap Svövu.