SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. ágúst 2020

Sveinbjörg áritar bók sína

 

Í tilefni af útkomu bókarinnar Aldrei nema kona verður höfundur hennar, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, stödd í úibúi Bókakaffis Sæmundar, Ármúla 42, á morgun. Hún mun standa vaktina frá klukkan 14-18 og árita bókina fyrir þá sem vilja. Í kynningu forlagsins á bókinni segir svo:

„Aldrei nema kona er heimildaskáldsaga sem fylgir þremur ættliðum kvenna í Skagafirði á átjándu og nítjándu öld. Þetta eru fátækar konur og lífsbaráttan er hörð en með þrautseigju og æðruleysi tekst þeim að komast af þrátt fyrir hart árferði og harðneskjulegt samfélag.

Höfundurinn Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir var kennari í nær 40 ár. Í þessari sögu rekur hún æviferil langmæðgna sinna í Skagafirði og byggir þar á heimildum úr kirkjubókum, manntölum, æviskrám, dómabókum og ýmsum heimildum öðrum. Sögutíminn spannar meira en hundrað ár, frá miðri átjándu öld fram yfir miðja hina nítjándu.

Öll nöfn, tímasetningar og meginviðburðir eru sannleikanum samkvæmir og í sögunni er dregin upp mynd af lífsbaráttu þessara kvenna, fordómum samfélagsins, áföllum og gleðistundum.“

Verslunin í Ármúlanum er rúmgóð og því auðveldara en ella að halda tveggja metra fjarlægð. Þá verður heitt á könnunni og jafnvel eitthvað í boði með kaffinu.

Öll eru velkomin.

 

Myndin af Sveinbjörgu er fengin af Facebook-síðu forlagsins.