• Gunnhildur Sif Oddsdóttir

„Mig langar að fljúga og fljúga svo hátt“

Halla Eyjólfsdóttir frá Laugabóli

„Mamma var alla tíð mjög glaðlynd og léttlynd kona, mjög trúhneigð, en hafði næstum því of næma og viðkvæma lund.“[1]

Sigurður Þórðarson, sonur Höllu

Nafnið mitt [2]

Svo ég lýsi sjálfri mér,

er satt munu flestir kalla,

narra‘ ég marga‘ og nörruð er;

nafnið mitt er Halla.

...

Ég er á þessu ekki treg,

eins og skilja fróðir;

Hallfríður Guðrún heiti ég.

(Ort þegar höfundurinn, Halla, var 11 ára gömul)

Skáldkonan Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir, betur þekkt sem Halla Eyjólfsdóttir, fæddist 11. ágúst 1866 að Múla við Gilsfjörð.[3] Frá unga aldri var Halla talin skarpgreind, eftirtektarsöm, glettin, næm fyrir náttúrufegurð og hagmælt en snemma fór hún að yrkja ljóð.[4] Hún fæddist í stóran systkinahóp þar sem almennt var kátt á hjalla. Allir fjölskyldumeðlimirnir voru hagmæltir og þá sérstaklega móðir Höllu en hún orti margar vísur. Samkvæmt Sigurði, syni Höllu, var erfitt að finna „glaðværari og skemmtilegri hóp en þarna var samankominn í kotinu.“[5] Þegar Halla var 18 ára gömul lést móðir hennar og kom það þá í hlut Höllu að sjá um yngri systkini sín. Höllu áskotnaðist því ekki tækifæri til að mennta sig, nema hluta veturs við hannyrðir, og þótti henni það alla tíð mjög miður. Bæði hafði það haft áhrif að stúlkur fengu almennt ekki mikla menntun á þessum tíma en svo réð bágur efnahagur fjölskyldunnar miklu.[6] Að sögn Sigurðar var hún „þyrst í að fá að læra, og grét oft yfir því, að fá ekki þeirri löngun fullnægt.“[7] [8]


Þó svo Halla hafi fæðst að Múla er hún þó jafnan kennd við Laugaból[9] við Ísafjarðardjúp en þar bjó hún frá tvítugsaldri eftir að hún réði sig þar sem vinnukonu. Síðar átti hún sjálf eftir að standa þar fyrir búi en Halla giftist Þórði Jónssyni, syni Laugabólshjónanna, fjórum árum eftir komuna á Laugaból. 134 árum síðar, fyrir algjöra tilviljun, á þeim tíma þegar þessi ritgerð er skrifuð er bróður undirritaðrar boðið í helgardvöl í húsi nálægt Hólmavík. Við komuna aftur til Reykjavíkur kemur í ljós að þetta hús var Laugabólið hennar Höllu.


Þau Þórður eignuðust saman 14 börn en þrjú þeirra létust af barnaveiki sumarið 1904. Halla ól líka upp annan dreng, Leópold, sem og þrjú eða fjögur önnur börn til hálfs. Auk þess, að hugsa um þennan barnahóp, var mörgum börnum og unglingum komið fyrir hjá henni í tímabundnar dvalir.[10] Þórður eyddi mestum tíma sínum á sjó, þar sem hann var formaður á eigin skipi sem gert var út frá Bolungarvík og var hann þar af leiðandi fjarverandi fyrstu 20 vorvertíðirnar eftir að þau Halla giftust. Halla sá því að mestu um búið þó svo hún hefði einhverja hjálp. Hún þurfti því þannig stundum, samkvæmt syni hennar, að „vera bæði bóndinn og húsfreyjan.“[11] Húsfreyjan og bóndinn Halla var hörkudugleg; hún sá um barnaskarann, mjólkaði kýrnar, hafði umsjón með utanbæjarstörfum, tók á móti gestum, bjó til smjör og skyr og prjónaði og saumaði nærri öll föt heimilisins og meira til.[12] Til að setja þetta svo í frekara samhengi má benda á að Halla eignaðist 14 börn á 16 árum. Það eru þá 14 meðgöngur sem samsvara 10 og hálfu ári á 16 ára tímabili og þess á milli hefur hún haft ungabörn að sjá um. Það er því augljóst mál að þótt skáldskapurinn hafi átt hug hennar og hjarta gat hún ekki sinnt honum nema í hjáverkum.[13]


Höllu tókst þrátt fyrir allt að yrkja nokkur hundruð ljóð og eftir hana liggja tvær ljóðabækur. Sú fyrri, Ljóðmæli, kom út árið 1919 og sú síðari, Kvæði, kom út árið 1940 en Halla lést árið 1937 og lifði því aðeins að sjá fyrri bók sína útgefna.[14] Þessar ljóðabækur eru þó í dag, því miður, ófáanlegar og hafa verið það áratugum saman.[15] Þó svo að ljóðabækurnar í heild hafi ekki verið gefnar út í marga áratugi þá má finna ljóð eftir Höllu í tveimur bókum sem gefnar hafa verið út á þessari öld. Þær eru Svanurinn minn syngur – Ljóð og líf skáldkonunnar Höllu Eyjólfsdóttir sem Guðfinna M. Hreiðarsdóttir tók saman og bjó til prentunar og Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur sem Helga Kress bjó til útgáfu.


Besta leiðin til að „kynnast“ Höllu er að kynna sér ljóðin hennar enda virðist hún að mestu sækja innblástur í eigið líf og langanir og enginn getur sagt okkur betur frá Höllu en Halla sjálf.[16] Í ljóðum sínum byggir hún á náttúrulýsingum af nærumhverfi sínu, draumum, æskuminningum og fólkinu sem hefur orðið á vegi hennar, börnum sínum og eiginmönnum, fólkinu í sveitinni, merkum viðburðum, gleðistundum og ástvinamissi.


Þekktust af ljóðum Höllu hljóta að teljast vera Svanurinn minn syngur og Endurminning en þau hafa líklegast orðið eins þekkt og raun ber vitni þar sem nágranni og heimilisvinur Höllu á Laugabóli, læknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kaldalóns, samdi lög við þau ljóð ásamt reyndar fleiri minna þekktum.[17] Um þetta gjöfula samstarf þeirra orti Halla ljóð sem var Inngangur[18] að fyrri ljóðabók hennar Ljóðmæli og má svo sannarlega lesa úr því að Halla hafi verið ánægð með samstarfið og þá vængi sem lögin hans ljáðu ljóðunum hennar. Ætli það megi ekki segja að án samstarfs þeirra hefðu ljóð Höllu líklega ekki orðið þekkt og ef þau hefðu orðið þekkt er ekki ólíklegt að þau væru, því miður, að miklu leyti gleymd. Helga Kress bendir auk þess á að með þessum Inngangi sé Halla einnig að réttlæta útgáfu ljóða sinna með lögunum hans og hún afsaki ljóðin sín „með því að þau geti glatt þá sem eiga bágt,“ en það var ekki fátítt meðal skáldkvenna á þessum tíma að afsaka sig.[19] Slíkt á líklega að miklu leyti enn við í dag en algengt er að konur af öllum stéttum og starfsgreinum afsaki sig fyrir að taka pláss í þessum heimi sem of oft tilheyrir einungis karlmönnum.

Á Kaldalóns-tónum sér lyfta mín ljóð –

hans iljandi gullvængjasmíði –,

og þess vegna má ske þau gildi sem góð

og gleðji sem vorblærinn þýði.

Og tilgangur ljóðanna uppfylltur er –

þótt öðlist þau ritdóminn svarta –,

ef mættu þau smjúga sem geisli um gler

í gleðisnautt einstæðingshjarta.