SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 1. júlí 2020

Samhengi hlutanna

 

 

Eygló Jónsdóttir (f. 1957) sendi nýlega frá sér bók sem ber heitið Samhengi hlutanna (Sigrún Davíðsdóttir skrifaði hörkureyfara með sama heiti, 2011). Áður hefur Eygló ort ljóð og skrifað barnabók.

Í þessu verki eru fimm smásögur og nokkrir þættir úr lífi Jónasar (Hallgrímssonar). Glæpasaga í E dúr er um þrjár vinkonur sem fara saman í sumarbústað. Á yfirborðinu virðist með felldu en þótt fátt sé látið uppi er spenna í samskiptunum og ámálgað að hver stjórni sínum veruleika með hugsunum sínum. Bókabragð hefst í saumaklúbb en fer svo út í fantasíu, sama gerist í Kaffihúsinu við höfnina þar sem helstu skáld þjóðarinnar ræða saman yfir kaffi og kleinum. Geðveiki tekur völd í Svanasöng en þar renna heimar saman þegar kona gerir upp við atvik úr fortíðinni í jarðarför samstarfsmanns. Persónur úr fyrstu sögunni birtast síðan óvænt í Heilsuhælinu. Nokkrir þættir úr lífi Jónasar fjalla um þjóðskáldið í gamansömum dúr.

Bókaútgáfan Björt gefur út. Á bókarkápu eru bókahillur og mælistikur og íslensku fánalitirnir.