Klaufi að skrifa...


Meistari Málfríður Einarsdóttir á afmæli í dag!

Hún var fædd í Munaðarnesi í Stafholtstungum, Borgarfirði, 23. október 1899 og lést 25. október 1983.

Málfríður fjallaði í verkum sínum upp uppvöxt sinn, gamla sveitasamfélagið, fátækt og vinnuhörku, kulda og vosbúð á sinn sérstaka hátt. Hún skrifar um íslenskar konur, sem hafa „norpað hér í þessu hvumleiða landi án þess að eiga okkur nokkurn skóla að ganga í og fátt við að una nema helst karlmenn, svo dáskemmtilegir sem þeir voru flestir...“.

Málfríður er merkur rithöfundur með þróttmikinn og leikandi stíl, ljóðrænan, kjarnyrtan og gróteskan, hún er óborganlega fyndin og hefur afburðagott vald á íslensku. Bækur hennar, sex talsins, komu út á árunum 1978-1986 en tvær komu út að henni látinni. Bækur Málfríðar eru á mörkum skáldskapar og sjálfsbókmennta, með margvíslegum hugrenningum og pælingum, ferðasögum og mannlýsingum; í verkum hennar er viðtekinni merkingu hluta og hugtaka í ríkjandi menningu hafnað og líkaminn er útgangspunktur (sjá Ragnhildur Richter 1994). Hún skrifar um tilfinningar sínar, vanlíðan og þunglyndi (sem hún kallar Svörtupísl) og frásagnarháttur hennar varpar óvenulegu ljósi á samband sögumanns, söguhöfundar og raunverulegrar manneskju. Á áttræðisaldri þótti hún meðal frumlegustu rithöfunda landsins. Sjálf sagðist hún í viðtali hafa verið klaufi að skrifa og huglaus og ekki verið tilbúin fyrr að senda nokkuð frá sér.

Mynd: bókmenntaborgin