SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 3. ágúst 2019

Sólin rennur roða vafin

Elín Vigfúsdóttir frá Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu (d. 1986) var aldeilis hagmælt og bragvís. Hún sendi frá sér eina ljóðabók um ævina og var þá orðin fullorðin.

Hér er dæmi um kvæðasnilli hennar:

Frjálsa vor

Frjálst er yfir fósturlandi

frítt til hafs að sjá.

Sólin rennur roðavafin

regindjúpin á.

Allt er orðið ungt að nýju

ilmar hlíð og grund.

Fjöllin standa fáguð roða

fá vart næturblund.

Borgin iðar öll af lífi

allir þráðu vor.

Allir vilja eitthvað vinna,

eitthvert marka spor.

Vorið gleður, vonir rætast

- vekur sofinn lýð.

Nú skal lesa letrið bjarta

ljúfa sólskinstíð.

Þar sem sorgin sat að völdum

sást vart gleðiljós

- vorið hefur aftur yljað,

aftur grætt þar rós.

Frjálst er yfir fósturlandi

frítt til hafs að sjá.

Sólin rennur roða vafin

regindjúpin á.