SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. mars 2019

Þórdís Helgadóttir er leikskáld Borgarleikhúss

Þau tíðindi bárust í vikunni að Þórdís Helgadóttir var valin leikskáld Borgarleikhússins. Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri, tilkynnti um valið síðastliðinn þriðjudag í Borgarleikhúsinu.

Þórdís Helgadóttir er rithöfundur og leikskáld. Hún fæddist í Reykjavík árið 1981 og er menntuð í heimspeki, ritlist og ritstjórn við Háskóla Íslands, Rutgers háskóla og Háskólann í Bologna. Lengst af hefur hún starfað sem texta- og hugmyndasmiður á auglýsingastofu ásamt því að sinna ritstörfum af ýmsu tagi. Þórdís sendi frá sér smásagnasafnið Keisaramörgæsir í fyrra sem hlaut lofsamlega dóma. Þá var leikverkið Þensla sýnt á árinu í Borgarleikhúsinu sem hluti af sýningunni Núna! Auk þessa hefur Þórdís birt smásögur, örsögur, esseyjur, þýðingar og ljóð í ýmis tímarit og ljóðabók Svikaskálda ásamt því að ritstýra fyrirlestrasafni.

Val á leikskáldi Borgarleikhússins er í höndum stjórnar Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur en í henni sitja Frú Vigdís Finnbogadóttir, Brynjólfur Bjarnason auk Kristínar Eysteinsdóttur, leikhússtjóra. Sjóðurinn var stofnaður árið 2007.

Þórdís tekur við af Birni Leó Brynjarssyni en verk hans Magnum Opus verður sýnt á næsta leikári í Borgarleikhúsinu. Þórdís er fjórða konan sem hefur sinnt þessu hlutverki en fyrri leikskáld hússins eru Auður Jónsdóttir, Kristín Marja Baldursdóttir og Salka Guðmundsdóttir ásamt Jóni Gnarr og Tyrfingi Tyrfingssyni.

Myndin er sótt á vísi.is