SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 5. febrúar 2019

TÍU ÁHUGAVERÐUSTU BÆKUR ÁRSINS 2018

Íslenskar skáldkonur voru óvenju afkastamiklar á síðasta ári. Út komu rúmlega 40 bækur eftir konur sem heyra undir fagurbókmenntir fyrir fullorðna lesendur; skáldsögur, smásögur og ljóð. Undanfarin ár hefur ljóðið fengið ferskan byr undir báða vængi og nú virðast smásögur vera að sækja í sig veðrið. Það er vel og þessa gætir í flóru fagurbókmennta síðasta árs þar sem ný skáld og upprennandi eru í bland við þau reyndari.

Hér á eftir verður vakin athygli á tíu áhugaverðum bókum eftir konur sem komu út á árinu 2018 en listinn hefði vel getað verið lengri.

Ástin, Texas

Guðrún Eva Mínervudóttir

Bjartur

Smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur geymir fimm smásögur sem hverfast allar um ástina og fjalla bæði um nánd og skortinn á henni. Fjallað er um margvísleg samskipti fólks á öllum aldri af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn. Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn. Það er unun að lesa sagnasveiginn Ástin, Texas, enda hlaut hann Fjöruverðlaunin á dögunum.

Guðrún Eva hefur sent frá sér smásögur, skáldsögur og ljóð allt frá árinu 1998 og hlotið fjölda verðlauna. Frekari upplýsingar um Guðrúnu Evu má nálgast í Skáldatalinu og hlusta má á viðtal við höfundinn um smásagnasafnið í Kiljunni.

Ungfrú Ísland

Auður Ava Ólafsdóttir

Benedikt

Skáldsagan Ungfrú Ísland fjallar um unga skáldkonu sem flytur til Reykjavíkur á sjöunda áratugnum. Þar er hins vegar mun meiri eftirsókn eftir líkama hennar heldur en því sem hún hefur fram að færa. Önnur aðalsögupersónan er samkynhneigð og hverfist sagan um vinasamband þeirra. Texti bókarinnar flæðir áfram leikandi og léttur en samt má vel merkja þungan undirtón kúgunar og kvenfyrirlitningar. Ungfrú Ísland er flott skáldsaga um frelsi og fjötra. Hún hlaut Verðlaun bóksala og var tilnefnd bæði til Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Ungfrú Ísland er sjöunda skáldsaga Auðar Övu og hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Auður Ava er í Skáldatalinu og hlusta má á hana fjalla um skáldsöguna í Kiljunni.

Kláði

Fríða Ísberg

Partus

Smásagnasafnið Kláði geymir 14 sögur sem fjalla um manneskjur sem á einhvern hátt klæja undan væntingum og kröfum nútímasamfélags. Sögurnar eru af ýmsu efni en gefa flestar innsýn í líf ungu kynslóðarinnar sem hefur alist upp við samfélagsmiðlana og þrífst á lækum. Kláði er afar frjótt smásagnasafn sem talar beint inn í samtímann. Verkið var tilnefnt til Fjöruverðlaunanna og hlaut annað sæti Verðlauna bóksala.

Kláði er önnur bók Fríðu en áður hefur hún sent frá sér ljóðabók. Hér má nálgast viðtal við Fríðu Ísberg í Kiljunni um smásagnasafnið og frekari upplýsingar um höfund má nálgast í Skáldatalinu.

 

 

Sálumessa

Gerður Kristný

Mál og menning

Sálumessa er byggð á sannsögulegum atburðum; sungin er messa yfir konu sem svipti sig lífi árið 2003 eftir að hafa glímt við afleiðingar kynferðislegs ofbeldis af hálfu bróður síns. Gerður Kristný fjallaði um ofbeldið í Mannlífi á sínum tíma og uppskar kæru bróðurins og þungan dóm siðanefndar Blaðamannafélagsins. Sálumessa geymir meitlað ljóðmál þar sem engu er ofaukið. Dregnar eru upp magnaðar myndir sem sitja lengi í lesandanum að lestri loknum. Lesturinn er sannkölluð gæsahúð. Sálumessa hlaut fyrsta sæti Verðlauna bóksala, í flokki ljóðabóka, og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Gerður Kristný hefur sent frá sér fjölda verka og er margverðlaunaður höfundur. Frekari upplýsingar um höfund má nálgast í Skáldatalinu og hlusta má á Gerði Kristnýju fjalla um ljóðabókina í Kiljunni.

Dauðinn í veiðarfæraskúrnum

Elísabet Jökulsdóttir

JPV

Dauðinn í veiðarfæraskúrnum: frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni er kveðja Elísabetar til móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, og sömuleiðis fjallar bókin um hinstu kveðju móðurinnar en hún lést í maí árið 2017. Líkt og jafnan er stíll Elísabetar frumlegur, berorður og einlægur. Hvergi örlar á væmni eða tilgerð í textanum en samt nær söknuðurinn, sárindin og væntumþykjan að skína vel í gegn. Það er ekki á allra færi að takast á við jafn erfitt og viðkvæmt viðfangsefni og hér er gert en Elísabet gerir þetta listavel.

Elísabet Jökulsdóttir hefur sent frá sér fjölda verka allt frá árinu 1989. Frekari upplýsingar um höfund eru í Skáldatalinu.

Smáa letrið

Linda Vilhjálmsdóttir

Mál og menning

Smáa letrið geymir feminísk byltingarljóð um líf og hlutskipti kvenna í bland við einlæga og opinskáa umfjöllun skáldkonunnar um eigið líf. Fjallað er um formæður og feðraveldi og einnig koma karlmenn við sögu, þar sem fjallað er um uppreist æru, og Valhöll sem skírskotar bæði til nútímans og í heim goða. Smáa letrið er margslungin bók sem hreyfir mjög við lesandanum. Hún hlaut annað sæti Verðlauna bóksala, í flokki ljóðabóka.

Smáa letrið er sjöunda ljóðabók Lindu en frekari upplýsingar um höfund má nálgast í Skáldatalinu og hlusta má á viðtal við Lindu um ljóðabókina í Kiljunni.

Manneskjusaga

Steinunn Ásmundsdóttir

Bókabeitan

Manneskjusaga er skáldævisaga. Hún segir frá ungri, ættleiddri stúlku (1959-2008) sem finnst hún hvergi passa inn og fer að leita uppruna síns. Kynni hennar af blóðföður og ömmu verða þó ekki til að líðan hennar batni. Manneskjusaga er saga af þöggun og skilningsleysi og enn frekar vangetu samfélagsins til þess að koma skaðaðri manneskju til hjálpar. Sagan er afar átakanleg og nær inn að kviku; hún er afar raunsönn, sannfærandi og falleg í öllum ljótleika sínum.

Þetta er fyrsta skáldsaga Steinunnar en hún hefur áður sent frá sér ljóðabækur. Hér má nálgast heimasíðu hennar og einnig eru upplýsingar um höfund í Skáldatalinu.

 

 

Að eilífu ástin

Fríða Bonnie Andersen

Veröld

Skáldsagan Að eilífu ástin segir annars vegar frá lesbískum ástum í París og á Íslandi á millistríðsárunum og hins vegar teygir sagan sig inn í nútímann þar sem transkona kemur við sögu. Að eilífu ástin fjallar því fyrst og fremst um ástina og þörfina á að fá að vera maður sjálfur. Þetta er afar vel skrifuð saga sem á brýnt erindi, þar sem tekist er á við fordómafullt samfélag á fallegan og eftirminnilegan hátt. Þetta er afar vel gert hjá Fríðu Bonnie.

Að eilífu ástin er fyrsta skáldsaga Fríðu Bonnie fyrir fullorðna. Frekari upplýsingar um höfund eru í Skáldatalinu og nálgast má viðtal við Fríðu Bonnie um skáldsöguna í Kiljunni.

 

Orðskýringar

Hildur Knútsdóttir

Partus

Ljóðabókin Orðskýringar er eins konar ljóðræn orðabók. Bókin geymir 16 ljóð, og þar af er fyrsta ljóðið listi yfir þau orð sem til stendur að útskýra í bókinni. Fyrsta ljóðið er einnig eina ljóðið sem ber titil og nefnist það Orð. Það er býsna frumleg nálgun að yrkja ljóð sem geyma orðskýringar. Ljóðin eru líka öll að forminu til í anda orðskýringa, knöpp og lýsandi; mörg beitt og eftirminnileg. Þetta er flott hugmynd.

Orðskýringar er fyrsta ljóðabók Hildar en hún hefur áður sent frá sér skáldsögur, fyrir bæði börn og fullorðna. Hildur Knútsdóttir er í Skáldatalinu.

 

 

Fræ sem frjóvga myrkrið

Eva Rún Snorradóttir

Benedikt

Ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið er tvískipt; fyrri hluti hennar geymir stutta, tölusetta leikþætti og sá seinni ljóð og örsögur í bland við stöku ljósmynd. Bókin fjallar um reynsluheim kvenna. Nálgun höfundar er gjarna skemmtilega frumleg og oft meinhæðin en það er mjög grunnt á harmleiknum; ofbeldi, nauðgun og niðurlægingu. Bókin er allt í senn beitt, ljóðræn, frumleg, dónaleg, sláandi, fersk og frjó. Mögnuð lesning.

Fræ sem frjóvga myrkrið er þriðja ljóðabók Evu Rúnar. Eva Rún er í Skáldatalinu og hlýða má á gagnrýnendur Kiljunnar ræða ljóðabókina hér.