SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn16. janúar 2019

Guðrún Eva, Kristín Helga og Auður, Bára og Steinunn hreppa Fjöruverðlaunin í ár

Fjöruverðlaunin 2019 Guðrún Eva, Kristín Helga, Auður, Bára og Steinunn

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi voru veitt við hátíðlega athöfn í Höfða í dag, miðvikudaginn 16. janúar.Verðlaun voru veitt í þremur flokkum. Hlaut Guðrún Eva Mínervudóttir verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir smásagnasafnið Ástin, Texas, Kristín Helga Gunnarsdóttir í flokki barnabókmennta fyrir bókina Fíasól gefst aldrei upp og Auður Jónsdóttir, Bára Huld Beck og Steinun Stefánsdóttir hlutu verðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla.

 

Guðrún Eva Mínervudóttir

Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Í umfjöllun dómnefndar um verk Guðrúnar Evu segir: ,,Smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur geymir fimm smásögur sem láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Umfjöllunarefnið er nánd og þá einkum skorturinn á henni. Tilvitnun í byrjun bókar slær tóninn en þar er vitnað í orð Lacans: „Ástarsambönd eru ekki til.“ Heita má að þetta sé sá grunntónn sem sveigir sögurnar saman og þær hverfast um, hver með sínum hætti. Ástarsamböndin í sögunum eru af fjölbreyttum toga en eiga það sameiginlegt að vera á einhvern hátt löskuð. Þetta er býsna vel gert; mannlýsingar eru trúverðugar og vekja samkennd með persónum og samskiptum þeirra er lýst af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn. Þrátt fyrir erfitt viðfangsefni er stíllinn léttur, lipur og myndrænn og jafnan er stutt í húmorinn. Það er unun að lesa sagnasveiginn Ástin, Texas. "

 

Kristín Helga Gunnarsdótti

Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Dómnefndin leggur áherslu á mikilvægi barnabókmennta og segir að Kristín Helga dragi upp ,,upp sannfærandi myndir af átökum og uppgötvunum í lífi Fíu Sólar, breyskleika hennar og styrk. Heimur Fíu Sólar er ekki samsettur af staðalímyndum heldur eru persónurnar lifandi og margræðar. Fíu Sól finnst hún órétti beitt en fræðist um rétt sinn með hjálp frá Umboðsmanni barna. Hún verður „björgunarforingi í eigin hjálparsveit“ og aðstoðar önnur börn í leit að réttlæti. Fía Sól gefst aldrei upp hvetur til umræðu, vekur lesendur til umhugsunar um þennan mikilvæga málaflokk og vekur athygli á starfi Umboðsmanns barna. Hin íslenska Lína langsokkur Fía Sól höfðar til allra aldurshópa hvort sem til yndislestrar fyrir 11 ára og yngri eða upplestrar fyrir yngri börn. "

 

Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur

Í umfjöllun dómnefndar um Þjáningarfrelsið segir að verkið sé,, frábært framtak í heimi þar sem brýnt er að standa vörð um tjáningarfrelsið, í veröld þar sem afskipti stjórnmálaafla og eignarhald á fjölmiðlum getur leitt til hagsmunaárekstra. Bókin er safn viðtala við fólk sem tengist fjölmiðlum á einn eða annan máta. Útkoman er fjölbreytt umfjöllun um þá, auk þess sem áhrif samfélagsmiðla, persónuverndar, pólitíkur og peninga eru skoðuð. Þjáningarfrelsið tekur fyrir hin ýmsu mál út frá ólíkum viðmælendum en eiga það sameiginlegt að hafa verið á milli tannanna á Íslendingum. Allt frá gömlum málum til atburða sem gerast rétt áður en bókin fer í prentun. Þjáningafrelsið er ekki bók sem leitar lausna en lesandi er vissulega fróðari eftir lesturinn. Bókin skilur eftir sig spurningar, hugmyndir og vangaveltur um samfélagið og öruggt er að bókin verður góð heimild í framtíðinni til að skoða stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar."

 

Ása Jóhanns