SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. desember 2018

HuX eftir Steinunni Þorsteinsdóttur

Út er komin bókin HuX eftir Steinunni Þorsteinsdóttur. Þetta er fyrsta ljóða- og örsögubók Steinunnar en hún hefur áður skrifað sagnfræðirit og leikrit. Höfundur lýsir HuX á þann veg að hún sé ,,hringekja textabrota sem geta staðið ein og sér en saman mynda þau sögu sem hefst við sólarupprás í landi hinum megin við hafið og lokast hjá kaffivél við glugga í bæ sem kenndur er við höfn."

Hér á eftir fara þrjú textabrot úr ljóða- og örsögubókinni HuX:

Vissir þú að ólífur gera þig hamingjusama sagði hann og rétti mér eina. Ég horfði á hana á milli fingra hans og gat ekki haft augun af þeim – voru eitthvað svo undurfallegir, sterkir, langir og lífsreyndir. Ég leit upp og synti örstutt í sögunni sem speglaðist i augunum og velti fyrir mér hvort það væri mögulegt að kaupa hamingju í skál. Tók við henni, snerti fingur hans og tíminn stóð í stað – ég, hann og hamingjan. Og þar sem ég stóð og horfði á hamingjuna mundi ég að ég borðaði ekki ólífur, ekki einu sinni þótt þeim fylgdu fallegir fingur.

...

Laugardagsmorgunn

og ég lauma laginu okkar

í kaffibolla dagsins

um leið og prinssessan

á bauninni kvartar yfir

beiskleika í takti dagsins.

...

Það rigndi svo mikið í nótt að þú sagðir mér að þig hefði

dreymt flóðhesta.