• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Fantasía og karnival í sagnaheimi Svövu Jakobsdóttur


Í grein sinni „Reynsla og raunveruleiki“ sem birtist í bókinni Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur fjallar Svava Jakobsdóttir m.a. um það hvernig unnt sé að gera innri reynslu raunverulega í skáldskap. Hún lýsir líðan sinni þegar hún stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að gerast rithöfundur og hvaða hindranir hún þurfti að yfirstíga. Hún segist fljótlega hafa gert sér grein fyrir því að sem kvenrithöfundur skorti hana þá lífsreynslu sem bókmenntir eru smíðaðar úr. Einnig talar hún um að henni hefði ekki fundist hún hafa reynt neitt sem hæfði í skáldskap og segir í framhaldi af því:


En um leið var ég jafnsannfærð um það, að ætti ég að ná lágmarksárangri

í listsköpun, yrði ég að fylgja þeirri frumskyldu að vera trú sjálfri mér og

minni eigin reynslu – eða í fáum orðum sagt – ég yrði að skrifa um það

sem ég þekkti.[1]


Eftir að Svava hafði beitt aðferðum sálfræðilegs raunsæis í skrifum sínum segist hún hafa fundið æ meira fyrir takmörkunum þeirrar frásagnaraðferðar því hún vildi láta innri reynslu kvenna koma upp á yfirborðið. Hún taldi ekki nægilegt að sýna að konur ættu sér sérstakt innra líf heldur vildi hún láta lesandann standa andspænis þeirri reynslu, lýsa henni og taka afstöðu og því greip hún í æ ríkara mæli til fantastískrar frásagnaraðferðar. Með fantasíunni segist Svava geta fengið persónur sögunnar, svo og lesandann, til að bregðast við innri reynslu kvenna á raunhæfan hátt – „líkt og væri hún hlutlægur veruleiki“.[2] Þetta gerir hún með því að tengja saman í einu og sama verkinu „lýsingu á innri veruleik kvenna í hlutlægu formi og raunsæja hversdagslýsingu á umhverfi þeirra (og okkar allra)“.[3] Hún segir einnig:


Kannski er bókmenntaaðferð sem þannig er tilkomin nokkurs konar mót-

mæli eða ögrun við kvenlýsingar í bókmenntahefðinni. Við hina karlmann-

legu bókmenntahefð segi ég: Gott og vel, ég skal ræða við ykkur á grund-

velli hins hlutlæga raunsæis en með mínum skilyrðum – innra borðið skal

snúa út.[4]


Ummæli Svövu má ekki túlka sem svo að frásagnarháttur fantasíunnar sé kvenlegur ritháttur og því eingöngu ætlaður konum. Hinsvegar má ljóst vera að fantasían er í jaðarstöðu, líkt og konan, og jafnframt í uppreisn við ríkjandi bókmenntahefð því hún leysir úr viðjum byltingarkennt tungumál og bælda orðræðu.

Í bókinni Fantasy: The Literature of Subversion bendir Rosemary Jackson á að ekki sé hægt að skilja fantasíuna án þess að skilgreina þjóðfélagið sem hún er sprottin úr. Hún segir að fantasían reyni að fylla í eyðu sem sé tilkomin vegna þeirra hafta sem mismunandi menningarheimar setji og að hún birti þrá eftir að finna á ný eitthvað sem við innst inni skynjum sem fjarveru og/eða missi. Að sögn Jacksons leitar fantasían uppi það óséða og ósagða í menningu okkar, allt sem hefur verið þaggað niður og/eða fjarlægt og einnig leitast hún við að grafa undan skrifuðum og óskrifuðum reglum samfélagsins og sýna okkur veruleikann í nýju og áður óþekktu ljósi.[5] Í heimi fantasíunnar eru gjarnan óhugnanleg tákn sem í mörgum tilvikum vísa til þeirrar staðreyndar að tilraunir mannsins til að uppfylla þrá sína og skort eru fyrirfram vonlausar.

Ef litið er til sagna Svövu með þessa lýsingu Rosemary Jacksons í huga, má sjá að í mörgum þeirra ríkir þrá eftir samruna og jafnvægi. Því jafnvægi er hinsvegar aldrei náð því ævinlega er gjá á milli þess sem persónurnar þrá og þess sem þær upplifa. Sem dæmi má nefna sögurnar Krabbadýr, brúðkaup, andlát úr smásagnasafninu Veizla undir grjótvegg og Í draumi manns og Gefið hvort öðru … úr samnefndu smásagnasafni. Allar hverfast sögurnar um giftingu og mismunandi væntingar aðalpersónanna, sem allar eru konur, til þessa hátíðlega og merkilega viðburðar en í öllum tilvikum er ávinningur kvennanna enginn. Í stað gleði og fullnægju ástarinnar lokast þær inni í heimi hrörnunar, aflimunar og/eða dauða. Veröldin sem þær lifa og hrærast í tilheyrir ekki þeirra eigin sjálfi og myndmál sagnanna vísar til þess að vitund þeirra sé smátt og smátt að þurrkast út. Þær lifa ekki sjálfstæðu lífi, eru allar hluti af einhverju eða einhverjum öðrum og í giftingunni glata þær sjálfri sér til þessa annars. Í sögunum er krökkt af endurtekningum og innilokunar- og árásarmyndum sem staðfesta frelsissviptingu kvennanna. Hjónabandið er táknrænt fangelsi en konurnar gera sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd fyrr en um seinan. Konan sem lokast inni Í draumi manns giftir sig í víðum marglitum serk sem er tákn þess frelsis sem hún hefur hingað til notið og hyggst njóta áfram:


Hún hafði sagt við unnusta sinn að hann væri tilvalinn brúðarkjóll. Sérstakur

hvítur brúðarkjóll með blúndu gerði mann að manneskju sem maður hefði

aldrei verið áður og þekkti ekki einu sinni sjálfur og það væri það minnsta,

hafði hún sagt, að maður þekkti sjálfan sig á brúðkaupsdaginn.[6]


Frelsið snýst upp í andhverfu sína á brúðkaupsnóttina þegar maðurinn breytir serknum í hvítan, síðan brúðarkjól en um leið hlutgerir hann drauma sína og þær aldagömlu hugmyndir að í hjónabandinu verði konan eign mannsins: „Þá fyrst á ég þig, hvíslaði hann, þegar ég hef rifið utan af þér þennan hvíta hjúp. Þá ertu mín!“[7] Hinn innri veruleiki er hlutgerður og það sem konan hefur í raun alltaf vitað en bælt innra með sér er sýnt á grófan og óhugnanlegan hátt. Skyndilega er hún stödd í framandi heimi, uppfullum af þunglamalegum húsgögnum huldum ryki: „Rykið virtist leita inn fremur en út og það fyllti herbergið og öll hennar skilningarvit uns henni fannst hún vera að kafna.“[8] Hún getur ekkert farið og þó hún hafi eftir árás mannsins um nóttina falið hann lögreglunni á vald getur hún sig hvergi hreyft án hans íhlutunar. Hann hefur samsamað hana sínu eigin sjálfi, ekki aðeins með því að loka hana inni í herbergi með rimlum fyrir gluggunum heldur er hún einnig fangi í hugskoti hans:


Þegar hann réðst á hana og reif utan af henni silki, blúndur og slör, fór hún

að æpa. Það var engu líkara en hann væri að rífa af henni húðina. Innsta kvika

tilveru hennar stóð opin og óvarin svo jafnvel andrúmsloftið nísti hana eins

og svipuhögg og hún veinaði af sársauka. En sárast veinaði hún undan augna-

tilliti hans sem endurspeglaði í sífellu nýja mynd af henni ýmist í blíðu, losta

eða grimmd og hún var ofurseld þessum ókunnu konumyndum sem hún sá í

augum hans og hafði sjálf ekki lengur vald á því hver hún var.[9]


Tilraunir konunnar til að komast frá manninum reynast tilgangslausar: „Hún var læst inni í draumaheimi hans og hann einn gat hleypt henni út.“[10]

Í sögunum Gefið hvort öðru … og Krabbadýr, brúðkaup, andlát eru konurnar búnar undir þennan „óhugnanlega“ atburð – brúðkaupið. Þær vita að það felur í sér afmáun sjálfsins og sú vissa er m.a. hlutgerð í afhöggnu hendinni sem konan í Gefið hvort öðru … færir manni sínum á brúðkaupsdaginn:


Nú voru síðustu forvöð að taka til hendi. Enn einu sinni renndi hún

augum yfir snyrtiborðið til að fullvissa sig um að allt væri til reiðu. Á

öðrum borðsendanum stóð hreint handklæði, skál með vatni, baðmullar-

hnoðrar í krukku og stór uppvafin lengja af sáratrafi. Á hinn borðs-

endann hafði hún breitt plastdúk til að verja plötuna skemmdum. Hún

opnaði efstu skúffuna í snyrtiborðinu og tók þaðan öxi. Öxina bar hún

upp að birtunni og íhugul á svip renndi hún fingri yfir eggina. Síðan

lagði hún aðra hönd á plastdúkinn, með hinni hóf hún öxina á loft,

miðaði, og með snöggu átaki hjó hún af sér höndina.[11]


Það að gefa hönd sína er tekið bókstaflega og unga konan mætir til kirkju með stúfinn. Þegar hún réttir tilvonandi eiginmanni snyrtilega, afhöggvinn liminn hrekkur maðurinn í kút og neitar að taka við þessari óvæntu gjöf. Neitun mannsins veldur stúlkunni undrun og óróa: „Hafði hann ekki sjálfur beðið um hana?“[12] „Hvernig var hægt að gefa hönd án þess fylgdi stúfur?“[13] Líkt og í sögunni Í draumi manns vill maðurinn konuna heila og óskipta en táknheimur sögunnar vísar alfarið til þess að slíkt er óhugsandi nema svo „skemmtilega“ vilji til að karlmönnunum takist að loka konur sínar inni eða afmá vitund þeirra og vilja. En það er einmitt vilji kvennanna sjálfra sem verður undan að láta þó á ólíkan hátt sé. Í Draumi manns verður konan tvöfaldri innilokun að bráð, innilokun í húsi og vitund eiginmannsins og þar með er hún ekki lengur frjáls.Í Gefið hvort öðru … grípur unga konan til þess örþrifaráðs að æða til gervilimasmiðs sem án tafar smellir á hana nýrri hönd. Þar með tekst henni að blekkja manninn sem glaður í bragði tekur á móti henni við altarið, heilli að nýju. Lesandi veit að konan gefur sig þó ekki heila og óskipta því til að eiginmaðurinn taki við henni þarf hún að sýnast, blekkja og afvegaleiða. Þannig sundrar hjónabandið um leið og það sameinar: Það sameinar konuna manninum en sundrar henni frá sjálfri sér og máir út vitund hennar og vilja.

Í Draumi manns og Gefið hvort öðru … er meginþemað gifting sem jafngildir frelsissviptingu en í sögunni Krabbadýr, brúðkaup, andlát gengur Svava enn lengra og lætur þemað hverfast um giftingu sem jafngildir andláti en það fellur vel að staðhæfingu Rosemary Jacksons um að fantasían afhjúpi þrá sem aldrei verður uppfyllt.

Í upphafi sögunnar er stúlkan að undirbúa sig undir brúðkaupið en frá fimm ára aldrei hefur hún vitað að á brúðkaupsdaginn mun hún deyja. Á skipulegan hátt hefur hún einsett sér að lesa allar bækur heimsins áður en hún deyr og á brúðkaupsdaginn situr hún við lestur á síðustu bókinni sem hún hefur heitið sjálfri sér að ljúka áður en hún gengur fram fyrir altarið. Þetta er sagan af litla krabbadýrinu sem buslar í sjónum og heldur að það sé að gera eitthvert gagn. Sú saga er endurtekin a.m.k. tvisar og það veldur stúlkunni óróa. Það er sama hve mikið hún reynir, henni tekst ekki að ljúka sögunni af litla krabbadýrinu því smávera þessi er tákn fyrir hefðina – allar þær fjölmörgu konur sem sitja heima og gæta bús og barna á meðan karlmennirnir eru á ferð og flugi að færa björg í bú:


Þetta litla krabbadýr var yngst og heldur lítilfjörlegt að vexti og kröftum;

þess vegna vildu krabbasystkinin ekki hafa það með í leikjum sínum. Þau

áttu lítið fley og fagrar árar eins og þau höfðu stundum séð á yfirborði sjávar

og svo reru þau út á hverjum morgni til að leggja undir sig sjóinn. Og á

hverjum morgni sögðu þau litla krabbadýrinu að þau kæmust ekki áfram

nema það yrði eftir heima til að hreyfa sjóinn og litla krabbadýrið trúði

þessu af því að það vissi ekkert um sjávarstrauma. Þess vegna lá það alla

daga endilangt á sjávarbotni og baðaði út öngunum. Og alveg innst inn í

sína litlu krabbasál fann það til gleði yfir því hvernig vatnið sem þrýstist

undan limum þess varð að þungum straumum og ólgandi rismiklum

öldum sem sprungu í hvíta froðu lengst uppi á yfirborði, berandi fram

ótal fögur fley …[14]


Saga litla krabbadýrsins endurspeglar sögu konunnar en munurinn er sá að hún gerir sér grein fyrir tilgangsleysi þessa lífs en krabbadýrið ekki. Á meðan hún reynir að klóra sig fram úr og komast til botns í sögunni er tilvonandi eiginmaður hennar á þönum. Hann sér um byggingarframkvæmdir húss sem rís á einum degi, kaupir húsgögn o.fl. og er svo önnum kafinn að hann má ekki einu sinni vera að því að skipta um föt fyrir brúðkaupið. En konunni vinnst ekkert, hún fyllist einungis spennu og óþoli yfir þessari eilífu endurtekningu í lífi krabbadýrsins og verður þegar yfir lýkur að sætta sig við að sagan tekur engan enda: Framhaldið felur einungis í sér enn fleiri endurtekningar. Líkt og maður sem villist í þoku og gengur sífellt fram á sömu kennileitin villist hún í þoku hefðarinnar og deyr. Hún hnígur niður fyrir framan altarið og gefur upp öndina í hjónarúmi á marmarasökkli með níutíu og níu ára ábyrgð![15]

Endurtekningin í sögunni hefur óhugnanleg áhrif. Hún leggur áherslu á varnarleysi manneskjunnar í heimi þar sem hún hefur ekkert að segja, getur engu breytt og engin áhrif haft. Ekki er aðeins um endurtekningar að ræða innan þessarar tilteknu sögu heldur endurtaka þær sögur sem hér hefur verið fjallað um hver aðra: Það er sama til hvaða ráða konurnar grípa, í brúðkaupinu fjarlægjast konurnar þrá sína enn frekar og tapa sjálfstæðum vilja, lífi eða limum.


Gróteska og karnival


Í fantastískum bókmenntum ríkir gjarnan mikill óhugnaður, öngþveiti og örvænting, eins og hér hefur verið bent á, en einnig gróteskur húmor sem er eitt sterkasta höfundareinkenni Svövu Jakobsdóttur. Gróteski hláturinn á rætur að rekja til menippískrar satíru en á þau tengsl hefur rússneski fræðimaðurinn Mikhael Bakhtin m.a. bent í bók sinni Problems of Dostoevsky‘s Poetics.

Hugtakið menippísk satíra er kennd við heimspekinginn Menippos frá Gadara sem var uppi á 3. öld fyrir Krist. Í menippíunni er krafan um sögulegt raunsæi eða sennileika sniðgengin og í menippískum verkum eru skilin milli þessa heims og annarra óljós eða engin. Fortíð, nútíð og framtíð er blandað saman og samræður við dauðar sálir eru algengur og eðlilegur tjáskiptaháttur.[16] Ofskynjanir, draumar, geðveiki, sérkennileg hegðun, undarleg orðræða, líkamleg hamskipti og afbrigðilegar aðstæður eru viðmiðun verka af þessu tagi og farið er yfir öll mörk þar sem glæpir, erótík, geðveiki og dauði er meðhöndlað óttalaust. Menippíuna tengir Bakthin við hugmyndina um karnivalið en það var opinber athöfn sem allir tóku þátt í. Götur borga og bæja fylltust af kátu og hlæjandi fólki íklæddu búningum og þá fáu daga sem karnivalið stóð yfir nýtti fólk til að snúa á veruleikann og venjubundnar at