SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 3. desember 2017

,,VOPN GEGN ÞUNGA LÍFSINS” – Viðtal við Margréti Lóu Jónsdóttur

Júíana Sveinsdóttir fór á stúfana:

Þegar ég ætlaði að hitta skáldkonuna var sjö stiga frost úti en vegna anna hjá okkur báðum hittumst við ekki fyrr en fimm dögum seinna, í níu stiga hita og rigningu á 99 ára fullveldi landsins. Margrét Lóa Jónsdóttir er skáld, móðir og hundaeigandi og kennir auk þess íslensku, ensku og leiklist í Tækniskólanum. Hún kemur inn á Kaffibrennsluna með stóru, fallegu augu sín, haddinn sinn fagra og yndislega nærveru. Tilurð fundar okkar er að fjalla um nýjustu ljóðabók hennar Biðröðin framundan sem er ellefta ljóðabók Margrétar Lóu en hún hefur einnig gefið út skáldsögu og hljómdisk. Síðastliðin ár hefur Margrét Lóa einnig fengist töluvert við ljóðaþýðingar, sérstaklega úr spænsku. Við komum okkur þægilega fyrir á kaffihúsinu með latte og súkkulaðibolla.

Voru orð alltaf partur af framtíðarsýninni?

Já, engin spurning. Ég las alltaf mikið sem krakki og gaf fyrstu ljóðabókina mín út 18 ára gömul, Glerúlfar. Á þessum árum var ég í miklum pælingum með súrrealisma, dadaisma og verk Vladimir Mayakovsky og var heilluð af collage eða klippimyndatækni. Ég fór í Kvennó og þaðan í HÍ, þar sem ég lagði stund á íslensku og heimspeki og lauk BA prófi 1996. Eftir það var förinni heitið til Spánar, San Sebastian, og þar lagði ég stund á viðbótarnám í listheimspeki.

Hefurðu áhyggjur af framtíðinni?

biðröðin framundan byrjar á setningu úr Jobsbók: „Minnstu þess Guð, að líf mitt er andgustur!“ Lífið er eitt andartak en í núinu er biðin oft sársaukafull og við kynnumst ekki voninni fyrr en við þurfum á henni að halda. Nei, ég er ekki hrædd við hana, hún breytist stöðugt. Óttinn er eyðandi afl og þar er ekkert rúm fyrir sköpunargáfu.

Þessi titill biðröðin framundan?

Þetta er ljóðabálkur/saga sem er skrifað með kímni í farteskinu. Ég er að skoða líðandi stund og forðast að dæma. Ég vil takast á við kviku samfélagsins og þegar ég vann að verkinu þá nýtti ég mér fréttir og fjölmiðla. Þessar endalausu biðraðir, þessar endalausu öfgar. Það er dálítið fyndið að refur hafi skotist yfir bílaplanið hjá nýrri búð meðan allir stóðu í biðröð. Kannski voru þeir einmitt að bíða eftir dýri, ekki rebba, heldur risastórum fíl.

lifi lífið

(enn ein biðröðin framundan)


einhver er óðamála


til að geta verslað hér
þarf maður aðgangskort
en í augnablikinu
hlykkjast röðin eftir þeim
út um alla búð


ég hlusta til skiptis á tónlist og
ljóð af netinu


einn og einn ryðst framúr
en mér liggur ekkert á


í þessari röð erum við nánast
eins og ein stór fjölskylda

„En ekki er öll bið jafn skemmtileg, hún er ekki góð fyrir foreldra unglings sem er horfinn og „ djöflar skjótast upp úr holræsum og hrifsa til sín börnin okkar ,“ eins og ég segi á einum stað í þessari nýju ljóðabók. Biðin er viðfangsefnið. Fólk bíður eftir dvalarleyfi á Íslandi og svo eru biðraðir fyrir utan hjálparstofnanir, þar bíða svangar manneskjur eftir mat í poka. Við erum öll að leita að einhverju og við þurfum líka mjög oft að bíða í biðröðum.“

Biðröðin framunan - Margrét Lóa Jónsdóttir

Systurbók og húmor

Talið leiðist að söngvaranum Bowie og hvað við söknum hans báðar, svolítið eins og vinur hafi látist. Þá segir Margrét mér frá öðru verki sínu Timasetningar sem kom út árið 2005 og er systir nýju bókarinnar, biðröðin framundan. Í Tímasetningum var Margrét Lóa undir áhrifum Bowie sem sagði einhvern tíma að hann væri orðinn leiður á textunum sínum og klippti því orðin út og raðaði þeim svo aftur saman. Hann notaði sem sagt collage eða klippimyndatækni. Sú bók fjallaði um vonina, ástina og hryðjuverk og „þar notaði ég einnig klippitækni, safnaði að mér úrklippum úr dagblöðunum meðan ég vann að henni.“

Tími okkar Margrétar Lóu er næstum því á þrotum. Að lokum tölum við um húmor. „Og þá erum við eiginlega komin aftur að upphafinu“, segir Margrét Lóa og hlær, „að Glerúlfum. Fyrsta ljóðabókin mín einkennist nefnilega mjög af svörtum húmor.“ Við kveðjumst eftir gott spjall og erum sammála um það að bæði vonin og kímnigáfan séu öflug vopn gegn þunga lífsins.

Karolina Fund og útgáfuhóf

Ljóðabók Margrétar Lóu Biðröðin framundan er í söfnun á Karolina Fund og eru einungis fjórir dagar eftir. Auk ljóðabókarinnar er hægt að eignast fallega silkiþrykkta ljóðapúða og taupoka með áletruðum ljóðum og myndum. Hér má nálgast söfnun Margrétar Lóu á Karolina Fund.

Útgáfuhóf verður næstkomandi fimmtudag í Eymundsson Austurstræti milli 17 og 19 til að fagna útgáfu bókarinnar, biðröðin framundan. Allir hjartanlega velkomnir. Karolina söfnun er í fullum gangi fram að því.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um Margréti Lóu í Skáldatalinu, hér á Skáld.is.