SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. september 2017

Við dúnhreinsun- Júlíana Jónsdóttir

Ljóðið birtist árið 1876 í ljóðabókinni Stúlku en það er fyrsta ljóðabókin sem kemur út eftir íslenska konu.

Dimmt er í dýflissu
dúns og svælu;
sit ég einmana,
súrnar í augum;
ramur reykur
rauna minna
þrýstir að brjósti,
en þreytist höndin.

 

Undir raula
rámir strengir
harmatölur
hljóðlauss muna.
Finn ég nú glöggt
að fáir eru mínir;
horfin er mér heill,
en harmur vakinn.

Vitjar mín enginn,
voga ég ei þangað
sem ég áður
athvarf hugði;
fokið hefur
fönn í skjólið
fram af éljóttum
jökulskalla.

Á ég þó skjól,
sem aldrei bilar,
þangað minn andi
þreyttur flöktir.
Lát þú mig ekki,
ljúfi drottinn,
missa það hæli
meðan ég lifi.