• Steinunn Inga Óttarsdóttir

"Einnar fjaðrar fugl" Um ljóðagerð Ágústínu Jónsdóttur

Í viðtali sem birtist á Strik.is þann 29. nóvember árið 2000, stuttu eftir útkomu fimmtu ljóðabókar Ágústínu Jónsdóttur, Vorflautu, er skáldkonan spurð hvert hún sæki helst innblástur og yrkisefni sín. Hún svarar: "Í náttúruna. Allan hennar fjölbreytileika og svo í mannlífið. Ég hlusta talsvert á klassíska tónlist á meðan ég yrki og líka á þögnina, það merkilega fyrirbæri. Þögnin hefur þúsund mál og öll áhugaverð. Svo fer ég líka mikið í kvikmyndahús og sæki þangað áhrif og yrkisefni. Ég held að allir listmiðlar tengist einskonar systkinaböndum og það er gott að vinna listrænt undir áhrifum af annarskonar list."

Þessi orð skáldkonunnar er óhætt að hafa að leiðarljósi þegar gluggað er í ljóðabækur hennar en þær komu út með stuttu millibili: Að baki mánans (1994), Snjóbirta (1995), Sónata (1995), Lífakur (1997) og Vorflauta (2000). Greinilegt er að hér heldur fagurkeri á penna, sem kann að njóta fegurðar náttúrunnar og listarinnar í öllum sínum margbreytileika. Mótívin sækir Ágústína víða, m.a. í goðsögur og trúarbrögð og frægustu tónskáld og málarar sögunnar skjóta víða upp kollinum. Myndhverfingum beitir höfundur af stakri snilld og hefur Ágústínu oft verið líkt við tvö af okkar virtustu ljóðskáldum: Stefán Hörð Grímsson og Hannes Pétursson. Ljóðmál hennar hefur áberandi symbólskan kraft sem hvílir ekki endilega í efnistökum heldur í sefjun tungumálsins, þ.e.a.s. ljóðsins.

Athyglisverð er sú staðreynd að í flestum þeim ljóðum þar sem vísað er til bókmennta, tónlistar eða myndlistar má finna þrá ljóðmælanda eftir fegurð, frelsi, kyrrð, algleymi eða ást sem mótvægi við sársauka og vonbrigðum lífsins. Gott dæmi um þetta er upphaf ljóðsins Píanósónata úr Vorflautu en þar hvílir ljóðmælandi hugann frá amstri dagsins, leyfir sér að njóta um stund og rifja upp sælustundir:

Langt er síðan þú blístraðir lag snæddir góðan málsverð hallaðir þér í græna sófann - í stíl Mozarts last bók eða blað

samt kvarta ég lítið og eftirlæt píanósónötu að glæða loftið væntingum skerpa hugann

Örvandi augnaráð til ásta ...

Ástin og allt hið fagra henni tengt er áleitið þema í bókum Ágústínu, ekki aðeins ást milli karls og konu heldur heldur einnig ástin á lífinu sjálfu og óendanlegum dásemdum þess. En Ágústína er einnig óhrædd við að takast á við erfiðari hliðar mannlífsins; söknuð, glataða ást, forboðna eða jafnvel svikula.

Þegar bækur Ágústínu eru bornar saman má sjá að þær mynda órjúfanlega heild en þó yrkisefnin séu keimlík frá einni bók til annarrar er alls ekki um endurtekningar að ræða, þróun skáldskaparins er augljós. Í ljóðum hennar má einnig greina sterka erótík sem gjarnan tengist náttúrunni sjálfri og þar með vefur hún saman í órofa samfellu allt sem anda dregur eins og má t.d. glöggt sjá í ljóðinu Lifum úr Lífakri:

Elskumst lifum nektarárin

á tímum togstreitu

tvíleik lífsleitar

burt frá hinum

Askur og Embla

Ef bornar eru saman fyrsta og síðasta bók Ágústínu má glöggt sjá að ýmislegt hefur breyst. Yrkisefnin eru þau sömu en treginn, sem er allsráðandi í Að baki mánans hefur að miklu leyti vikið fyrir kæti, léttleika og húmor Vorflautunnar. Nöfn bókanna eru einnig táknræn fyrir þær breytingar sem orðið hafa á skáldskapnum. Sársaukinn sem bjó að baki mánans er kominn fram í dagsljósið og ljóðmælandi syngur hann burtu með aðstoð flautunnar, vorsins og fegurðarinnar, sbr. ljóðið Snerting í Vorflautu:

Augu mín fingur að þreifa á fegurðinni

raða henni í blómvönd

Ást og aðskilnaður

Ástin er eins og áður segir grunntilfinningin í ljóðagerð Ágústínu og á sér margar birtingarmyndir. Hún ýmist er eða er ekki til staðar og oft er það fjarvera hins elskaða sem kallar ljóðin fram en einnig nánd hans. Í öllum bókunum er ort um forboðna ást og sársaukann sem henni fylgir, samlíf sem leiðir til skilnaðar og sambönd sem fela í sér einsemd og óhamingju. Elskhugi ljóðmælandans, sem kemur víða fyrir og er trúr öllum bókum Ágústínu, er ýmist ávarpaður sem "þú" eða "hann" og í mörgum tilvikum er hann aflvaki ljóðanna. Úr hugsunum um hann spinnur ljóðmælandi þel sem síðar verður að ljóðum og gott dæmi um það er ljóðið Snerting úr Vorflautu:

Engin orð án þelsins sem ljóð mín spinnast úr

án þín formlaus ljóðspjöll engu að miðla

"Án þín, engu að miðla" segir ljóðmælandi og þá gildir einu hvort um er að ræða sorg eða hamingju. Fyrsta bókin, Að baki mánans skiptist í þrjá hluta: Flæði, Blóðbrigði og Flugskugga. Í upphafsljóðum fyrsta hlutans er fjallað um samruna konu og manns, ást og sælustundir. Síðan má greina "blóðleikið vænghaf" þar sem tekið er á mannlífinu öllu og elskhuganum aðeins vikið til hliðar og í lokakaflanum er ljóðmælandinn staddur "á landamærum vatns og elds" eins og segir í ljóðinu Flugróti köldu (79). Hann hefur nú fundið blóðbragðið af lífinu og er staddur á krossgötum. Hann mælir til elskhugans:

Vekjum á ný stefin er við lékum hjá lindinni

njótum sem fyrr og lifum algleymi

Hamingjan er óstöðug og ástin heit. Hún er "launhelgar ófrjálsra" (16) og höll reist úr glerperlum sem um síðir hnígur í rúst (20) og stundum býr hún í hverfulu hjarta; "í gær/klukknahljómur/þjakandi þögn í dag" (24) Í ljóðinu Fiero er t.d. spurt:

Er það eðli eða ástríða hans að kveikja eld

slökkva?

Í öðrum og þriðja hluta bókarinnar kveður við nokkuð annan tón, myndmálið er kröftugt og talsverð einsemd ríkjandi. Í fyrri hlutanum er mikið um vatnsmyndir sem tákna eiga það flæði sem ríkir í samskiptum elskenda en hér er ort um opin sár, fossandi blóð, ótta og eftirsjá. Í einstaka ljóði má greina sterka þrá og ljóðið Vogun kallast sterkt á við ljóðið Komdu eftir Davíð Stefánsson en þar fjallar Davíð um óhamingjusama stúlku sem vill allt til gera að nálgast horfinn elskhuga að nýju. Ágústína vitnar í sínu ljóði í goðsöguna um Tý sem lagði hönd sína að veði svo hægt yrði að binda hinn ógurlega Fenrisúlf:

Legg hönd djörf í gin úlfsins eða bregð mér í flugulíki verði slíkt til þess ég fái

Í öðru ljóði, Hugsýn, er vísað í Völsungasögu þar sem ljóðmælandi bíður innan vafurlogans í líki Brynhildar Buðladóttur. En öfugt við söguna biður ljóðmælandi þess að sá sem logann ríði brenni til bana. Hann hefur svikið og á allt hið versta skilið. Rýtingnum beinir ljóðmælandi þó oftar að sjálfum sér og nýr honum í djúpu hjartasári eins og glöggt má sjá í ljóðinu Voði :

Vildi ég væri

ekki konan sem ung var

gefin

Bergþóra vildi ekki yfirgefa bónda sinn í brennunni enda ung gefin Njáli en ljóðmælandanum í ljóði Ágústínu er allt öðruvísi farið. Hann er greinilega fastur í hjónabandi sem hann kærir sig ekki um en er svo ráðvilltur að hann nær ekki að koma hugsunum sínum í orð og ljóðið endar í þögn og ráðleysi. Hér er komið að öðru stefi ástarinnar sem leikið er í ljóðum Ágústínu, stefinu um falskan eða rangan samruna og eru slík ljóð nokkur í annarri bók Ágústínu; Snjóbirtu t.a.m. ljóðið Hún og hann:

Konan er nóttin lífið sólin

karlinn dagurinn dauðinn skugginn

Rökkur og Afturelding í hringekju áranna

fylgir sundrun samruna aðskilnaði segull?

Ljóðið Net í Snjóbirtu fjallar einnig um hjónabandið á kaldan og nöturlegan hátt og hefst á þessum orðum: "Það sem guð hefur saman tengt". Ljóðmælandi líkir hjónabandinu við þéttriðið net sem ekki má rjúfa og endar ljóðið í hrópandi spurn: "má maður eigi sundur/skilja?" En lítum á ljóðið í heild:

Það sem Guð hefur tengt

býr þér enn í krossfiskshjarta

að tvinna okkur saman á ný flækja í þéttriðnu neti þínu veiða augun tæru í lygnasta hylnum horfa fölur á þau bresta í frosthörðum straumi

má maður eigi sundur skilja?

Greinilegt er að ljóðmælanda stendur ógn af hjónabandi sínu og í öðru ljóði sem ber heitið Goshverinn líkir ljóðmælandi sér við bandingja sem þyrstir í frelsi (26). Í ljóðunum í Snjóbirtu birtist annars vegar sterk þrá eftir skilnaði og hins vegar sár söknuður yfir aðskilnaði. Hvort ljóðmælandi er hér að vísa til einnar og sömu manneskjunnar er ekki alltaf ljóst en þó er freistandi að álykta sem svo að um tvær persónur sé að ræða, einn sem ljóðmælanda langar að yfirgefa og annan sem ljóðmælandi þráir.

Sterk tengsl eru á milli yrkisefna fyrstu og annarrar bókar Ágústínu og snjallt hvernig hún tengir saman innihald og hönnun bókanna í heild. Aftan á bókarkápu Að baki mánans er að finna nafnlaust ljóð um gullinn foss sem hljóðar svo:

Ólgandi brimið umlykur allt gagntekur mig teygar losta minn og ást ég held dauðahaldi í unað djúpsins vona að mér skjóti aldrei up á yfirborðið

Sama ljóðið birtist aftur í Snjóbirtu og heitir þá Brim en framan við fyrrgreint ljóð hefur höfundur bætt við eftirfarandi línum:

Seiður fegurð og ógn býr í þessum gullna fossi ómótstæðileg þrá dregur mig í straumfallið til þín

Viðbæturnar undirstrika enn frek