SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. mars 2019

MYNDIN AF THELMU. Myndin af pabba: saga Thelmu

Óhætt er að fullyrða að bók Gerðar Kristnýjar Myndin af pabba. Saga Thelmu (2005) hafi breytt viðhorfi og stuðlað að endurskoðun á meðferð dómsmála í málefnum kynferðisofbeldis. Gerður Kristný hlaut Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir bókina, sem er viðurkenningu starfsfólks bókaverslanna. Síðastliðið haust sendi Gerður Kristný frá sér ljóðabókina Sálumessu þar sem yrkisefnið kallast á við þessa bók, sem og ljóðabækurnar Blófhófni og Drápu. Kynferðisofbeldi og barnaníð er mikið til umræðu þessi misserin í tengslum við #MeToo umræðuna og því við hæfi að minna á þetta brautryðjandaverk. Hér er endurbirtur gamall ritdómur um bókina.

 

Gerður Kristný (og Thelma Ásdísardóttir). Myndin af pabba. Saga Thelmu. Reykjavík: 2005

„ÞAÐ sem aldrei er rætt virðist ekki vera til,“ segir Thelma Ásdísardóttir á blaðsíðu 215 í frásögn sinni af kynferðisofbeldi sem hún og systur hennar fjórar þurftu að þola af hendi föður síns og fleiri barnaníðinga alla sína barnæsku og fram á unglingsár. Nú hefur Thelma rofið þögnina með afgerandi hætti og bókin sem hefur að geyma frásögn hennar, skráð af Gerði Kristnýju, hefur þegar valdið stormi í íslenskri samfélagsumræðu. Vonandi mun það ekki reynast stormur í vatnsglasi heldur leiða til varanlegra breytinga á málefnum þolenda kynferðisofbeldis og stöðu þeirra gagnvart réttarkerfinu jafnt sem almenningsálitinu.

Bókin hefur alla burði til þess; frásögn Thelmu er hreinskilin og áhrifarík og texti Gerðar Kristnýjar er einkar læsilegur og bókin í heild mjög vel upp byggð. En það sem skiptir kannski mestu máli er sú staðreynd að hér er ekki dregin upp svarthvít mynd af ofbeldismanni og fórnarlömbum hans, heldur tekst þeim Thelmu og Gerði Kristnýju að draga upp mynd sem er full af blæbrigðum og sýnir lesendum hversu óendanlega flókin tilfinningatengsl geta verið á milli misnotaðra barna og sjúkra feðra þeirra.

Það var skynsamlegt af Thelmu að fá reyndan rithöfund á borð við Gerði Kristnýju til að skrá frásögn sína, því Gerður ljær henni stíl sem er fyrst og fremst einfaldur og skýr en jafnframt skáldlegur þar sem slíkt á við. Vissulega er sú mynd sem Thelma dregur upp af föður sínum hreint út sagt skelfileg og allt að því óskiljanleg þeim sem ekki hafa reynslu af slíkum málum. Siðblindan og grimmdin sem hann sýnir dætrum sínum virðist benda til þess að geðlæknirinn sem úrskurðaði hann geðvilltan (psychopat) hafi haft á réttu að standa. En Thelma lýsir mörgum öðrum hliðum föður síns: Hún lýsir loftkastalasmiðnum og draumóramanninum sem dreymdi um frægð og frama en nennti aldrei að leggja neitt á sig; hún lýsir alkóhólista og ofbeldismanni sem var svo mikið jólabarn að hann fór í bindindi bæði á áfengi og ofbeldi yfir hátíðir og jós gjöfum yfir dætur sínar; hún lýsir manni með sjúklega drottnunargirni; hún lýsir manni sem varð sem átta ára drengur fyrir hrottalegri nauðgun og tvisvar síðar á unglingsaldri; og hún lýsir förnum, brjóstumkennanlegum manni, dauðvona af ólifnaði og krabbameini.

Eins og mikið hefur verið rætt í fjölmiðlum síðan bókin kom út eru það ekki bara afhjúpanirnar á hinu óhugnanlega ofbeldi sem vekja óhug heldur ekki síður sú nöturlega staðreynd að enginn gat komið stúlkubörnunum og móður þeirra til hjálpar þótt það væri á margra vitorði hvað var á seyði innan veggja heimilisins. Ef þessi bók verður til þess að vekja fólk til vitundar um samfélagslega ábyrgð þeirra gagnvart öllum börnum og velferð þeirra er til mikils unnið.

Þótt bókin beri titilinn Myndin af pabba er satt að segja önnur og mun áhrifaríkari mynd sem einnig teiknast upp í verkinu og það er myndin af Thelmu sjálfri. Frásögn Thelmu er kannski lokapunkturinn á margra ára ferli sem hófst þegar hún steig sín fyrstu spor inn fyrir veggi Stígamóta. Hroðaleg er lýsing hennar á því hvernig hægt er að brjóta niður barn þannig að það fyllist sjálfsfyrirlitningu, sjálfseyðingarhvöt og sjálfshatri sem lamar einstaklinginn til frambúðar ef ekkert er að gert. Heiðarleg er lýsing hennar á hægum batanum eftir að hún komst í kynni við Stígamótakonur. Aðdáunarverð er lýsing hennar á því hvernig hún lærir smám saman að byggja upp sjálfsmynd sína og skoða fortíðina með öllum hennar skelfingum af yfirvegun og þroska – og kannski er það eftirminnilegasta mynd bókarinnar: Myndin af Thelmu eins og hún er í dag: Hamingjusöm móðir, hugrökk og stolt kona: Kona ársins.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 22. október 2005.