SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. mars 2024

LJÓÐ FYRIR KLOFIÐ HJARTA - eftir Helen Cova

Helen Cova. 2023. Ljóð fyrir klofið hjarta. Karíba.

Helen Cova sendi frá sér ný verk undir lok síðasta árs, ljóðabókina Ljóð fyrir klofið hjarta og barnabókina Svona tala ég en báðar bækurnar vekja athygli á lífi innflytjenda og glímu þeirra við tungumálið, hvor á sinn hátt.

Ljóð fyrir klofið hjarta er sérstök að því leyti að ljóðin eru birt á tvenns konar máta, annars vegar handskrifuð með rithönd skáldkonunnar og hins vegar með hefðbundnari hætti, prentuð og fullunnin. Í inngangi að ljóðasafninu segir Helen frá því að hvert ljóð hafi farið í gegnum umbreytingarferli í samstarfi við mann hennar, Sigurð Grétar Jökulssonar, þar sem það fékk tilhlýðilegan búning eftir settum reglum íslenskrar málfræði.

Helen segir að með handskrifaða uppkastinu að ljóðunum sé hún að skora á fordóma og endurskilgreina tungumálið og því samfara áræði hún að spyrja hvað það sé að vera íslenskur höfundur. Ljóðin séu leið hennar til að ,,heiðra Ísland nútímans fjölbreytileika sem og fjölbreytta framtíð."(bls. 8)

Ljóð fyrir klofið hjarta telur 55 blaðsíður og geymir 30 ljóð sem er skipt niður á þrjá kafla. Sá fyrsti nefnist Ísland, næsti kallast Venezuela og þriðji Bæði. Kaflaskiptin eru myndskreytt af Rubén Chumillas. Ljóðin eru öll númeruð með rómverskum tölustöfum og eru flest fallegur óður til landanna tveggja og einnig eiginmannsins, líkt og kemur t.d. fram í öðru og þriðja erindi III. ljóðs:

Hvers vegna,
Sigurður;
bragðast varir þínar,
mótaðar af vetrinum,
eins og hin sæta guava
frá mínu landi?
 
Hvernig berðu
í þínum fjallaaugum
hið hlýja Antillahaf?
 
(bls. 17)

 

Ljóð Helenu eru full af litríku og frumlegu myndmáli, sem á öðrum þræði rætur sínar að rekja til framandi menningarheims því líkt og hún kemst að orði á einuim stað: ,,Það gerist eitthvað/ milli hlýju minnar/ og kulda steins þíns." (bls. 24). Í VII. ljóðinu mýkja til dæmis tempruð karamelluský klakann:

Tempruð karamelluský,
þau leggjast saman,
þau teygjast,
sýropskennd og mjúk.
 
Þau skreyta
útsýnið í gönguferðum,
þau mýkja fallið
á kalda klakanum.
 
(bls. 22)

 

Helen bregður upp myndum af tveimur ólíkum löndum á býsna nýstárlegan hátt. Hún segir Ísland mega við hvatvísi og til þess arna býður skáldkonan því ,,aldinkjöt kakóbauna, / ferskan safa sykurreyrs/ og söng væluapanna. (bls. 26). Hins vegar þarf Venesúela meira á öryggi að halda og því ,,mun ég prjóna/ handa þér/ með mosaþræði,/ með mórauðri ull,/ lopapeysu friðar." (bls. 30) 

Ísland og Venesúela eru um margt algjörar andstæður og endurspeglar ljóðmálið það vel. Ísland geymir jökla, mosa, norðurljós, grjót, fjöll, fjöru, frost og Kaldbak en Venesúela sterkt sólskinið, sæta ávexti, eðlur, mangótré, sléttur, kókoshnetur, papaya marmelaði, páfugl, sand og araguaney. Ferðalag milli þessara tveggja ólíku heima reynir einnig á og er jafnvel sumu(m) um megn, líkt og fjallað er um í XXII. ljóði:

Papaya tré
fjarlægt úr jörð sinni,
gróðursett í öðru landi
i órafjarlægð
þar sem sólin vart sést,
eða vart fer,
þar sem engin svört
hendi
vökvar það,
þar sem kuldinn mylur
og snjórinn brýtur,
það mun aldrei
bera ávöxt,
né blóm.
Það mun visna.
 
(bls. 42)

 

Bæði löndin geta verið vægðarlaus. Ísland með myrkrinu og ,,klakanum sínum" og Venesúela ,,með vélbyssunni". (bls. 49) Hjarta skáldkonunnar er klofið í tvennt og í ljóðum hennar mætast þessir tveir ólíku menningarheimar, líkt og hitinn úr Múspellsheimi og kuldinn úr Niflheimi forðum daga. Úr verður nýr og spennandi heimur fjölmenningar þar sem ráða ríkjum tvær mæður:

Mæður mínar eru
mismunandi,
eins og sjávarsalt og
sykurreyr.
Ein frelsar mig sem fugl,
hin breytir mér
í stjörnu.
 

(bls. 54)

 

Tengt efni