SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir24. apríl 2019

SKINKA DAUÐANS. Perlan

Birna Anna Björnsdóttir. Perlan. Reykjavík: Bjartur 2017, 250 bls.

Hvernig verður maður drottning samkvæmislífsins, síðan hirðfífl þjóðarinnar og karakter í áramótaskaupinu?

Það fékk Perla Sveins að reyna, eftir að hafa verið sú sætasta í Réttó og fjörugasta í MH, og loks með heitustu trendin, vinsælasta bloggið og rosalegustu djammfréttirnar frá Reykjavík og New York um langa hríð. En í hruninu töpuðu allir húmornum fyrir þessu gríni og Perla varð táknmynd yfirborðsmennsku og hégómleika; skinka dauðans.

 

Drekkir sér í bleikum kokteil

Perla hefur verið villuráfandi sauður alllengi. Í New York þar sem hún býr hefur lífið snúist um djamm og hark með hljómsveitargaurum og leikurum. En nú eru yngri stelpur, ferskari og viljugri, farnar að mæta í partýin og tilboðum og tækifærum Perlu fer fækkandi.

Hún er einmana í stórborginni, fljót að klippa á tengsl við annað fólk og afgreiðir hlutina hratt í huga sér, drekkir þeim einfaldlega í bleikum kokteil. En undanfarið hefur Perla fundið fyrir æ meiri angist og einmanaleika. Um borð í flugvél skrifar hún langan tölvupóst til vinkonuhópsins á Íslandi þar sem hún segir loksins hreinskilnislega frá lífi sínu og líðan. En á síðustu stundu guggnar hún á að senda hann og skrifar annan þar sem lyginni um hressu og svölu heimskonuna er haldið við. En hversu lengi getur þetta gengið?

Birna Anna Björnsdóttir skrifar Perluna, hressilega skáldsögu um „meinta skinkuvæðingu íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins“, eins og segir á bókarkápu. Perla minnir kannski örlítið á Ragnheiði Birnu, fræga persónu úr skáldsögu Hallgríms Helgasonar (Þetta er allt að koma, 1994) sem rembdist alla ævi við að verða fræg en aumlegar tilraunir hennar spegla og skilgreina meðalmennsku í lífi og list á íronískan hátt. Í bók Birnu Önnu er engin slík íronía en þar er frægðin til umfjöllunar og skoðað er grannt hvað er undir öllu meikinu og feikinu í prófæl-myndinni.

 

Gremja góða fólksins

Þeim fer sífellt fjölgandi sem eru frægir fyrir það eitt að taka myndir af matnum sínum, máta föt og mála sig á samfélagsmiðlum. Í bókinni er spáð í hvort konur í þessum geira séu afurð menningar og orðræðu eða táknmyndir um bakslag kvennabaráttunnar á 21. öld. Og hvort það megi þá beina að þeim allri þeirri beiskju og kaldhæðni sem kraumar hjá hinum ófrægu, hjá góða fólkinu. En er eitthvað að því að konur taki sér pláss í samfélagi og menningu með þeim hætti sem þær sjálfar kjósa? Er vatnslitamynd endilega göfug en meiköppvídeó ömurlegt?

Sögunni vindur fram með hlykkjóttri tímalínu. Sjónarhornið er hjá ýmsum sögupersónum, til dæmis hjá fyrrverandi kærasta Perlu, Bjarna, sem er á kafi í sjálfshjálparprófum á netinu og lafhræddur við nýju kærustuna, og hjá móður hennar sem er innantóm snobbhæna. Ein mikilvæg persóna bókarinnar er Ingigerður Ásgeirsdóttir, einmana og heimakær stundakennari í kynjafræði, en þær Perla eiga það sameiginlegt að líf þeirra er í tómu tjóni. Það dregur til tíðinda þegar fundum þeirra ber saman. Svo vill til að Ingigerður hefur varið miklum tíma í að stúdera Perlu og kynna hana í fræðilegri lokaritgerð sem aðalskinku landsins, án þess að Perla hafi hugmynd um.

 

Dólgafemínismi og nýtt líf

Uppgjör er því óhjákvæmilegt; Ingigerður þarf að endurskoða dólgafemínisma sinn og Perla að taka einhverja heiðarlega stefnu í lífinu. Þetta er einföld og skemmtileg flétta og í rauninni sígilt þema: hroki og hleypidómar og eftirsókn eftir vindi. Fjallað er um muninn á ímynd og staðreynd, og um smættun og hlutgervingu kvenna í samtímanum ásamt skuggahliðum netfrægðarinnar. Það er þó hvorki kafað djúpt né hugmyndum bylt, allt er þetta á léttum nótum. Talmálskenndur og afslappaður stíllinn er tilþrifalítill en fellur vel að efni og persónum; ég efast um að þær gætu hugsað eða tjáð sig öðru vísi nema tapa trúverðugleikanum. LOL ...

 

Pistill fluttur í Víðsjá, 20.12.2017

 

Tengt efni