SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ásta Sigurðardóttir

Ásta Sigurðardóttir var fædd 1. apríl árið 1930 að Litla-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi.

Bærinn er í hrauninu á sjávarströndinni sunnan við prestssetrið Stórahraun. Litla-Hraun var harðbýlt og jörðin afskekkt. Ásta ólst þar upp til 14 ára aldurs þegar hún flutti til Reykjavíkur til að mennta sig og lauk hún landsprófi árið 1946. Um haustið lá leið hennar í Kennaraskólann og útskrifaðist hún með kennarapróf árið 1950, aðeins tvítug að aldri. Hugur Ástu stóð aldrei til kennslu.

Hún sýndi fljótlega einstaka listræna hæfileika bæði á sviði rit- og myndlistar. Ásta var fjölhæf og lagði einnig stund á grafík og leirkerasmíði ásamt skreytingu leirkera. Sögur hennar og myndir bera vott um tilfinningaríka og hreinskipta listakonu, sem á ögrandi hátt storkaði viðteknu siðgæði í smábænum Reykjavík um miðja 20. öld. Ásta hafði að atvinnu að sitja fyrir sem nakið módel myndlistarnema og varð meðal annars þess vegna vinsælt umræðuefni bæjarbúa og var stundum kölluð Ásta módel.

Árið 1957 tók Ásta saman við skáldið Þorstein frá Hamri og eignuðust þau fimm börn, - þrjá drengi og tvær stúlkur, en fyrir átti Ásta einn son með Jóhannesi Geir listmálara. Leiðir hennar og Þorsteins frá Hamri skildu. Árið 1967 giftist hún Baldri Guðmundssyni. Ásta Sigurðardóttir dó langt um aldur fram, 21. desember árið 1971, aðeins fjörutíu og eins árs að aldri.

Ásta Sigurðardóttir er mörgum Íslendingum kunn sem höfundur smásögunnar "Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns". Sagan birtist í tímaritinu Lífi og list árið 1951 og vakti mikla athygli og umtal. Ásta var í félagsskap atómskálda og vöktu smásögur hennar mikla athygli. Sögurnar eru oft ögrandi en Ásta skrifaði gjarnan um ýmis tabúefni svo sem drykkju kvenna, fósturmissi, nauðganir, ofbeldi gagnvart konum og börnum, fátækt og fordóma. Hún notaði jafnan sterkt myndmál og ýmis önnur stílbrögð, svo sem endurtekningar og andstæður, til að magna upp áhrif sagnanna.

Árið 1961 safnaði hún sögum sínum saman í bók og nefndi eftir fyrstu smásögu sinni Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Dúkristur Ástu prýða bókina, táknrænar myndir sem tjá og túlka textann. Í bókinni Sögur og ljóð, sem kom út árið 1985, birtist heildarsafn smásagna hennar og ljóða.

Ásta skrifaði greinar í tímarit og má t.d. nefna grein um leirkerasmíði sem birtist í tímaritinu Lífi og list árið 1951, þar teflir Ásta fram skoðunum sínum á þróun þessarar fornu listgreinar hér á landi. Frásögnin "Frá mýri, hrauni og fjörusandi", birtist í bókinni Ísland í máli og myndum árið 1961.

Hér má lesa "Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns" í upprunalegu útgáfunni sem birtist í tímaritinu Lífi og list árið 1951. Sagan er myndskreytt af Ástu sjálfri.


Ritaskrá

  • 1985    Sögur og ljóð
  • 1961    Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns

Tengt efni