Sif Sigmarsdóttir

Sif Sigmarsdóttir er fædd í Reykjavík 30. nóvember árið 1978. Hún starfar sem rithöfundur og sjálfstætt starfandi blaðamaður í Lundúnum. Fyrsta skáldsaga Sifjar, unglingabókin Ég er ekki dramadrottning, kom út árið 2006. Hún hlaut góða dóma gagnrýnenda og varð söluhæsta íslenska unglingabók ársins. Bókin Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu kom út árið 2007 og varð hún einnig mest selda íslenska unglingabók þess árs.

 

Þriðja bók Sifjar, Freyju saga – Múrinn, fantasía fyrir unglinga byggð á norrænni goðafræði, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013. Síðara bindi Freyju sögu, Djásn, kom út um jólin 2014.

 

Haustið 2017 kom út í Bretlandi fyrsta skáldsaga Sifjar sem skrifuð er á ensku á vegum eins stærsta útgefanda heims, Hodder. Bókin ber heitið I am Traitor og er vísindaskáldsaga fyrir unglinga.

 

Árið 2007 stofnaði Sif bókaklúbbinn Handtöskuseríuna, ritröð þýddra skáldsagna eftir konur. Á vegum seríunnar komu út í fyrsta sinn á íslensku höfundar á borð við Audrey Niffenegger, Monica Ali, Karen Joy Fowler, Candace Bushnell og Anna Gavalda. Klúbburinn óx hratt og keypti Forlagið útgáfuna síðla árs 2010.

 

Sif lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1998 og BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Sif hélt í kjölfarið til Bretlands til framhaldsnáms og útskrifaðist með MA í barnabókmenntum frá University of Reading árið 2003.

 

Sif hefur starfarð sem pistlahöfundur um árabil m.a. hjá Fréttablaðinu, RÚV og Morgunblaðinu.

 

Sif Sigmarsdóttir

  • 2018    Íslandssagan - Súra sagan (ásamt Halldóri Baldurssyni) 
  • 2017    I am Traitor
  • 2014    Freyju saga 2 – Djásn
  • 2013    Freyju saga – Múrinn
  • 2007    Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu
  • 2006    Ég er ekki dramadrottning