Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir

Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir 1936 og ólst upp á Gillastöðum í Reykhólasveit í AusturBarðastrandarsýslu. Hún sendi frá sér m.a. út tvœr Ijóðabœkur, smásagnasafn og þrjár barnabœkur, auk draumaráðningabókar sem er sú fyrsta sem er öll skrifuð á íslensku og byggir ekki á þýðingum.

 

Ragna Steinunn byrjaði að skálda þegar hún var lítil og sagði sjálfri sér sögur í sveitinni. En tíminn til að skrifa var því miður ekki mikill. Ragna Steinunn á átta börn og vann mikið úti, við fiskvinnslu, á elliheimili og sjúkrahúsi. Auk þess var hún bóndakona á þremur stöðum á landinu. Hún tók þátt í stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar í Reykjavík og sagði frá því í viðtali í kvennablaðinu Veru 1989:

 

„Starfið í Rauðsokkahreyfingunni vakti mig. Við fundum viðhorfsbreytinguna í þjóðfélaginu og fylltumst baráttuanda. Við trúðum að við gætum breytt einhverju, værum ekki skyldugar að hafa hlutina eins og þeir voru á steinöld. En þetta tókst ekki nóg og enn er mikið eftir. Seinna komu nýjar konur inn í hreyfinguna og fjarlægðust stefnumálin. Þær vildu öllum hjálpa og höfðu lítið afgangs fyrir kvennabaráttuna. Sú barátta tekur aldrei enda, fremur en baráttan fyrir sjálfstæði þjóða. Maður verður alltaf að vera á verði.“

 

„Ég hef alltaf verið sískrifandi, en birti fyrst smásögur í Samtíðinni, sem var heimilisblað í fornum stíl. Þessar sögur komu út í smásagnasafni 1965. En eftir að ég fór að eignast börnin gafst alltof lítill tími til skrifta, því ég var alltaf að hugsa um sögur. Þegar ég bjó í Eyjum uppgötvaði ég hins vegar að það er ekki eins tímafrekt að skrifa ljóð. Maður getur sest niður þegar börnin eru sofnuð og skrifað eitt ljóð, og það gerði ég einmitt þennan tíma í Eyjum. Mér finnst Eyjarnar mjög fallegar og varð fyrir vissum áhrifum. Eftir þetta gaf ég út ljóðabókina Villirím. Ég skrifaði líka Barnaheimilið meðan ég bjó í Eyjum.“

 

Í viðtali við Kristínu Marju Baldursdóttur í Morgunblaðinu 1998 kemur m.a. fram að:

 

„Vænst þykir henni líklega um ljóðabók sína Bókin utan vegar, sem eru eftirmæli um son hennar sem lést aðeins tvítugur að aldri. Bókrún gaf þá bók út, en hana tileinkaði Steinunn foreldrum sem hafa misst börn sín af slysförum. Steinunn hefur líka skrifað fyrir börn...“


„Eitt sinn skrifaði ég líka ævintýri um tvær kóngsdætur fyrir Æskuna. Önnur þeirra gifti sig en hin tók við ríki föður síns. Sagan þótti nokkuð framúrstefnuleg á sínum tíma. En ég er hins vegar gamaldags rithöfundur sem sést sjaldan á kaffihúsum. Ég skrifaði á kvöldin þegar allir voru sofnaðir, og ég held að þegar rithöfundar geta ekki skrifað nema í frístundum sínum beri skáldskapur þeirra þess merki. Ég valdi að yrkja ljóð, enda er hægt að segja eins mikið í einu ljóði og í heilli bók...“

 

Ragna Steinunn hefur einnig skrifað greinar sem hafa birst í  bókum, blöðum og tímaritum. 

 

 

 

Mynd: Vera, 4. tbl. september 1989

Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir

 • 2016  Afmælisdagabók Húnvetninga

  2004  Yfir ljósmúrinn. Dulrænar sögur og sagnir, flestar ættaðar af Vestfjörðum

  2001  Gluggavofan

  1998  Jólasólarkötturinn

  1997  Vestfirsk afmælisdagabók

  1995  Undir verndarhendi. Bjarni Kristjánsson miðill

  1990  Íslensk alþýðuskáld, ljóð eftir 100 höfunda

  1988  Íslenska draumaráðningabókin

  1987  Bókin utan vegar

  ?   Kisulíf

  1986  Barnaheimilið

  1981  Villirím

  1966  Hin gömlu kynni og fleiri sögur