Magnea J. Matthíasdóttir

Magnea Jóhanna Matthíasdóttir er fædd 13. janúar 1953. Hún er rithöfundur og mikilvirkur þýðandi. Hún vakti fyrst athygli með ljóðabókinni Kopar árið 1976 og síðan þríleiknum Hægara pælt en kýlt 1978, Göturæsiskandídatar 1979 og Sætir strákar 1981, sem allar fjalla um litríkt líf ungs fólks í Reykjavík. Smásögur eftir hana hafa birst í bókum, safnritum og tímaritum, t.d. í Draumi um veruleika 1977 og Ég elska þig, frásagnir af æskuástum 1990 og ljóð hennar hafa birst m.a. í TMM, Lebók Morgunblaðsins, Samvinnunni, Stínu og Perlum úr ljóðum íslenskra kvenna (2000). Fjöldi greina eftir hana hafa birst í blöðum og tímaritum. 

 

Hún samdi barnasögur fyrir útvarp; Ævintýrið um Agúrku prinsessu (1991), Sykurskrímslið flytur (1975) og Babú og bleika lestin (1971). Þá sá hún einnig um viðtalsþætti í útvarpi; Hárlos (1982) og Fæddur, skírður (1983). Þá hefur hún þýtt söngleiki, s.s. Dirty Dancing (1999), Mambo Kings (1998), Saturday Night Fever (1997), Cats (1996) og Sætabrauðskallinn (1982-1988). Einnig samdi hún leikverk (ásamt Benóný Ægissyni); söngleikinn Halló, litla þjóð (1987) og kabarettinn Reykjavíkurblús (1983).

 

Auk þess hefur hún þýtt fjölmargar teiknimyndir fyrir börn, m.a. Valhöll (1986), Aladdin (1993), Stúart litli 2 (2002), Ísöld (2002), Pabbi passar (2003), Öskubuska (1998), Rúðólfur með rauða nefið 1 og 2 (2001 og 2002), Jólaævintýri Dickens (2002), Undrabúðingurinn (2003), Ævintýri Tuma Þumals og Þulamlínu (2003). Einnig Brakúla, Sögur úr Andabæ, Ævintýri Lísu í Undralandi, Cubix, Loony Tunes, Addi Paddi, Snjóbörn o.m.fl. Ennfremur þýðingar á fjölmörgum barnasögum og ævintýrum fyrir prentmiðla og útvarp, þýðingar á framhaldssögum í vikuritum og þýðingar á „sjoppubókmenntum“, t.d. fyrstu bókum í bókaröð um Mark Bolan. 

 

Lokaritgerð Magneu til meistaraprófs (2013) fjallar um þátt þýðinga í mótun og þróun fjölkerfis íslenskra bókmennta, einkum með hliðsjón af þýðingum á glæpasögum og öðru afþreyingarefni frá blómaskeiði tímaritaútgáfu á síðari hluta 19. aldar til kiljuútgáfu á 21. öld. 

 

Árið 2013 varð Magnea fyrsta konan til að gegna formennsku í Bandalagi þýðenda og túlka. Hún er iðin við kolann og geta fáir þýðendur státað af álíka afköstum og hún. Hún skrifar á knuz.is, hefur verið stundakennari í þýðingafræði við HÍ og býr í Reykjavík.

 

Hér má heyra spjall á rúv við Magneu

 

Magnea J. Matthíasdóttir

  • 2015 Alice: Now a Classic in Iceland. Ásamt Gauta Kristmannssyni o.fl., birt í Alice in a World of Wonderlands. The Translations of Lewis Carroll's Masterpiece
  • 2008 Jólasveinar. Af fjöllum í fellihýsi (barnabók)
  • 1981 Sætir strákar
  • 1979 Göturæsiskandídatar
  • 1978 Hægara pælt en kýlt 
  • 1976 Kopar