Málfríður Einarsdóttir

Málfríður Einarsdóttir fæddist í Munaðarnesi í Stafholtstungum, Borgarfirði, 23. október 1899. Hún var dóttir Einars Hjálmssonar, bónda þar, og konu hans, Málfríðar Kristjönu Björnsdóttur, ljósmóður, sem lést þegar litla stúlkan fæddist ásamt tvíburabróður, sem dó samdægurs. Hún var sett í fóstur vikugömul til föðurfólks síns að Þingnesi í Bæjarsveit og ólst þar upp síðan en faðir hennar lét hana afskiptalausa.

 

Málfríður, systir skáldkonunnar Sigríðar Einars sem kenndi sig alltaf við Munaðarnes, var í skóla að Hvítárbakka í Borgarfirði, næsta bæ við Þingnes. Hún stundaði nám við Kennaraskóla Íslands og brautskráðist þaðan 1921. Heilsubrestur kom í veg fyrir frekara skólagöngu en hún smitaðist af berklum í Kaupmannahöfn og átti lengi í margs konar veikindum, andlegum og líkamlegum. Málfríður stundaði lengst af heimilisstörf auk ritstarfa, m.a. saumaði hún súrrealískar myndir og ræktaði blóm (sjá Ingunn Þóra Magnúsdóttir. 1986)

 

Kvæði og greinar eftir Málfríði birtust í dagblöðum og tímaritum og hún lagði til efni í Ríkisútvarpið frá því á síðari hluta sjötta áratugarins, bæði ljóð og sögur, frumsamdar og þýddar en hún var ötull þýðandi. Hún notaði dulnefnið Fríða Einars framan af. Hún þýddi m.a. nokkrar barnabækur, ljóð eftir Baudelaire, Ferdinand Pessoa og Heinrich Heine, valda kafla úr Hinum guðdómlega gleðileik eftir Dante og Dverginn eftir Pär Lagerkvist.

 

Fyrsta bók Málfríðar, Samastaður í tilverunni, er eins konar endurminningabók og kom út 1977 en þá var Málfríður 78 ára. Þar rekur hún lífshlaup sitt á frumlegan og skemmtilegan hátt og segir frá uppvexti á bernskuheimilinu, lífinu í Kaupmannahöfn og Reykjavík, og aðbúnaði á berklahælinu á Vífilsstöðum.

 

„Lýsingar Málfríðar á gamla sveitasamfélaginu eru nöturlegar; á fátæktinni, vinnuhörkunni, sjúkdómunum, barnadauðanum, kuldanum og vosbúðinni, svo fólk koðna