Kristín Steinsdóttir

Kristín Steinsdóttir fæddist á Seyðisfirði 11. mars 1946. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hóf hún nám við Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist sem kennari 1968. Hún kenndi við gagnfræðadeild Réttarholtsskóla í Reykjavík í þrjú ár en hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún dvaldist veturinn 1971-72 við nám í dönsku og dönskum bókmenntum við Kennaraháskólann þar í borg. Þaðan fór hún til Göttingen í Þýskalandi þar sem hún var búsett næstu sex árin, frá 1972-1978 og lagði þar stund á nám í þýsku og dönsku meðfram heimilisstörfum og barnauppeldi. Árið 1978 fluttist hún ásamt fjölskyldu sinni til Noregs en ári síðar til Íslands og bjó lengst af á Akranesi fyrir utan ársdvöl í Þrándheimi í Noregi 1998 - 1999. Á Akranesi kenndi Kristín fyrst við Brekkubæjarskóla en eftir að hún lauk B.A. prófi í dönsku og þýsku frá HÍ kenndi hún við Fjölbrautaskóla Vesturlands þar til hún sneri sér alfarið að ritstörfum árið 1988.

Kristín sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1993 - 2001 og varð síðan formaður samtakanna 2010. Hún var formaður stjórnar Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG) 1999 - 2003.

 

Kristín hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga og einnig hefur hún þýtt barnabækur úr þýsku. Hún hefur samið leikrit, bæði fyrir svið og útvarp, í samstarfi við systur sína, Iðunni Steinsdóttur rithöfund og sent frá sér skáldsögur fyrir fullorðna. Þá hefur hún skrifað kennsluefni og smásögur sem hafa birst í ýmsum söfnum. Kristín hefur einnig skrifað kvikmyndahandrit með styrk úr Kvikmyndasjóði.

 

Kristín hefur hlotið margskonar verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín. Fyrsta bók hennar, Franskbrauð með sultu, sem út kom 1987, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin sama ár. Engill í vesturbænum (2002) er margverðlaunuð, hún hlaut meðal annars Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 2003 og Norrænu barnabókaverðlaunin sama ár. Kristín hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins 2007.

Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á önnur mál.

 

Kristín Steinsdóttir er gift og á þrjú uppkomin börn. Hún er búsett í Reykjavík.

Kristín Steinsdóttir

  • 2017      Ekki vera sár
  • 2014      Vonarlandið
  • 2012      Bjarna-Dísa
  • 2010      Ljósa
  • 2009      Hetjur
  • 2006      Hver étur ísbirni?
  • 2006      Á eigin vegum
  • 2005      Rissa vill ekki fljúga
  • 2004      Sólin sest að morgni
  • 2004      Vítahringur: Helgusona saga
  • 2002      Engill í Vesturbænum
  • 2000      Krossgötur
  • 1999      Kleinur og kaffi
  • 1998      Ormurinn
  • 1997      Vestur í bláinn
  • 1995      Abrakadabra
  • 1994      Ármann og blíða
  • 1994      Draugur í sjöunda himni
  • 1992      Draugar vilja ekki dósagos
  • 1991      Fjólubláir dagar
  • 1989      Stjörnur og strákapör
  • 1988      Fallin spýta
  • 1987      Franskbrauð með sultu

   

  Þýðingar

   

  • 1994 Fljúgandi stjarna e. Ursula Wölfel
  • 1984 Trítlarnir á Titringsfjalli e. Irina Korschunow
  • 1982 Þjóðsögur og sagnir frá Víetnam
  • 2013 - Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir framlag til íslenskra bókmennta
  • 2011 - Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna: Ljósa
  • 2010 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ljósa
  • 2008 - Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi: Veitt fyrir feril
  • 2007 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
  • 2007 - Silfurstjarnan (verðlaun sænksu IBBY samtakanna): Engill í Vesturbænum
  • 2007 - Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna: Á eigin vegum
  • 2004 - Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins: Engill í Vesturbænum
  • 2003 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Engill í vesturbænum
  • 2003 - Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Engill í vesturbænum
  • 2003 - Vorvindar: Viðurkenning Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY: Engill í vesturbænum
  • 1999 - Úthlutun úr Bókasafnssjóði höfunda
  • 1998 - Bæjarlistamaður Akraness
  • 1992 - Viðurkenning Íslandsdeildar IBBY (Börn og bækur): Fjólubláir dagar
  • 1989 - Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 3. verðlaun: Randaflugur (ásamt Iðunni Steinsdóttur)
  • 1989 - Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur, 2. verðlaun: Mánablóm (ásamt Iðunni Steinsdóttur)
  • 1987 - Íslensku barnabókaverðlaunin: Franskbrauð með sultu
  • 1986 - Leikritasamkeppni Ríkisútvarpsins, 1. verðlaun: 19. júní (ásamt Iðunni Steinsdóttur)  

   

  TILNEFNINGAR

  • 2008 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Á eigin vegum
  • 1998 - Bókmenntaverðlaun Janusar Korzack í Póllandi: Vestur í bláinn

   

   

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

 • Black Facebook Icon
 • Black Twitter Icon
 • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband