SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum

Jórunn fæddist á Sörlastöðum í Fnjóskadal 8. maí 1920. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Ólafsdóttir og Ólafur Pálsson, af þingeyskum og eyfirskum ættum. Ólafur var hagmæltur og hélt lengi dagbók (sjá 1918). Jórunn ólst upp á fæðingarstað sínum, hún bjó þar til 36 ára aldurs og vann á búi foreldra sinna ásamt Páli bróður sínum að frátöldum árunum 1939-42 er hún stundaði nám í Gagnfræðaskóla Akureyrar.

Eftir lát móður sinnar 1956 fluttist hún til Akureyrar með föður sínum og bróður og hélt þar heimili fyrir þá meðan heilsan leyfði. Hún giftist ekki né eignaðist börn. Á Akureyri vann hún utan heimilis, fyrst í skóverksmiðjunni Iðunni og síðar við innheimtu og fleiri störf fyrir dagblaðið Dag o.fl. um 15 ára skeið. Hún dvaldist löngum á Kristneshæli 1957-64 vegna berklaveiki. Síðasta áratug ævi sinnar bjó Jórunn á Grund í Reykjavík og lést þar 1. febrúar árið 2000.

Jórunn var mörg ár formaður Sjálfsvarnar, félags sjúklinga á Kristneshæli, og tók mikinn þátt í félagsstarfi SÍBS. Þá lagði hún bindindismálum lið og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Dýraverndunarfélag Akureyrar. Hún fékkst töluvert við ritstörf og birti ljóð (m.a. erfiljóð), sögur og greinar í blöðum og tímaritum. Ein bók kom út eftir hana, ljóðabókin Beitilyng, 1973.

Hjörtur Pálsson skáld segir um Jórunni föðursystur sína í minningargrein: „Í systkinunum, föður mínum og Jórunni, togaðist annars vegar á útþrá og menntalöngun, sem hvorugt fékk svalað nema að takmörkuðu leyti, og hins vegar tryggðin við torfuna og innrætt skyldurækni við foreldra og heimili sem æ verr gat án þeirra verið eftir því sem lengra leið. Þó taldi Jórunn sig hafa valið rétt, og af ýmsu er ljóst að heima undi hún hag sínum vel meðan það var.“

Um æskuslóðirnar orti Jórunn:

Opnast dalsins djúpa skaut,
dýrar lindir streyma.
Við mér fögur blasir braut,
best er jafnan heima.

Um ritstörf hennar segir Hjörtur: „Hún hafði yndi af fögrum hlutum, blómum og skrauti, tónlist og skáldskap, enda hneigð hennar rík til lestrar og ritstarfa, sem hún var snemma hvött til af mönnum sem hún mat mikils og komu auga á hæfileika hennar, svo sem Þorsteinn M. Jónsson, skólastjóri og útgefandi Nýrra Kvöldvakna, og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, fyrsti ritstjóri Heima er best. Ljóðabókin Beitilyng er eina bók hennar, en auk þess sem til er í handriti birti hún bundið og óbundið mál í blöðum og tímaritum. Mál Jórunnar í ræðu og riti var kjarngott, en stundum nokkuð skrúðmikið og fegurðarsmekkur hennar nýrómantískur.“

Á Héraðsskjalasafninu á Akureyri er að finna nokkuð af handritum Jórunnar, bæði í einkaskjalasöfnum og einnig í safni frá Heilsuhælinu í Kristnesi og á Safnahúsinu á Húsavík er ljósmyndasafn hennar.


Ritaskrá

1973  Beitilyng