SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Sigurbjörg Gísladóttir

Jóna Sigurbjörg Gísladóttir fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 3. mars 1947. Hún lést á líknardeild Landspítalans 2. júní 2002 eftir erfið veikindi. 

Jóna sleit barnsskónum á Kirkjubóli í Ketildölum. Hú missti móður sína átta að aldri og fimmtán ára fluttist hún þaðan með föður sínum og eldri systur. Hún var búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal en það var fátítt á þessum tíma að konur færu í bændaskóla, og stundaði einnig nám í Kvennaskólanum á Blönduósi. Jóna átti heima í Brimnesi í Skagafirði í 14 ár, hún var nýrnaþegi og átti við heilsuleysi að stríða frá því hún var unglingur.

Jóna fór mjög ung að setja saman stökur og sendi frá sér bæði ljóð og smásögur. Hún setti skáldskap sinn sjálf á tölvu, fjölfaldaði á ljósritunarvél og batt inn. Svo virðist sem skáldskapur hennar hafi aðeins ratað til fárra og ekkert er fjallað um hann í fjölmiðlum.

Nafn Jónu Sigurbjargar er að finna í nýlegri skrá um sjálfsævisögur kvenna en Árblik minninganna er eins konar æviágrip sem út kom 2001, skömmu áður en Jóna lést. Þar fallar hún meðal annars um föður sinn og móður, um uppvöxt sinn, sveitina sína og um nám á Blönduósi. Einnig segir hún frá dvöl sinni í Danmörku en hún dvaldi þar til að fá lækningu við vanheilsu sem hún átti við að stríða allt sitt líf.

Jóna Sigurbjörg orti svo um lífshlaup sitt:

 

Ég fædd er þriðja þriðja fjörutíu og sjö,

við fjörðinn kæra liggja bernsku sporin.

Þar liðu saman árin til sextíu og tvö,

en sællegast og best fannst mér á vorin.

 

Ég lifði sælu og sorgir

við svalan Arnarfjörð.

Þar hrundu bernsku borgir

þar blésu oft veður hörð.

 

Þar á ég æskuslóðir,

þar óx mín draumahugsjón.

Þar missti góða móður

þar mesta hlaut ég tjón.

 

Ég æsku og gleði átti

og allt sem fegurst var.

Á meðan pabbi mátti

að mörgu hyggja þar.

 

En nú er bærinn brotinn

og bú í eyði lagt.

Og þessi bragur þrotinn

og það sem gerðist sagt.

 


Ritaskrá

  • 2001 Árblik minninganna
  • 2000 Haustblik
  • 2000 Vorblik - saga Ljúfar
  • 1999 Ljósblik
  • 1998 Ómblik - sagan um Lilju
  • 1998 Baugablik
  • 1996 Munablik
  • 1996 Safnablik
  • 1991 Munablóm (undir dulnefni)
  • 1980 Stjörnublik