Ingibjörg Hjartardóttir

Ingibjörg Hjartardóttir er fædd á Tjörn í Svarfaðardal 1952. Eftir grunnskólanám við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og Dalvíkurskóla fór hún sem au-pair til Frakklands jafnframt því sem hún stundaði frönskunám hjá AF í París. Þegar hún kom aftur heim að ári loknu fór hún í Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni og útskrifaðist þaðan sem íþróttakennari 1971. Hún kenndi víða um land í nokkur ár. Ingibjörg fór síðan að vinna við Borgarbókasafn Reykjavíkur, tók meirapróf og keyrði bókabílinn milli hverfa í borginni. Þá hélt hún til Svíþjóðar og lærði bókasafnsfræði við Biblioteks Högskolan í Borås í Svíþjóð og útskrifaðist þaðan sem bókasafnsfræðingur 1980. Hún vann lengst framan af á bókasöfnum í Svíþjóð og Íslandi. Frá árinu 2000 hefur Ingibjörg að mestu leyti fengist við ritstörf. Síðast var hún forstöðumaður Bókasafns Ólafsfjarðar en sagði upp þeirri föstu stöðu fyrir áratug til þess að einbeita sér að skrifum. Þó skreppur hún af og til í afleysingavinnu á bókasöfnum.

 

Ingibjörg hefur skrifað leikrit bæði fyrir atvinnu- og áhugaleikhús, útvarpsleikrit, smásögur og ljóð. Hún hefur gefið út fjórar skáldsögur sem allar hafa komið út á þýsku hjá Salon Literatur Verlag í Munchen. Hún hefur skrifað eina ævisögu og þýtt fimm skáldsögur. Árið 1984 átti Ingibjörg hugmyndina og stofnaði ásamt öðrum leikfélagið Hugleik, sem starfað hefur með miklum blóma í Reykjavík og síðan þá sýnt eitt ef ekki fleiri frumsamin íslensk leikrit á hverju ári. Er hún nú heiðursfélagi þar. Hún er einn af stofnendum Höfundasmiðjunnar sem starfrækt var í Borgarleikhúsinu og stofnaði einnig Ljóðasmiðjuna ásamt fleirum skáldum. Þegar Ingibjörg flutti norður í Svarfaðardal árið 2001 stofnaði hún ljóðasmiðjuna Hulduhópinn sem kom saman um árabil í húsi skáld