SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Harpa Rún Kristjánsdóttir

Harpa Rún Kristjánsdóttir er fædd á Þorra árið 1990.

Harpa er uppalin í sveit undir Heklurótum og tollir þar enn. Að vera bændadóttir er hennar helsta menntun auk stúdentsprófs frá FSu og grunn- og meistaraprófs í Almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.

Auk vinnumennsku á sauðfjárbúi hefur Harpa Rún starfað sem þjónn og kokkur, aðstoðarkennari, bóksali, prófarkalesari og viðburðastjórnandi. Skrifað hefur hún alla tíð, meira en útgáfuafrekin gefa til kynna. Hún hefur skrifað ljóðrænan texta í tvær ljósmyndabækur, þar sem hún leitast við að finna frumleika í forminu og brjótast frá hefðbundnum væntingum lesenda.

Harpa hefur sent frá sér tvær bækur í samstarfi við ljósmyndara, On the road in Iceland árið 2016 og In and out of sight at Þingvellir – í og úr sjónmáli 2018. Auk þess hafa textar hennar og smásögur birst í blöðum, tímaritum og safnritum. Í bókinni Vængjatök. Hugverk sunnlenskra kvenna (2004) birtist smásagan „Gamli fossinn“ sem vann til verðlauna í smásagnasamkeppni Æskunnar. Einnig hafa ljóð Hörpu Rúnar meðal annars birst á vefritinu Knúz og á Skáld.is þar sem hún reið á vaðið í efnisliðnum Skúffuskáld

Árið 2019 hreppti Harpa bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni Eddu og 2021 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Kynslóð.

 


Ritaskrá

  • 2023  Vandamál vina minna
  • 2021  Kynslóð
  • 2021  Sumarið í sveitinni (ásamt Guðjóni Ragnari Jónassyni)
  • 2019  Edda
  • 2018  In and out of sight at Þingvellir – í og úr sjónmáli (Ljósmyndarar: Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason)
  • 2016  On the road in Iceland (Ljósmyndari: Gréta S. Guðjónsdóttir)

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2019  Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Eddu

 

Tengt efni