SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðný Árnadóttir

Guðný Árnadóttir fæddist á Valþjófsstað í Fljótsdal 5. júní 1813 og ólst þar upp fyrstu misserin hjá foreldrum sínum, Hallgerði Grímsdóttur og Árna Stefánssyni. Síðar bjuggu þau í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði og voru í húsmennsku, en lengst bjuggu þau á Kappeyri í Fáskrúðsfirði og var Guðný elst fimm systkina.

Árið 1835, þegar Guðný er 22ja ára, fer hún í vinnumennsku á prestsetrið á Hallormsstað. Þremur árum síðar fæðir hún son sem skírður var Árni en barnsfaðir Guðnýjar var Friðrik Hinriksson sem drukknaði í Lagarfljóti sama ár, 1838. Árið 1841 giftist Guðný Bjarna Ásmundssyni, fátækum vinnumanni sem var fjórtán árum eldri en hún. Þau eignuðust fjögur börn sem upp komust en tvö þeirra voru fóstruð á önnur heimili, líklega vegna bágs hags foreldranna.

Guðný var á sinni tíð þekkt undir heitinu Skáld-Guðný enda var hún sennilega "hraðkvæðust Íslendinga að Símoni [Dalaskáldi] undanskildum", skrifar Benedikt Gíslason. Eftir Guðnýju liggur mikið af skáldskap þó ekki hafi hann ratað á bók fyrr en haustið 2020, eða  123 árum eftir að Guðný dó.

Það var Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sem stóð af útgáfu á ljóðum Guðnýjar og hlaut bókin titilinn: Hugurinn einatt hleypur minn og er hann sóttur í fyrsta erindi ævikvæðis sem Guðný orti.

Mikill hluti af kvæðum Guðnýjar hefur varðveist í handriti sem skráð var í Hornafirði árið 1876 og er nú í Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum. Afkomendur Guðnýjar í Lóni og Hornafirði hafa líka varðveitt kvæði eftir formóður sína. Í bókinni er ítarleg og fróðleg ritgerð um æviferil Guðnýjar og kveðskap hennar. Þar er líka sagt frá hvernig kvæði Guðnýjar fundust smám saman eftir að hafa verið talin glötuð um langa hríð. Höfundar greinarinnar eru Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur og Rósa Þorsteinsdóttir, þjóðfræðingur við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Laust eftir 1870 flutti Guðný til Bjarna sonar síns að Hvalnesi í Lóni og þar átti hún heima til æviloka, en hún dó 3. júní 1897.

Fyrstu árin í Lóni stundaði Guðný ljósmóðurstörf við góðan orðstír.

Saga Guðnýjar Árnadóttur er sérstök og mjög áhugaverð. Hún var alin upp við mikla fátækt og átti að mörgu leyti erfiða ævi en skildi eftir sig mikinn fjársjóð í ljóðum, rímum og lausavísum.

Heimild: Helgi Hallgrímsson og Rósa Þorsteinsdóttir, "Æviferill og ætt", í Hugurinn einatt hleypur minn.


Ritaskrá

  • 2020   Hugurinn einatt hleypur minn