SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Gréta Sigfúsdóttir

Gréta Sigfúsdóttir fæddist 20. febrúar árið 1910 í Reykavík og var skírð Lára Margrét Sigfúsdóttir. Hún var elst fjögurra barna þeirra Sigfúsar G. Sveinbjarnarsonar og Kristínar Jónsdóttur. Yngsti bróðir Grétu var Hannes Sigfússon skáld.

Gréta var gædd listrænum hæfileikum á ýmsum sviðum. Hugur hennar hneigðist að myndlist og tónlist á yngri árum og síðar að bókmenntum. Hún nam teikningu hjá Ríkharði Jónssyni myndhöggvara í þrjá vetur þegar hún var unglingur, og nokkrum árum síðar – þegar hún var tuttugu og fjögurra ára gömul – hóf hún nám við Kunst-industriskolen í Kaupmannahöfn, en varð frá að hverfa vegna fjárskorts. Á bernsku- og unglingsárum bjó Gréta lengst af í Reykjavík, en þegar hún var 25 ára fluttist hún til Stafangurs í Noregi bjó þar næstu 25 ár. Gréta fluttist aftur til Íslands þegar hún var á sextugsaldri og hér bjó hún til dauðadags, en hún lést 26. nóvember 1991. Gréta var þrígift og eignaðist þrjú börn.

Fyrsta skáldsaga Grétu kom út árið 1966 og heitir Bak við byrgða glugga. Sagan fjallar um „ástandsárin“ í Noregi, sagan gerist á hernámsárum Þjóðverja í Noregi og aðalpersónan, Irma, er ung norsk kona sem á í ástarsambandi við þýskan hermann. Sex árum síðar, eða árið 1972, sendi Gréta frá sér framhald sögunnar, sem hún nefndi Fyrir opnum tjöldum. Þar er sögusviðið Þýskaland eftirstríðsáranna og eru örlög hinnar norsku konu enn í sögumiðju. Skáldsagan, Í skugga jarðar, kom út á milli bókanna um Irmu, en síðar sendi Gréta frá sér eina skáldsögu í viðbót, Sól rís í vestri, árið 1977 og smásagnasafnið Örvaflug 1978. Smásögur og ljóð eftir Grétu birtust í tímaritum og einnig fékkst hún við þýðingar.

Gréta gegndi trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra rithöfunda og var fulltrúi félagsins í Rithöfundasambandi Íslands.

Skáldsögur Grétu vöktu mikla athygli og var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Á bak við byrgða glugga. Erlendur Jónsson taldi bækurnar, Fyrir opnum tjöldum og Í skugga jarðar, vera „nýjung í íslenskri skáldsagnaritun“. Sú síðarnefnda er fyrsta íslenska framtíðarskáldsagan með vísindasagnaívafi. Bækurnar um Irmu brutu einnig blað sem fyrstu bækurnar sem skrifaðar voru um ‚ástandið‘ í Noregi en voru þó ekki gefnar út þar í landi þótt þýðingar á þeim séu til. Jóhann Hjálmarsson getur sér til um að Norðmenn hafi ekki verið tilbúnir til að horfast í augu við eftirköst hernáms Þjóðverja í Noregi á þeim tíma sem bækur Grétu komu út. Mörgum árum síðar sló norska skáldkonan Herbjörg Wassmo í gegn með þríleik sínum um ‚ástandsbarnið‘ Þóru. (Þríleikurinn er til í íslenskri þýðingu Hannesar Sigfússonar: Húsið með blindu glersvölunum, Þögla herbergið og Dreyrahiminn). Wassmo hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráð árið 1987 fyrir síðustu bókina í þríleiknum. Bækur Grétu um Irmu áttu einnig að verða þrjár og var sú þriðja til í handriti en aldrei gefin út.

Þrátt fyrir gott gengi í upphafi virðist Gréta Sigfúsdóttir alveg hafa fallið í gleymsku hjá íslenskum lesendum og er það miður.

Heimildir:

  • Erlendur Jónsson, Íslensk skáldsagnaritun 1940-1970, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja 1971.
  • Jóhann Hjálmarsson, „Byrgðir gluggar, opin tjöld. Í minningu Grétu Sigfúsdóttur rithöfundar.“ Morgunblaðið, 5. des. 1991, bls. 16.

Ritaskrá

  • 1978    Örvaflug (smásögur)
  • 1977    Sól rís í vestri
  • 1972    Fyrir opnum tjöldum
  • 1969    Í skugga jarðar
  • 1966    Bak við byrgða glugga

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1967    Bak við byrgða glugga tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Tengt efni