Eyrún Ósk Jónsdóttir

Eyrún Ósk Jónsdóttir fæddist árið 1981 og ólst upp í Kópavogi og Hafnarfirði. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók Gjöf árið 1997. Tveimur árum seinna gaf hún út ljóðabókina Til vina minna, eða árið 1999.

 

Eyrún á að baki feril sem rithöfundur, leikari og leikstjóri. Hún útskrifaðist árið 2001 úr Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og hélt til London þar sem hún hóf nám í leiklist við Rose Bruford College. Hún sótti síðan skiptinám í Madrid árið 2004 við Real escuela de arte dramatico. Sama ár skrifaði hún leikritið Beauty sem var sýnt í leikhúsum í London og á Íslandi. Eyrún útskrifaðist með BA-gráðu í evrópskri leiklist frá Rose Bruford College á Englandi árið 2005 og lauk síðar meistaragráðu í fjölmiðlun og þróunarfræðum frá Winchester University á Englandi árið 2007. Á þessum árum skrifaði hún einnig leikritin Fear og Superhero sem voru sýnd á leiklistarhátíðum víðsvegar um Evrópu.

 

Eyrún kenndi leiklist til fjölda ára í Flensborgarskólanum og í nokkrum grunnskólum í Hafnarfirði. Hún rak um tíma leiklistarrýmið Jaðarleikhúsið, sem var staðsett í Hafnarfirði þar sem hún framleiddi ýmis verk. Árið 2010 gaf hún út fyrstu skáldsöguna sína, unglingabókina Hrafnar, sóleyjar og myrra sem hún skrifaði í samstarfi við Helga Sverrisson. Seinna skrifaði hún kvikmyndahandrit í fullri lengd upp úr bókinni og leikstýrði henni ásamt Helga, en kvikmyndin var sýnd í Sambíóunum árið 2011, auk þess sem hún var sýnd á  ýmsum kvikmyndahátíðum erlendis. Áður hafði Eyrún einnig skrifað og leikstýrt nokkrum stuttmyndum. Árið 2014 vann Eyrún einleikjasamkeppni Act alone einleikjahátíðarinnar, fyrir einleikinn Doría, sem hún skrifaði í samstarfi við Helga Sverrisson, en Eyrún leikstýrði síðan sviðsettum leiklestri af verkinu fyrir Act alone hátíðina árið 2015. 2014 kom einnig út skáldsaga hennar Lórelei og árið á eftir skáldsagan Söngur snáksins.

 

Eyrún vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 fyrir ljóðabók sína Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Árið 2017 komu út tvær bækur eftir hana, unglingasagan Ferðin til Mars sem hún skrifaði í samstarfi við Helga Sverrisson og barnabókin Skrímslin í Hraunlandi sem hún skrifaði í samvinnu við Ölmu Björk Ástþórsdóttur og kom bókin út bæði á ensku og íslensku.

 

Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, þrjár ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað fjöldann allan af greinum og flutt fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma. Þá hefur Eyrún tekið þátt í stjórnmálastarfi og setið í hinum ýmsu nefndum og ráðum og gegnir nú stöðu varabæjarfulltrúa í Hafnarfirði.  

 

Eyrún á einn son og býr í Hafnarfirði.

Eyrún Ósk Jónsdóttir

  • 2019  Mamma, má ég segja þér?
  • 2018  Í huganum ráðgeri morð
  • 2017: Ferðin til Mars
  • 2017: Skrímslin í Hraunlandi á ensku og íslensku
  • 2016: Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
  • 2016: Leikkonan og fíflið
  • 2015: Bergnuminn
  • 2014: L7: söngur snáksins
  • 2013: Lórelei
  • 2013: Doría
  • 2013: Hættur
  • 2013: Ferðin til himna
  • 2010: L7: Hrafnar, sóleyjar og myrra                                              
  • 2008: Ósynd (stuttmynd)
  • 2007: Superhero
  • 2005: Fear
  • 2004: Beauty
  • 2000: Stjarnan sem týndi geislanum sínum
  • 1999: Til vina minna
  • 1997: Gjöf

   

  Auk þessa hafa hinar ýmsu greinar birst eftir Eyrúnu í blöðum, tímaritum og á vefnum.

  • 2016: Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa
  • 2016: Örleikjasamkeppni Uppsprettunnar; Leikkonan og fíflið
  • 2013: Leikritasamkeppni Act Alone: Doría
  • 2013: Viðurkenning: Leikritið Ferðin til Himna valið inn í höfundasmiðju Leikskáldafélagsins
  • 2011: Hvatningarviðurkenning Rótarýklúbbsins Straums
  • 2011: Fyrirmyndarverkefni Evrópu unga fólksins, besta verkefni evrópskrar ungmennaviku.
  • 2006: Ritgerðarsamkeppni Japanska sendiráðsins á Íslandi
  • 2006: Hvatningarverðlaun Hafnarfjarðarbæjar til ungs listamanns.
  • 2005: SGI Canada Rainbow Award
  • 2000: Ritgerðarsamkeppni Íslenska utanríkisráðuneytisins

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

 • Black Facebook Icon
 • Black Twitter Icon
 • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband