Auður Haralds

Auður Haralds er fædd 11. desember 1947. Hún hefur starfað sem blaðamaður, þýðandi, útvarpskona og pistlahöfundur og sinnt verslunar-, skrifstofu- og verksmiðjustörfum. Í skáldsögum sínum fjallar hún um kvennakúgun og hlutskipti lágstéttarkvenna og stíll hennar einkennist af íróníu, frumlegum myndhverfingum og sviðsetningum. Fjöldi greina eftir Auði um jafnréttis- og samfélagsmál hafa birst í fjölmiðlum. 

 

Fyrsta skáldsaga hennar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979. Hún vakti mikla athygli og opnaði umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi og kvennakúgun. Hún fylgdi henni eftir með Læknamafíunni sem út kom 1980. Undir titilinum framan á bókarkápunni stendur ,,Lítil pen bók eftir Auði Haralds“ en þannig vísar Auður til þeirra niðrandi ummæla sem kvenrithöfundar fengu um skáldverk sín á þessum tíma. Hlustið þér á Mozart? kom út 1982; íronísk ádeilda á innantómt líf heimavinnandi húsmóður sem les formúlukenndar ástarsögur til að drepast ekki úr leiðindum. Auður skrifaði afar vinsælar barnabækur um prakkarann Elías sem byggðu á innslögum sem hún skrifaði ásamt Valdísi Óskarsdóttur fyrir Stundina okkar. Unglingabókin Baneitrað samband á Njálsgötunni (1985) varð einnig afar vinsæl og síðar var gerð leikgerð eftir henni sem sett var á svið í íslensku Óperunni og víðar. Árið 1987 kom svo út síðasta skáldsaga hennar til þessa, Ung, há, feig og ljóshærð, sem er póstmódernísk skopútgáfa á hinni hefðbundnu ástarsögu. Auður tilheyrir þeim hópi kvenrithöfunda sem hætti að skrifa á níunda áratugnum en kenningar um ástæður þess eru reifaðar t.d. í lokaritgerð Kolbrúnar Huldu Pétursdóttur frá 2014. Árið 2007 skrifaði Auður Litlu, rauðhærðu stúlkuna, barnabók með myndskreytingum eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur.

 

Auður bjó um skeið á Ítalíu en býr nú á Bergþórugötunni.

 

Heimildir:

Kolbrún Hulda Pétursdóttir. Húmor sem skjöldur. 2014

Í þættinum Bók vikunnar á rás eitt má heyra upplestur Auðar, brot úr viðtölum við hana o.fl.:

http://www.ruv.is/frett/hvunndagshetjan-audur-haralds

Mynd af Auði er fengin af vefnum Lifðu núna

 

 

Auður Haralds

  • 2007 Litla rauðhærða stúlkan
  • 1994 Aðdragandi (smásaga í Tundur dufl)
  • 1987 Ung, há, feig og ljóshærð
  • 1986 Elías, Magga og ræningjarnir
  • 1985 Elías kemur heim
  • 1985 Baneitrað samband á Njálsgötunni
  • 1985 Elías á fullri ferð
  • 1984 Elías í Kanada
  • 1983 Elías
  • 1982 Hlustið þér á Mozart?
  • 1980 Læknamafían. Lítil pen bók
  • 1979 Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn
 • 2010 Stígvélaði kötturinn, Hans og Gréta, Tumi þumall. Haninn, músin og litla rauða hænan

  1981 Dulin fortíð eftir Phyllis A. Whitney

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

 • Black Facebook Icon
 • Black Twitter Icon
 • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband