Þuríður Guðmundsdóttir

Þuríður er fædd 1939 og uppalin í Hvítársíðu í Borgarfirði en flutti síðan til Reykjavíkur og starfaði m.a. sem kennari. Fyrsta ljóðabók hennar  „Aðeins eitt blóm“ kom út árið 1969 og samtals urðu ljóðabækur hennar sjö en ekki fer mikið fyrir henni í bókmenntaumræðunni. Um hana ritar Helga Kress í TMM 1981: „Það er ekki gott að segja hvað veldur þessu fálæti. Skyldi það vera vegna þess að skáldið er kona og sækir yrkisefni sín gjarnan í eigin reynslu, í heim hversdagsleikans, í líf kvenna og barna? Eða skyldi það vera vegna þess að skólar, æðri sem lægri, jafnt sem bókmenntasögur og lestrarbækur af öllu tagi, hafa lagst á eitt við að kenna okkur að konur séu annars flokks skáld? Eitthvað hlýtur að valda, því að víst er um það, að Þuríður Guðmundsdóttir er eitt albesta skáld sem við Islendingar eigum í dag“. Helga fjallaði einnig um ljóðabók Þuríðar, Það sagði mér haustið, í Skírni 1985. Sigurrós Erlingsdóttir skrifaði um tvær ljóðabækur Þuríðar í Veru, 1986. Súsanna Svavarsdóttir skrifaði ljóðrýni 1997 um eitt ljóða Þuríðar, Blóm þagnarinnar, og líkti henni sjálfri við blóm þagnarinnar í íslenskum skáldskap.

 

Ljóð Þuríðar hafa birst í blöðum og tímaritum, s.s. Lesbók Morgunblaðsins og Stínu, og í Perlum, úr ljóðum íslenskra kvenna 1998. Nýjasta bók Þuríðar er Konan með slöngupennann, skáldverk um Heiðu sem lítur yfir líf sitt í fylgd völvu. Þar skiptast á ljóð og frásögn í atburðarás sem að nokkru leyti á sér fyrirmynd úr lífi höfundar.

 

 

 

 

 

Mynd: Lesbók Mbl, 28.7.2007

 

 

 

 

Þuríður Guðmundsdóttir

 • 2014 Konan með slöngupennann (skáldsaga)

  1994 Nóttin hlustar á mig

  1989 Orðin vaxa í kringum mig

  1985 Það sagði mér haustið

  1980 Og það var vor

  1975 Á svölunum

  1972 Hlátur þinn skýjaður

  1969 Aðeins eitt blóm

   

   

 • 1997 Bókmenntaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar