SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þorbjörg (Tobba) Marinósdóttir

Þorbjörg Alda Birkis Marinósdóttir er fædd árið 1984.

Þorbjörg, betur þekkt sem Tobba Marinós, er bæði fjölmiðlakona og rithöfundur.

Að lokum grunnskóla hélt Tobba til Brasilíu sem skiptinemi og útskrifaðist síðan úr VÍ 2003. Í janúar 2009 lauk hún BA prófi í fjölmiðlafræði frá háskólanum í Derby á Bretlandi og meistaraprófi í verkefnastjórnun 2018.

Tobba hefur starfað sem markaðsstjóri hjá Skjá einum og ritstjóri og blaðakona hjá m.a. Morgunblaðinu, Séð og heyrt og Kvennablaðinu.

Tobba gat sér gott orð sem bloggari á dv.is, var þáttastjórnandi Djúpu laugarinnar 2010 og skrifaði sama ár fyrstu skáldsögu sína, Makalaus. Bókin vakti mikla athygli og voru gerðir sjónvarpsþættir eftir henni. 

Skáldsögur Tobbu fjalla um konur í Reykjavík samtímans, um frama og fjölskyldulíf, vináttu, ást og samskipti kynjanna. Verk hennar, sem eru umdeild, teljast til chiclit, skutlubókmennta, skvísusagna og afþreyingarbókmennta í anda póstfemínisma. Skáldsögur hennar einkennast af glaðværð, kaldhæðni, orðaleikjum og samtímaslangri. Haft hefur verið eftir henni að stelpur með varalit megi megi líka lifa í karlaheiminum.

 

Heimildir

https://skemman.is/bitstream/1946/14930/2/inngangur.pdf

https://knuz.wordpress.com/2011/09/29/med-island-i-klofinu/

http://kvennabladid.is/2014/06/09/skvisubaekur/

Ljósmynd af Tobbu er tekin af vef Viðskiptablaðsins

 


Ritaskrá

  • 2018  Gleðilega fæðingu. Vellíðan, valkostir og verkjastilling (ásamt Aðalbirni Þorsteinssyni og Hildi Harðardóttur)
  • 2017  Náttúrulega sætt (matreiðslubók)
  • 2014  20 tilefni til dagdrykkju 
  • 2011  Lýtalaus
  • 2010  Dömusiðir
  • 2010  Makalaus