Þóra Jónsdóttir

Þóra Jónsdóttir er fædd 17. janúar 1925 á Bessastöðum á Álftanesi en fluttist á barnsaldri með fjölskyldu sinni að Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp. Hún nam við Alþýðuskólann á Laugum í Reykjadal á árunum 1940 til 1942 og síðar við Menntaskólann á Akureyri þar sem hún lauk stúdentsprófi árið 1948. Þóra kenndi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði veturinn 1948 til1949 en hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún las bókmenntir við Hafnarháskóla frá 1949 til 1952. Eftir að hún kom aftur til Íslands fór Þóra í Kennaraskóla Íslands og lauk prófi þaðan árið1968. Þóra starfaði á Borgarbókasafni Reykjavíkur frá 1975 til 1982.

 

Tvennt var það í æsku og mótunarárum Þóru sem hlúði að hinni listrænu taug hennar, náttúran og ljóðalestur. Þessu lýsir hún í pistli frá 2001 sem finna má á vef bókmenntaborgarinnar Reykjavík.

Fyrsta ljóðabók Þóru, Leit að tjaldstæði, kom út árið 1973, en síðan hefur hún sent frá sér fjölda ljóðabóka auk ljóðaþýðinga. Þá hafa komið út tvær bækur eftir Þóru með stuttum ljóðrænum, ævisögulegum prósatextum. Safnrit með ljóðum úr fyrstu sjö ljóðabókum Þóru kom út hjá bókaforlaginu Sölku haustið 2005 undir titilinum Landið í brjóstinu.

 

Sem ljóðskáld sver Þóra sig í ætt við módernista á borð við Hannes Pétursson og Þorstein frá Hamri en nafn hennar kemur sjaldan upp í umræðu um íslenskan módernisma því fáir þekkja til skáldskapar hennar. Lítið hefur verið skrifað um ljóðlist Þóru en nefna má grein Úlfhildar Dagsdóttur frá 2002 sem finna má á vef bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur.

 

Auk skáldskaparins hefur Þóra fengist við myndlist árum saman og á mörgum kápum bóka hennar eru hennar eigin málverk.

Þóra er búsett í Reykjavík. Hún er gift og á uppkomin börn.
 

Þóra Jónsdóttir

  • 2019    Sólardansinn [ljóðrænar örsögur]
  • 2013    Nokkur ljóð  
  • 2013    Elst milli hendinga
  • 2010    Hversdagsgæfa [ljóðrænar örsögur]
  • 2005    Landið í brjóstinu [safn fyrri ljóðabóka]
  • 2003    Einnota vegur
  • 2000    Far eftir hugsun
  • 1996    Ljósar hendur [ásamt Ágústínu Jónsdóttur og Vilborgu Dagbjartsdóttur)
  • 1995    Lesnætur
  • 1991    Línur í lófa
  • 1988    Á hvítri verönd
  • 1983    Höfðalag að hraðbraut
  • 1978    Horft í birtuna
  • 1975    Leiðin norður [Leiðin heim]
  • 1973    Leit að tjaldstæði

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

 • Black Facebook Icon
 • Black Twitter Icon
 • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband