SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ólína Jónasdóttir

Ólína Jónasdóttir er fædd 8. apríl 1885 á Silfrastöðum í Skagafirði, dóttir vinnuhjúa þar.

Til þriggja ára aldurs var Ólína hjá afa sínum og skáldmæltri ömmu, Guðrúnu Hallsdóttur, í Bólu í Blönduhlíð. Eftir lát hans fluttist hún með ömmu sinni að Minni-Ökrum þar sem foreldrar hennar höfðu hafið búskap, og síðar að Fremri-Kotum í Norðurárdal.

Þegar Ólínba var tíu ára var henni komið fyrir í fóstri á bænum Kúskerpi þar sem hún var í nokkur ár við hörmulegan aðbúnað. Um dvöl sína þar skrifar hún eftirminnilega í endurminningum sínum. Ólína bjó alla ævi í Skagafirði, ef frá er talin sumarvist á Laxamýri þegar hún var ung stúlka.

Í árslok 1907 giftist Ólína Halli Jónssyni frá Brekkukoti í Blönduhlíð og hófu þau búskap þar. Þau eignuðust einn son en Hallur drukknaði í Héraðsvötnum sumarið 1909 eftir tæplega tveggja ára hjónaband. Eftir það var Ólína í húsmennsku með son sinn á ýmsum bæjum í Skagafirði.

Síðari hluta ævinnar átti Ólína við mikla vanheilsu að stríða og var langdvölum á sjúkrahúsi. Frá árinu 1928 bjó hún á Sauðárkróki með sambýlismanni sínum Guðmundi Guðmundssyni og þar lést hún 29. ágúst 1956.

Ólína naut lítillar menntunar í æsku en var vel ritfær og sískrifandi alla ævi. Hún varð landsfræg fyrir hnyttnar stökur, en eftir hana liggja einnig kvæði og merkar frásagnir.

2008 birtust þrjú áður óbirt ljóð eftir Ólínu í Són, tímariti um óðfræði.

Árið 1946 gaf Broddi Jóhannesson út endurminningar hennar, Ég vitja þín æska, ásamt nokkrum stökum og kom bókin  í annarri útgáfu árið eftir. Ólína jók síðar við endurminningar sínar og voru þær gefnar út löngu eftir lát hennar árið 1981 undir nafninu Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna. Þar eru stökurnar felldar brott. Kvæði frá síðustu æviárum Ólínu eru til í eiginhandarriti á handritadeild Landsbókasafns.

Heimild:

  • Helga Kress. 2001. „Ólína Jónasdóttir 1885-1956“, bls. 212. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
  • Són, tímarit um óðfræði, 6. hefti 2008, bls. 75-76. 

Myndin er fengin af vefsíðunni gardur.is, sjá hér.


Ritaskrá

  • 1981  Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna
  • 1946  Ég vitja þín æska