Áslaug Jónsdóttir

Áslaug Jónsdóttir fæddist þann 31. mars 1963. Hún ólst upp á bænum Melaleiti í Melasveit í Borgarfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1983 og stundaði síðan nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1984 - 1985. Áslaug nam við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn (Skolen for Brugskunst - Danmarks designskole) frá 1985 - 1989 þegar hún útskrifaðist frá teikni- og grafíkdeild skólans. Auk þess hefur hún tekið þátt í námskeiðum í Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Íslandi.

 

Frá því að hún lauk námi hefur Áslaug starfað sem myndskreytir, grafískur hönnuður, rithöfundur og myndlistamaður. Hún hefur skrifað og myndskreytt fjölda barnabóka og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hún haldið námskeið og fyrirlestra á ýmsum vettvangi, m.a. í Háskólanum á Akureyri, hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, hjá Ung i Færeyjum og víðar á Norðurlöndum. Áslaug hefur einnig skrifað og myndlýst barnaefni fyrir sjónvarp. Hún var fréttaritari fyrir Morgunblaðið 1996 - 1998 og pistlahöfundur og teiknari á Degi 1998. Hún hefur átt sæti í stjórnum SÍUNG, félags barnabókahöfunda, og Fyrirmyndar, félags myndskreyta, frá 2001.

 

Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. hefur hún tvisvar fengið Dimmalimm verðlaunin, íslensku myndskreytiverðlaunin og hún hlaut Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins 2002 ásamt Andra Snæ Magnasyni fyrir Söguna af Bláa hnettinum.

 

Áslaug Jónsdóttir býr í Reykjavík.

 

Frekari upplýsingar um verk Áslaugar má finna á heimasíðu hennar.

Áslaug Jónsdóttir

  • 2020 Sjáðu!
  • 2017 Skrímsli í vanda
  • 2014 Skrímslakisi
  • 2012 Skrímslaerjur
  • 2011 Litla skrímslið og stóra skrímslið í leikhúsinu
  • 2009 Skrímsli í heimsókn
  • 2008 Skrímslapest
  • 2007 Ég vil fisk!
  • 2007 Gott kvöld
  • 2007 Skrímsli í myrkrinu
  • 2006 Stór skrímsli gráta ekki
  • 2005 Gott kvöld
  • 2004 Nei! sagði litla skrímslið
  • 2003 Eggið
  • 2003 Unugata
  • 1998 Sex ævintýri
  • 1996 Prakkarasaga
  • 1995 Einu sinni var raunamæddur risi
  • 1993 Á bak við hús - Vísur Önnu
  • 1991 Fjölleikasýning Ástu
  • 1991 Stjörnusiglingin
  • 1990 Gullfjöðrin

   

  Áslaug hefur einnig skrifað handrit fyrir sjónvarp og leiksvið og sömuleiðis hafa sögur og greinar eftir hana birst í tímaritum.

 • Verðlaun:

  • 2017 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skrímsli í vanda
  • 2015 - Heiðurslisti alþjóðlegu IBBY samtakanna: Skrímslakisi
  • 2008 - Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin: Gott kvöld (sem besta barnasýning ársins)
  • 2006 - Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkur: Stór skrímsli gráta ekki
  • 2005 - Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar: Gott kvöld
  • 2005 - Dimmalimm - Íslensku myndskreytiverðlaunin: Gott kvöld
  • 2004 - Dimmalimm - Íslensku myndskreytiverðlaunin: Nei! sagði litla skrímslið
  • 2004 - Heiðurslisti IBBY: Fyrir myndskreytingar í Krakkakvæðum eftir Böðvar Guðmundsson
  • 2002 - Barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins (ásamt Andra Snæ Magnasyni): Sagan af bláa hnettinum
  • 2002 - Heiðurslisti IBBY: Sagan af bláa hnettinum (myndskreytingar)
  • 2000 - Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Fyrir framlag til myndskreytinga í barnabókum
  • 1999 - Viðurkenning úr Bókasafnssjóði höfunda
  • 1993 - Viðurkenning Barnabókaráðsins, Íslandsdeildar IBBY

   

  Tilnefningar:

  • 2021 - Fjöruverðlaunin: Sjáðu!
  • 2017 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skrímsli í vanda
  • 2013 - Verðlaun Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir: Skrímslaerjur
  • 2010 - Norrænu leikskáldaverðlaunin: Gott kvöld (leikrit sem Áslaug byggir á samnefndri bók sinni)
  • 2006 - Norrænu barnabókaverðlaunin: Gott kvöld (bók)
  • 1999 - H.C. Andersen verðlaunin: Fyrir myndskreytingar í barnabókum
  • 1999 - Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Sagan af bláa hnettinum (myndskreytingar)