SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. febrúar 2024

„– OG ÞAÐ ÚT AF STELPU!“ UM SÚPERMANN EFTIR ÁSTU SIGURÐARDÓTTUR

Greinin birtist í Ástusögur: Líf og list Ástu Sigurðardóttur. (Ritstj. Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir.) Reykjavík: Lesstofan 2021. 

 

Inngangur

Saga Ástu Sigurðardóttur „Súpermann“ birtist fyrst í tveimur hlutum í tímaritinu Birtingi á árunum 1953 og 1954.1 Upprunalegur titill sögunnar var „Súpermann og blú pælott“ en þegar smásagnasafnið Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns kom út 1961 var síðara hluta titilsins sleppt og titilinn „Súpermann“ hefur verið notaður síðan.2 Sagan lýsir fullkominni niðurlægingu íslensks stráks sem harmar að hafa misst kærustuna í fangið á amerískum hermanni. Sagan er sögð í þriðju persónu af alvitrum sögumanni. Sjónarhorn frásagnarinnar er svo til alfarið bundið við strákinn, lesandinn fylgist með honum í gegnum ytri lýsingar sögumanns en fær einnig innsýn inn í hugsanir hans og tilfinningar. Á milli ytri og innri lýsinganna er ósamræmi og spenna sem býður upp á annars konar skilning á sögunni en virðist hafa verið viðtekinn fram að þessu. Í því sambandi má benda á umsögn Friðriku Benónýs í bók hennar um höfundinn,  Minn hlátur er sorg, en þar leggur hún Ástu þessi orð í munn: „Sagan um Súpermann er bara yfirklór. Kemur ekki frá hjartanu. Hvað varðar hana um ástarsorgir strákgepils?“3 Ekki kemur fram í bókinni hvort Friðrika hafi heimildir fyrir því að Ásta hafi metið smásögu sína á þennan veg eða hvort um spuna Friðriku sjálfrar sé að ræða en það síðarnefnda verður þó að teljast sennilegra.4 Í beinu framhaldi segir: „En þó skilur hún hann. Skilur alla sem missa það sem þeim er kærast. Eru í stríði við ósigrandi her. Og tapa. Tapa aftur og aftur. Líka fyrir sjálfum sér.“5 Af þessum orðum má álykta að Friðrika telji að samúð höfundar sé ótvírætt með aðalpersónunni. Með slíkum lestri er litið framhjá íroníunni sem gegnsýrir söguna og er meginstílbragð hennar. Ég tel að grunntónn sögunnar sé íronísk ádeila með sterkar skírskotanir í eldfima samfélagslega umræðu um siðferði, völd og kyngervi og mun leitast við að sýna fram á það hér á eftir.

Burtséð frá mögulegu mati Ástu sjálfrar á sögunni og aðalpersónu hennar er ljóst að „Súpermann“ hefur ekki vakið álíka eftirtekt og þær smásögur Ástu sem taldar voru sjálfsævisögulegar, líkt og til að mynda „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“, „Gatan í rigningu“ og „Draumurinn“. En „Súpermann“ er mjög áhugaverð saga, ekki síst vegna þess að hér er um að ræða eitt af fáum dæmum úr íslenskum bókmenntum þar sem konur skrifa um „ástandið“.6 Lunginn af umræðunni um ástandið í íslenskum bókmenntum beinir kastljósinu að skrifum karlhöfunda og þótt aðalpersónan í „Súpermann“ sé karlkyns er það kona sem stýrir pennanum og áhugavert að sjá hvort og þá hvernig það breytir sjónarhorninu.7 Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur, sem skoðaði  samband íslenskra kvenna og setuliðsmanna í íslenskum bókmenntum um miðjan níunda áratug síðustu aldar, fjallaði um tvær skáldsögur eftir karla og eina skáldsögu og tvær smásögur eftir konur. Hún sýndi fram á að sjónarhorn karlrithöfunda og kvenrithöfunda er mjög ólíkt en sú staðreynd hefur þó ekki leitt til frekari samanburðar á skrifum karla og kvenna um þetta efni.8

Hér á eftir verður smásagan „Súpermann“ greind í ljósi almennrar og fræðilegrar umræðu um ástandið og hún borin saman við ástandssögur karlhöfunda. En fyrst verður vikið að orðræðunni um samskipti íslenskra kvenna og hermanna eins og hún birtist í samtímafjölmiðlum og bókmenntum eftirstríðsáranna. Umræðunni verður þó stillt í hóf hér því fjöldi fræðimanna á sviði hug- og félagsvísinda hefur rannsakað efnið og birt um það greinar á undanförnum árum og mun ég vísa til þeirra eftir föngum. Hins vegar er nauðsynlegt að bregða upp mynd af því umhverfi sem saga Ástu er sprottin úr og þeirri orðræðu sem ég tel að hún sé að bregðast við með „Súpermann“.

 

Haf vansæmdarinnar

Ríkjandi frásögn íslenskrar sögu og bókmenntasögu um hernámsárin (1941-1945) á Íslandi snýst aðallega um tvennt. Annars vegar um það hvernig Íslendingar högnuðust á hernáminu og reistu efnahag landsins við eftir hörð kreppuár og hins vegar um „siðferðislegt fall“ íslenskra kvenna sem áttu samneyti við setuliðsmenn. Fyrri frásögnin er að miklu leyti rómuð en sú síðari var fordæmd af hörku áratugum saman og eimir jafnvel enn af slíkri fordæmingu meðal almennings. Grundvöllur hvoru tveggja var sá gríðarlegi fjöldi hermanna sem settist að á Íslandi á þessum árum, mikil atvinna skapaðist fyrir landsmenn af þeim sökum og skyndilega áttu íslenskar konur völ á miklu úrvali karlmanna þegar kom að makaleit. Einnig gátu þær fengið ævintýraþrá sinni svalað með umgengni við menn frá öðrum löndum sem opnuðu þeim glugga út í áður óþekktan heim. Þó að mörgum, sérstaklega vinstrimönnum, væri illa við að vinna fyrir erlent hervald og „brask og bretavinna hefði fremur illt orð á sér var þó mönnum miklu verr við umgengni íslenskra kvenna við hermennina“.9 Það er athyglisvert að fordæmingin á samböndum íslenskra kvenna og setuliðsmann færist í aukana eftir því sem tímanum vindur fram og bókmenntaminnið um „drusluna“ þróast smám saman og „ástandsstúlkan [hélt] áfram að leika óeðlilega stórt hlutverk í bókmenntum sjötta og sjöunda áratugarins þar sem „kanamellum“ er lýst sem fjölmennri starfsstétt.“10

Því má halda fram að á síðustu áratugum hafi orðið grundvallarbreyting á viðhorfum hvað varðar samband íslenskra kvenna og hermanna og óhætt er að fullyrða að áhrifa femínískrar nálgunar fræðimanna skipti þar sköpum. Daisy Neijmann hefur í grein um fyrstu birtingarmyndir hernámsins í íslenskum skáldskap bent á að fáir hafi spurt „óþægilegra siðferðisspurninga um að græða á stríði sem leiddi til meira mannsfalls en áður hafði þekkst, hungursneyðar og frelsissviptingar og […] því að gróðinn skyldi safnast á fáar hendur“.11 Í stað þess að glíma við réttmætar spurningar af þessu tagi var allri siðferðislegri ábyrgð í umræðu um hersetuna varpað á konur, þær gerðar að blórabögglum og sektarlömbum og málinu stillt upp á þann hátt að um svik við íslenskt þjóðerni og sjálfstæði landsins væri að ræða. Líkt og oft áður var líkami kvenna í brennidepli sem og réttur þeirra til að taka eigin ákvarðanir um líf sitt – ekki síst kynlíf. Þorgerður H. Þorvaldsdóttir kynjafræðingur, sem rannsakaði sérstaklega hinn „kvenlega líkama í íslensku menningarumhverfi í sögulegu ljósi“, benti á að í táknmyndum „hins kvenlega í íslenskri þjóðarvitund […] fléttast saman hugmyndir um konur, náttúru, menningu, þjóðerni og hreinleika, og mynda margslungið tengslanet.“12 Hún ítrekar jafnframt að hér takist á „þjóðfélagslegar væntingar um konur sem kynverur, eða konur sem kyn-lausar-verur og togstreitan á milli þessara andstæðu póla kvenleikans er samofin því að hinn kvenlegi líkami er snertiflötur þar sem andhverfurnar „íslenskt“ og „útlent“ eru sviðsettar eða rekast á með látum.“13 Þótt Ísland hefði grætt á hersetunni var myndin sem dregin var upp af landinu mynd af fórnarlambi. Litið var á hernámið sem atlögu að sjálfstæði landsins og ekki síst atlögu að þjóðerninu, erlendum áhrifum sem kristölluðust í samförum íslenskra kvenna og erlendra hermanna og leitt gátu til barneigna, spillingar á hinu hreina íslenska blóði.14

Fræðimenn sem fjallað hafa um hernámsárin og rýnt í orðræðu dagblaða og skýrslna, greint texta skáldsagna og ljóða o.s.frv., hafa flestir komist að þeirri niðurstöðu að umræðan um ástandið hafi verið blásin upp, ýkt og afbökuð, drifin áfram af kynjafordómum og feðraveldisótta. Ekki var nóg með að hatrömm samkeppni væri um íslenskt kvenfólk heldur urðu margar konur fjárhagslega sjálfstæðar með því að vinna fyrir hermenn, elda ofan í þá og þvo af þeim, og sumar höfðu jafnvel meiri tekjur en karlmenn og þá gat verið stutt í að þær gerðu kröfur sem karlmönnum líkaði ekki. Vegið var að rótgrónu veldi karlmanna og líklega hafa fáir atburðir í sögu landsins afhjúpað feðraveldið betur en hersetan. Þór Whitehead sagnfræðingur er þó á þeirri skoðun að stefnan sem valdamenn tóku á styrjaldarárunum til að „hindra samskipti kvenna og hermanna“ hafi ekki grundvallast á kynferði framar öðru heldur fyrst og fremst „þjóðernislegri forsjárstefnu“.15 En eins og komið var inn á hér að framan skipa konur einatt lykilhlutverk í hugmyndum um þjóðerni og forræði karla yfir konum var sjaldnast dregið í efa á þessum tíma, það er að segja af þeim sjálfum. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir sagnfræðingur segir að í „ímyndarsköpun ástandsstúlkunnar [megi] greina skýrar andstæður: öðrum megin stóð hin þjóðlega, fallega, háttprúða og óspillta fjallkona en hinum megin stóð hin ögrandi, tælandi gála, galopin fyrir útlenskum áhrifum og flaggandi falskri fegurð“.16

Ofstækið sem þær konur sem umgengust hermenn urðu fyrir var með ólíkindum og hefur sú saga verið ágætlega rannsökuð á síðustu áratugum, til að mynda hafa Þór Whitehead og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir rannsakað sérstaklega starfsemi og skjöl „Ungmennaeftirlits lögreglunnar“ sem Jóhanna Knudsen fór fyrir af offorsi og með kerfisbundnu ofbeldi.17 Konur og ungar stúlkur voru beittar andlegu og líkamlegu ofbeldi og yfirvöld skirrðust ekki við að reyna að hafa stjórn á ástalífi þeirra og lögðu til lagabreytingar hvað það varðaði. Litið var á allar konur sem umgengust hermenn sem vændiskonur og druslur, burtséð frá aldri og eðli sambands þeirra við hermennina. Alma Ómarsdóttir, fjölmiðlafræðingur hefur rannsakað orðræðu fjölmiðla um samband íslenskra kvenna og setuliðsmanna á tímum hernámsins og niðurstöður hennar sýna að karllæg sjónarmið hafi ráðið áherslum, sanngirni hafi ekki verið gætt og bæði „hafi ríkjandi kynjakerfi og pólitísk sjónarmið ráðið birtingarmyndinni“ og með því að „setja málið á dagskrá sem þjóðfélagsmein sem bregðast þyrfti við, hafi fjölmiðlar haft mótandi áhrif á skoðanir og viðhorf almennings.18

Sem dæmi um orðræðu fjölmiðla og yfirvalda má taka blaðagrein sem Jónas Jónasson frá Hriflu birti í Tímanum í september 1941 og bar yfirskriftina „„Ástandið“ í Reykjavík. Tvær leiðir til úrbóta“. Þar segir Jónas ástandið vera „hættulegan mannfélagssjúkdóm“ og að „nú þegar [séu] nokkur hundruð konur í Reykjavík sem litið er á sem vændiskonur“. Ekki nóg með það, heldur „megi geri ráð fyrir, að um 2500 konur í höfðuðstaðnum séu að einhverju leyti út á hálum ís í þessu efni“.19 Samkvæmt Jónasi eru konur þessar á aldrinum 12 ára til „uppfyrir sextugt“ og þykir honum einsýnt að við þessu þurfi að bregðast. „Vandaminnsta leiðin fyrir annað fólk er að grýta þessar konur […] og lýsa þeim sem siðferðislegum úrþvættum, sem eigi skilið að sökkva til botns í haf vansæmdarinnar“, skrifar Jónas, en varar þó við þeirri aðferð, hún „sé hættulegust af öllum“.20 Þess í stað ræðir hann þann möguleika að beita lagasetningu sem miði að því stýra ástalífi kvenna og biðlar til „dugandi manna úr öllum stéttum“ um að taka höndum saman:

 

Vel má vera, að stjórn og þing verði að skapa löggjöf um breyttan lögaldur kvenna til ástalífs, og setja löggjöf, sem geri fært að taka konur á ýmsum aldri úr umferð, setja þær til starfs og einangrun úr sýkingar-stöðum o. s. frv. En bak við slíkar aðgerðir þarf einhuga almenningsálit, og það verður ekki skapað nema með sterkum félagsskap dugandi manna úr öllum stéttum.21

 

Blaðagrein Jónasar er rituð í tilefni af skýrslu svokallaðrar „Ástandsnefndar“ (sem aftur byggði á gögnum áðurnefndar Jóhönnu Knudsen) og tveimur bréfum sem Vilmundur Jónsson landlæknir skrifaði dómsmálaráðuneytinu þetta sama ár.22 Framsetningin á ástandinu í öllum þessum heimildum dregur skýrt fram sjónarmið fulltrúa feðraveldisins gagnvart ástandinu. Viðhorf og framkoma valdhafa gagnvart íslenskum stúlkum og konum er mjög harkaleg og engin furða að talað sé um að stríð hafi staðið um konurnar á hernámsárunum. Í grein Þórs Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin. Stríðið um konurnar 1940-1941“, þar sem hann fer í saumana á starfsemi ungmennaeftirlits Reykjavíkur, spyr hann meðal annars þeirrar spurningar hvort hugsanlegt sé „að á styrjaldarárunum hafi hér farið fram víðtækustu njósnir sem stundaðar hafa verið um einkalíf fólks á Íslandi?“23 og bendir úttekt hans ótvírætt til að svo hafi verið. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir greinir ástandið á áhugaverðan hátt út frá kenningum um siðfár (e. moral panic) þar sem „leitast er við að skoða atburðarásina sem menningarlega heild eða ferli, sem samanstendur af samspili ólíkra þátta, í stað þess að persónugera kringumstæðurnar og smætta niður í tiltekna einstaklinga eða stofnanir“.24 Hún vísar í félagsfræðinginn Stanley Cohen sem segir siðfár geti farið af stað þegar „ástand, atvik, manneskja eða hópur er skilgreindur sem ógn við félagsleg gildi og almannahagsmuni“ .25 Hafdís Erla færir sannfærandi rök fyrir því í grein sinni að slíkt siðfár hafi skapast í kringum samband íslenskra kvenna og setuliðsmanna.

Ofannefnd viðhorf eru síðan endurómuð í skáldskap karlrithöfunda, jafnvel löngu eftir að hinni eiginlegu hersetu lauk. Daisy L. Neijmann hefur bent á að minnið um ástandskonuna sé ekki síst áberandi á 6. áratug síðustu aldar26 og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir skrifar:

 

Þótt hið eiginlega ástand spanni aðeins stutt tímabil í Íslandssögunni lifir goðsögnin um ástandskonuna, eða drósina, enn góðu lífi. Hún er skuggaveran sem varpaði hreinleikahugmyndinni fyrir róða og drakk í sig erlenda menningarstrauma með allt of nánu samneyti við breska og síðar bandaríska dáta sem höfðu hernumið þetta land. Mynd hennar er gjarnan dregin fram til viðmiðunar þegar íslenskar konur þykja ganga yfir strikið í kynferðislegum samskiptum sínum við erlenda karlmenn. Með reglulegu millibili eru þannig kallaðir til leigubílstjórar og næturverðir á hótelum til þess að vitna um lausung íslenskra kvenna í kynferðismálum þegar erlendir gestir eiga í hlut, og er þá gjarnan klikkt út með klisjum þess efnis að „ástandið“ sé nú aldeilis ekki liðin tíð.27

 

Verður nú vikið að birtingarmynd „ástandskonunnar“ í skáldverkum karla og þær bornar saman við lýsingar kvenna, áður en saga Ástu Sigurðardóttur, „Súpermann“ verður greind.

 

Karlar hugsa en konur ekki

 

Hugtakið „ástandskonan“ vísar ekki aðeins til þeirra kvenna sem áttu í sambandi við hermenn úr breska og síðar bandaríska setuliðinu á hernámsárunum heldur einnig og ekki síður til þeirra sem lögðu lag sitt við ameríska hermenn eftir að herstöðinni á Miðnesheiði var komið á fót árið 1951. Fyrstu sögurnar sem fjalla um hernámið koma út strax á stríðsárunum. Smásagan „Draumur til kaups“ eftir Halldór Stefánsson frá 1942 mun vera sú fyrsta og Daisy Neijmann bendir á að strax í henni „er […] innanlandsátökunum […] miðlað í gegnum kynin“.28 Ein aðalpersóna sögunnar er Þorbjörg sem rekur veitingastað fyrir hermenn. „Hún er ekki beinlínis „ástandskona“, enda […] „ástandskonan“ ekki orðin til sem bókmenntalegt fyrirbæri [en] þótt hún sé ekki gerð að kynveru og athafnir hennar séu ekki kynferðislegs eðlis, er henni lýst sem lítt greindri manneskju (324) sem haldin er siðferðisveilu (325), nokkuð sem fær hana til að svíkja mann sinn, og i yfirfærðri merkingu land sitt, í sókn sinni eftir peningum“.29 Ári síðar, 1943, kemur út skáldsaga Jóhannesar út Kötlum, Verndarenglarnir, og þar kemur við sögu stúlkan Embla sem „hefur gjarnan verið túlkuð út frá staðalmynd ástandskonunnar“.30 Ýmsir hafa skrifað um þessa kvenlýsingu Verndarenglana og Kristinn Kristjánsson hittir naglann á höfuðið þegar hann bendir á að með nafni persónunnar er gefin vísbending „um það að með sögunni af Emblu sé verið að segja meira en sögu einnar persónu og önnur atriði í sögunni vísa einnig í þá átt: Embla er fulltrúi kvenna, saga hennar er saga íslenskra kvenna“.31 Í kafla um hernámsdaginn 10. maí 1940 er komu hermannanna lýst sem uppfyllingu drauma Emblu – og annarra íslenskra kvenna, þetta er „þeirra óskadagur“:

 

Loksins voru þau komin, hin dularfullu skip ævintýrsins, sem mæður þeirra í þrjátíu ættliði höfðu beðið eftir: sólbrenndir og særoknir stigu þeir á land, hinir langþráðu elskhugar úr fjarskanum, skógarilminn lagði frá hári þeirra, augun lýstu eins og vitar frá ókunnri strönd, tungutak þeirra hljómaði eins og söngur stjarnanna á heiðskírri nótt.32

 

Embla hrífst að hermönnunum og hana svimar „af geðshræringu“ þegar „sonur draumalandsins“ ávarpar hana. Lýsingarnar er með kynferðislegum undirtóni, það fer „ljúfsár titringur“ um Emblu við það eitt að snerta tilkynningu frá breska hernum og það er sama hvernig hermennirnir eru útlits, allir taka þeir íslenskum karlmönnum fram og eru „hin fullkomna ráðning á draumi karlsdótturinnar um kóngssoninn“.33 Í skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, Norðan við stríð, sem kom út nokkrum áratugum seinna (1971), er það sama á ferðinni, íslenskar konur virðast fá kynferðislega örvun við það eitt að líta hermennina augum.34 Indriði lýsir upplifun konunnar Höllu Falkon þegar hún hittir breskan sveitarforinga í fyrsta sinn svona: „Þau svelgja hvort annað í sig með augunum og loftið titrar. […] Hún er eins og barn sem hefur fengið jólasveininn beint inn úr dyrunum“.35 Það er áhugavert að bera þessar lýsingar Indriða G. Þorsteinssonar og Jóhannesar úr Kötlum saman við lýsingar kvenrithöfunda á sama efni. Í skáldsögunni Villibirtu eftir Unni Eiríksdóttur (1969) er hernámsdeginum lýst á eftirfarandi hátt, út frá sjónarhorni Álfhildar, ungrar konu sem er sögumaður bókarinnar:

 

Það er búið að hernema landið, sagði frúin um leið og hún sá mig. Hún gekk fram og aftur um gólfið og ég sá að hún var í ákafri geðshræringu.

Hernema landið? ég skildi hvorki upp né niður.

Já, Englendingarnir settust hér að snemma í morgun. Þeir ætla að vera á undan Þjóðverjunum. Það var stríð í mestum hluta Evrópu, svo mikið vissi ég. Hörmulegar fréttir bárust allstaðar að, en að stríðið næði nokkru sinni hingað, það hafði aldrei hvarflað að mér. Það var flugvélagnýr í loftinu. […]

Eftir hádegið fór ég niður í bæ með vinstúlkum mínum. Á Skólavörðuholtinu voru muskulega klæddir menn með ógrynni af farangri að slá upp stórum, brúnleitum tjöldum. Allir voru þeir með byssu og mig hryllti við þeim. Þeir minntu mig á moldvörpur. Við gengum framhjá höfninni, en þar var þó ekki greiðfært, moldvörpungarnir ákváðu hvar átti ganga og hvar ekki; þeir voru með byssustingina viðbúna ef einhver gerðist of nærgöngull. Ég held að meiri hluti bæjarbúa hafi verið á rölti að forvitnast um allan þennan dag. Þögn, undarleg kæfandi þögn ríkti, hvar sem maður gekk, það eina sem ég heyrði voru fyrirskipanir mæltar á enska tungu.

Mér fannst ég allt í einu vera lítið barn í hosum og stuttum kjól, og engin Álfhildur til. Eins og Álfhildur hefði dáið, og nú ætti ég engan að framar.36

 

Það er sérlega áhugavert að Álfhildur lýsir sjálfri sér sem litlu munaðarlausu barni en samlíking kvenna við börn og óvita sem ekki kunna fótum sínum forráð er algeng í hernámsfrásögnum karlhöfunda.37 Munurinn er sá að í Villibirtu eru allir, karlar jafnt sem konur, eins og börn gagnvart hernáminu: „Í skjótri svipan fannst mér við öll standa þarna, Íslendingarnir, skiljandi ekkert, allur hópurinn með þumalfingurinn í munninum eins og litlu börnin, augu okkar bernsk og spurul“.38 Öryggisleysið sem Álfhildur upplifir er einnig í algjörri andstöðu við þá sælu öryggistilfinningu sem kvenfólkið í Verndarenglunum finnur streyma um sig þegar það les yfirlýsingu frá breska hernum um hertökuna.39 Sú tilfinning er reyndar fólgin í sjálfum titli skáldsögunnar. Það sama er upp á teningnum í Norðan við stríð og Kristinn Kristjánsson orðar vel í hverju greinarmunurinn „á viðbrögðum karla og kvenna við hernáminu“ felst, „hann er sá að karlar hugsa en konur ekki“.40 Álfhildur hugsar þó margt, þótt henni þyki erfitt að ná utan um hugsanir sínar á hernámsdaginn: „Ég yfirgaf vinkonur mínar og gekk lengi ein. Í huga mínum var allt á tjá og tundri, engin heil hugsun. Ísland ögrum skorið, ljóðið streymdi um mig á göngunni.“41 Nokkru síðar lætur Álfhildur til leiðast að fara í partý með hermönnum með vinkonu sinni, þar er þeim gefið vín, þær eru tvær, hermennirnir sex:

 

Við vorum þarna lengi. Og það leit út fyrir að við Elsa ættum að vera vinkonur þeirra allra. [...]

Hermennirnir gerðust ágengir úr hófi fram. Hvað héldu þeir eiginlega að við værum? Gleðikonur kannski?

Það greip mig ofsalegur ótti, og jafnframt sterk blygðunartilfinning. Út. Burt héðan. Það var það eina sem komst að.42

 

Líkt og áður segir þróast mynd ástandskonunnar í íslenskum bókmenntum smám saman og Daisy Neijmann segir hana fullmótaða á 6. áratugnum og að hún hafi verið „þekktust og illræmdust í skáldsögum 6. og 7. áratugarins, þar sem hún birtist sem glötuð skækja sem ekki væri viðbjargandi, ímynd fósturlandsins sem hefur selt sig erlendu hervaldi og jafnvel nýtur þess.“[43] Um áðurnefnda skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar Norðan við stríð skrifar Daisy:

 

Þar birtist „fullmótuð“ ímynd hinnar spilltu íslensku æskukonu, sem hefur orðið föðurlandi sínu til skammar. Ástandskonan er varalituð og drykkfelld hóra, sem er ofurseld nautnalífi og annað hvort nýtur þess að erlendir hermenn taki hana með valdi eða er ófær um að slíta samskiptum við þá. Hana skortir siðferðislega dómgreind, því hún virðist ófær um að skila alvöru og afleiðingar gjörða sinna.44

 

Karlkyns rithöfundar og aðrir sem skrifuðu um ástandið leggja mikla áherslu á þennan siðferðis- og dómgreindarskort kvenna, auk þess sem konur almennt voru taldar haldnar „þekkingarleysi og fávitaskap“.45 Og aðalástæða þessara vankanta er stjórnlaus kynhvöt kvenna:

 

Í Norðan við stríð eru konur fyrst og fremst kynferðisverur. Með þeim öllum býr kynferðisleg þörf sem getur orðið ráðandi ef aðstæður leyfa. Fyrir hernám liggur þessi þörf að mestu í dvala en við hernámið verður hún virk og það eru hermenn sem koma henni af stað. Hjá flestum konum tekur hún völdin en einstaka kona getur hamið hana.46

 

Þótt ótti og blygðunartilfinning sé ráðandi í lýsingu Unnar Eiríksdóttur á viðhorfi Álfhildar gagnvart hermönnunum í Villibirtu má einnig finna sögur eftir kvenrithöfunda þar sem kvenpersónur hrífast af hermönnunum. Lýsingar kvenhöfundanna leggja þó áherslu á aðra þætti en hina kynferðislegu, sem karlhöfundum eru svo hugleiknir. Í smásögu Svönu Dún, „Madam“ er sagt frá konu sem rekur matsölustað sem hermennirnir sækja og hún dáist af því hversu myndarlegir margir þeirra eru:

 

Þessir menn í mógrænum einkennisfötunum höfðu sérlega mikið aðdráttarafl, fallegir menn, með stjörnur í húfum og borða á öxlum og ermum. Raunar voru ekki allir stjörnu og borðalagðir, en þeir óborðalögðu gátu stundum haft margt fram yfir hina voru ef til vill ennþá fríðari, eða höfðu fallegra hár, eða bjartari og hreinni svip.47

 

Það fer svo að konan finnur sér eiginmann meðal hermannanna en lýsingin á sambandi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu og ást. Í smásögu Guðlaugar Benediktsdóttur, „Laus við fjötra“ er sögð annars konar saga. Þar er sagt frá miðaldra ekkju og fimm barna móður, Sigríði frá Gróf, sem fyllist kvíða vegna yngstu dóttur sinnar, Svölu, sem hún óttast að lendi í ástandinu. Óttinn reynist á rökum reistur, Svala kynnist og trúlofast hermanninum Bill. En ekki er allt sem sýnist. Í ljós kemur að Bill er hreint ekki hermaður heldur íslenskur piltur sem hefur farið í dulargervi til að ná athygli stúlkunnar: „Ég vantreysti, að ég myndi fá þig til að taka eftir mér, nema ég væri einn af þeim … sem hermaður gat ég verið ögn áleitnari en ég hefði getað leyft mér í minni eigin persónu.“48 Piltinum er fyrirgefið og sagan endar því vel, samkvæmt siðferðiskröfum tímans. Í skáldsögu Oddnýjar Guðmundsdóttur Veltiár (1946) er sagt frá Þrúðu sem er gáfuð og glæsileg ung kona sem á í ástarsambandi við breskan hermann. Inga Dóra Björnsdóttir bendir á að yfir sambandinu hvíli ekki „neinn ævintýraljómi eða rómantískur blær“ en Bretanum „er lýst sem ákaflega góðlegum manni og á milli hans og Þrúðu ríkir einlæg og gagnkvæm ást.“49 Þrúða verður ófrísk en unnustinn ferst í hafi svo hún stendur eftir ein. Það bugar hana þó ekki á nokkurn máta, hún treystir sér til að standa á eigin fótum sem einstæð móðir og hafnar bónorði íslensks manns, Ívars, sem telur víst að hún taki tilboði hans fagnandi, fegin því að eignast velgjörðarmann og verndara. Ívari er reyndar stillt upp sem andstæðu Þrúðu í flestu tilliti, hann hefur sjálfur hagnast á bretavinnunni en fyrirlítur stúlkur sem eiga í sambandi við Bretana. Ádeila sögunnar beinist því fyrst og fremst að honum, eins og Inga Dóra bendir á:

 

Það sem gerir þessa sögu frábrugna öðrum ádeiluverkum um hernám og hersetu, er að hin móralska rödd sögunnar er rödd þeirrar persónu, sem venjulega er einna harðast deilt á í skáldsögum eftir karla, rödd konunnar, sem er í ástandinu. Það er hún, sem skynjar hræsnina og tvískinnunginn meðal hinna svo kölluðu þjóðernissinna, sem tala manna hæst um þá ógn, sem íslenskri menningu og þjóðerni stafi af nærveru hersins í landinu, tala með lítilsvirðingu um hermenn og fyrirlíta stúlkur, sem eru með hermönnum. Þetta sama fólk lætur þó ekkert tækifæri ónotað til að maka krókinn og hagnast af nærveru hersins.50

 

Þessar lýsingar úr bókum kvenna eru, eins og sjá má, mjög frábrugðnar lýsingum karla þar sem aðaláherslan er lögð á kynferðislegt stjórnleysi kvenna gagnvart hermönnum. Í sögum kvennanna er áherslan aftur á móti annars vegar á ótta og blygðunarkennd en hins vegar á gagnkvæma virðingu og ást.

 

Sannur Súpermann?

 

Hér í upphafi gat ég þess að það gæti verið áhugavert að sjá hvort konur sem skrifa um ástandið hafi ólíka sýn á viðfangsefnið en karlhöfundar. Af dæmunum sem vísað hefur verið í hér að ofan er ljóst að svo er. En hvað með „Súpermann“? Efni sögunnar tengist minni sem finna má í fjölmörgum sögum eftir íslenska karlhöfunda, þetta er frásögn af ungum manni sem missir kærustuna í kanann.51 Í sögum karlanna er samúðin ætíð með karlmanninum og stúlkan sýnd í miður góðu ljósi en hér verður á eftir verður skoðað hvernig þessu er farið í sögu Ástu.

Frásögnin hefst á hátt sem kann að minna á aðrar smásögur Ástu, nema hér er það ekki kvenmaður heldur karlmaður sem kastljósið beinist að: „Hann hafði ráfað þetta um göturnar fram og aftur í þessu veðri og daginn líka og alltaf jafnfjarri takmarkinu. Hann gat ekki farið heim“ (47). Það sem veldur sálarstríði unga mannsins er þrá hans eftir ungri stúlku og strax eru tekin af öll tvímæli um að þetta er fyrst og fremst kynferðisleg þrá: „Hvern hefði getað órað fyrir því að nokkrum gæja á borð við hann gæti nokkurn tíma orðið svona innanbrjósts, – og það út af stelpu? Bara venjulegri gagnfræðaskólastelpu, þó hún væri kannski sæt og sexí? Jeremías, nei“ (47). Í eigin augum er hann miklu merkilegri en hún eins og sjá má af orðalaginu; venjuleg gagnfræðaskólastelpa ætti líklega að þakka fyrir að eiga séns í „gæja á borð við hann“. Líkamlegar tilfinningar stráksins eru ítrekaðar: „Hann hafði aldrei hugsað eins um neina stelpu þegar hann var að hátta á kvöldin. Meira að segja þó að hann væri að koma af amerískri mynd, þar sem þær voru allar berar og iðuðu svoleiðis í mjöðmunum að mann kitlaði undan bara fötunum, þá fór hann alltaf að hugsa um hana og gat ekki sofnað […]“ (47). Hugsanir stráksins um iðandi mjaðmir þegar hann er er háttaður á kvöldin gefa ótvírætt í skyn að það er kynlíf sem hann er með á heilanum. Hann hefur farið á bíó, „í Tívolí og stundum á böll“ með stúlkunni – og hún hafði lofað honum að kyssa sig við útidyrnar þegar hann var búinn að fylgja henni heim og hún þrýsti sér stundum svoleiðis upp að honum og það fór straumur um hann allan eins og á amerískri mynd“ (47).

Það er aðeins liðin ein vika síðan stúlkan kynntist hermanninum og piltinum „hafði strax brugðið illa við þegar hann sá þennan djöfuls amríska pælott með henni á rúntinum“ (47). Í kjölfarið missir hún allan áhuga á íslenska piltinum og við fáum að vita að hann hefur fylgst grannt með henni: „nú var hún hætt að koma heim á kvöldin. Hann hafði ekki séð hana í fleiri daga“ (48). Þegar við hittum hann fyrir er „hann búinn að leita að þeim heila nótt og heilan dag og var að ganga í gegn um allar þessar hörmungar hennar vegna“ (48). Og hann hefur tekið ákvörðun: „Hann ætlar að berja þennan djöfuls kana, – sýna henni að hann væri engin rola, hann væri svalur gutti – eiginlega Súpermann, og sjá hvort henni fyndist ekki til um handatiltektirnar, þegar hann gæfi honum spítalavinkið þessum kanaræfli – – nei, hann gat ekki farið heim fyrr en hann væri búinn að ljúka þessu af“ (48). Strax eftir að pilturinn hefur lýst þessum yfirburðum sínum er athygli lesanda beint að þeirri staðreynd að hann er í útvöðnum og vatnssósa skóm og krapaelgurinn hefur slettst „upp undir buxnaskálmarnar á bera fótleggina, þegar hann öslaði pollana“ (48). Þannig er dregin upp skýr andstæða á milli stórmennskuhugmynda piltsins um sjálfan sig og þess ástands sem hann er í raun og veru í. Hann er sauðdrukkinn og hefur verið rændur af tveimur rónum á Arnarhóli þegar frásögnin hefst. Við sjáum hann grenja og kalla á mömmu sína, skíta sig út og æla, og er hvergi dregið úr í gróteskum lýsingum: „Hann sat lengi tvöfaldur á bekknum og kúgaðist niður á milli hnjánna á sér og horfði á blágrænt slímið lita gráhvítan krapaskaflinn. Ælan minnti hann á ógeðslega hvelju sem liggur í velktri brimfroðu á sjávarströnd“ (53). Samanburður á hugmyndum piltsins um sjálfan sig sem hetju á borð við Súpermann og því bága ástandi sem hann er í raun og veru í er sem leiðarstef í gegnum frásögnina alla og myndar eina af aðalandstæðum sögunnar.

Það er að sjálfsögðu merkingarbært að pilturinn tekur sér ameríska hetju til fyrirmyndar og í ljós kemur að hann sækir mjög í ameríska menningu og vörur. Hann horfir á amerískar bíómyndir, hafði keypt sér litskrúðugt stælbindi „beint frá Amríku fyrir 130 kall“ (54) og blá amerísk stælföt sem „voru svo lík á litinn og úníformið á amrísku flugmönnunum“ (55):

 

Búðarmaðurinn hafði séð hve hrifinn hann var, dregið þau út úr fatahenginu, haldið herðatrénu hátt, strokið gælulega yfir þau og sveiflað síðan vinstri hendinni eins og ræðumaður þegar hann sagði:

– Nýjasta nýtt frá Amríku – smart snið, súper fix, – elegant litur, er blú, –

elegant, – ekki satt?

Og hann sagðist leyfa sér að sannfæra hann um að þau væru úr pjúr gabardín – perfekt gabardín.

Svo voru kaupin gerð. (5)

 

Það er því ljóst að hann liggur sjálfur „hundflatur í amríkudýrkuninni“ (58), ekki síður en stelpurnar sem hann fordæmir af hörku. Þá virðist hann einnig sjálfur hrífast að „blú pælot“, ekki síður en stúlkan, því það sem heillar hann mesti við stælfötin er að þau líkjast búningi amerísku flugmannanna.

Lýsingarnar á huglægri umbreytingu piltsins á sjálfum sér yfir í Súpermann eru kostulegar:

 

 

Já, hann var sannur Súpermann, það fann hann svo greinilega, fann hvernig höfuðið hraðminnkaði og herðarnar þrútnuðu, – upphandleggsvöðvarnir urðu á stærð við fótbolta og höfuðið sat niður á milli axlanna, lítið og hörkulegt með þverhnípta kjálka og lágt enni. Augun urðu tvær örmjóar rifur sem duldu örugglega leyndardómsfullar fyrirætlanir hins agnarlitla rafmagnsheila Súpermannsins.

  Hann geiflaði munninn og fann hið kuldalega glott hetjunnar breiðast yfir andlitið á sér, – þetta veraldarvana háðsglott hins kaldrifjaða ævintýramanns, sem þekkti kvenfólkið og sjálfan sig. Hann fann meira að segja vöðvana spretta út hingað og þangað um bakið og brjóstið, rétt eins og kartöflur, kúlulaga og keilulaga, litla og stóra, þykka og þunna, langa og stutta, sívala og ferkantaða alveg eins og á ósviknum Súpermanni. (51)

 

Andstæðan heili – vöðvar er sérlega áhugverð þegar haft er í huga hversu uppteknir íslenskir karlrithöfundar eru af gagnslausum heila kvenna þegar þeir skrifa um ástandið; að konur hugsi ekki og rambi á brún fávitaháttar, eins og rakið var hér að ofan. Og reyndar má segja að andstæðan heili – kynfæri rísi sífellt upp í textum karlanna, að þeirra mati stjórnast konurnar af eðlishvöt; kynhvötinni sem er hugsuninni yfirsterkari. Andstæðan heili – vöðvar kemur oft fyrir í „Súpermann“ og er þar á ferðinni annað leiðarstef frásagnarinnar. Þegar sögumaðurinn stendur frammi fyrir hermönnum og íslenskum stúlkum síðar um kvöldið er því til að mynda lýst á eftirfarandi hátt: „Honum fannst axlavöðvarnir hjaðna niður eins og froða og svo fór höfuðið að þenjast út og varð tómt og stjórnlaust eins og útblásin gúmmíblaðra sem einhver hefur misst. Rafmagnsheilinn klikkaði og röntgenaugun sáu tvöfalt“ (52). Þrátt fyrir kokhreystina á pilturinn erfitt með „að halda sér í Súpermannstuðinu, hann varð svo slappur í hnjáliðunum og hendurnar titruðu og skulfu …“ (52) en heift hans í garð stúlknanna er mikil:

 

Stúlkurnar og kanarnir hurfu inn í húsin og skelltu í lás á eftir sér og ljósin slokknuðu í gluggunum nema einhverjar rauðar ómyndartýrur sem glórðu eins og parkljós á bíl sem bíður í myrkri … Honum varð flökurt af að horfa á það – nú voru þær að hátta hjá helvítis könunum, þessar bölvuðu skækjur, reyta af sér spjarirnar með lúkurnar titrandi af áfergju, um að gera að flýta sér að komast sem fyrst upp í rúmið til þeirra – – hann gat ekki hugsað þessa hugsun til enda – það var eins og væri verið að svíða hann að innan með glóandi járnum og honum fannst hann vera að pissa í buxurnar. – – (52)

 

Pilturinn heldur áfram að drekka og man lítið eftir nóttinni: „Hann mundi að hann hafði drukkið kogarann eins og hann gat og hann hafði dottið í poll og farið að gráta og biðja. Hann hafði engst flatur í pollinum, velt sér um hrygg og hrópað á hjálp frá himnum. En það lak bara framan í hann ofan úr himninum og inn undir skyrtuna og niður með buxnastrengnum eins og guð og jeremías væru að skvetta á hann út um gat … svo hafði hann dáið þarna í pollinum …“ (52-53). Um morguninn horfist hann í augu við „ræfilslegan gæja í speglinum á veggnum“  í sjoppu en ber ekki kennsl á sjálfan sig:

 

Hann var með gelgjulegt totuandlit og ekki sprottin grön, bara hýjungur innan um bólurnar á efri vörinni og kjálkabörðunum. Þessi lúðulakalegi gutti horfði á hann á móti, sljóum, sinnulausum pödduaugum og tinaði, eins og hálsinn væri úr gormi eins og hálsarnir á sprellikörlunum sem hanga í snúru niður úr spegli innan á bílrúðu.

Hann sá sem snöggvast allt í titrandi móðu – óhreint rennblautt hárið sem hékk niður í augu eins og moldugur arfi, – önnur kinnin var storkið blóðrisa hrúgald með nokkrum hvítum rákum niður frá bólgnu auganu eins og þar hefði eitthvað runnið niður. Grænleitir slefutaumar lágu frá munnvikunum niður á háls og skærblár gabardínjakkinn hefði ekki getað verið óþrifalegri þó að gatan hefði verið þurrkuð með honum. Önnur ermin var næstum af. (53-54)

 

Hann er að hugsa um að slá guttann, sem „horfir alltaf á hann næstum frekjulega“, kaldan þegar hann rekur í augun í „stælbindið“ og þekkir sjálfan sig. Sjálfsmyndin sem blasir við honum er allt annað en Súpermannsleg:

Guð! var hann þá svona lítill og ljótur og bólóttur og rifinn og óhreinn! Með þetta andstyggilega uppbretta kartöflunef eins og á krakka – þessi rauðmatandi vaglaugu!

Jeremías enn og aftur! Þessar rýru drengsaxlir sem stoppið slapti út úr niður á þvengmjóa handleggina,  – þetta flata, innfallna kerlingarbrjóst, – var þetta virkilega allt sem eftir var af Súpermanninum frá í gærkvöldi? Nei, það náði ekki nokkurri átt, – þetta var ekki hann sjálfur, – þetta var smágæjapjakkur sem hafði lent illa í því – – (54)

 

Þegar á hólminn er komið reynist pilturinn enginn Súpermann; þegar hann loksins kemur auga á parið sem hann hefur leitað að í sólarhring verður honum „flökurt af viðbjóði“ og forðar sér inn í næsta port. Það dregur úr honum allan mátt og hinn „veikbyggði vísir til Súpermanns sem hann hafði ræktað og hlúð að með svo mikilli natni visnaði niður og dó“ (59). Hann þorir ekki að mæta kananum en lætur þess í stað bræði sína bitna á kattargreyi sem hann rekst á. Og hann verður að viðurkenna ósigur sinn:

 

  Þetta var honum ofurefli – það var gersamlega vonlaust að ætla að breyta nokkru héðan af – – hann gæti aldrei oftar labbað með henni á rúntinum eða fylgt henni heim af bíó og kysst hana – – nei, – aldrei“

  Ef hann hefði fengið lánað tyggjó og haft skambyssu gat kannski verið öðru máli að gegna – – nei, hugsaði hann og horfði á endalausa kanastrauminn, sem allir höfðu stúlku upp á arminn, sumir tvær eða þrjár – – þetta var hverjum manni ofvaxið – þó að einn dræpist kæmu tveir eða þrír í hans stað. Stúlkan var honum glötuð, – komin í kanann, – og þangað fóru þær allar í amríska stælinn og dollarabisnessinn – nei, þetta var ofurefli – meira að segja Súpermann mundi varla ráða neitt við neitt þó að hann hefði rafmagnsheilann, röntgenaugun og sína skammbyssuna í hvorri hendi. –

  Þetta var vonlaust verk. (59)

 

Lokaorð: ádeila og íronía

 

Í grein sem Einar Bragi skrifaði um bækur í tímaritið Birting 1961 fjallar hann meðal annars um um smásagnasafnið Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns og endar hann umsögn sína á þennan veg:

 

Í fari Ástu Sigurðardóttur blandast skemmtilega sannur kvenleiki (svo sannur, að sumar af sögum hennar gæti karlmaður ekki hafa skrifað) og ósvikin víkingslund, framúrskarandi drengileg: hún er órög að vega menn, en aldrei skal hún vega öðruvísi en beint framan að þeim — og ástæðan til að hún klýfur þá í herðar niður er næstum alltaf sú, að þeir hafa níðzt á lítilmagnanum.52

 

Sama ár skrifar Ólafur Jónsson, gagnrýnandi, umsögn um bókina og telur hann „Súpermann“ vera þá af sögum Ástu sem komist einna næst því að vera bein ádeilusaga. Hann lýsir sögunni á eftirfarandi hátt:

 

Söguefnið er kanastand og gæjalíf á Reykjavíkurgötum, ameríkansering, spilling og niðurlæging æskufólks í sinni verstu mynd; og sagan er skrifuð af biturri fyrirlitningu þótt á hinn bóginn virðist ástæðulaust að efa raunsæi lýsingarinnar. En sagan fer öll úr böndum í listrænum skilningi vegna þess að höfundur megnar ekki að lýsa trúverðuglega söguhetju sinni, hinum aumkunarverða smágæja. Raun hans verður lesanda ekki veruleiki með því að höfundurinn sér hann ævinlega að utan og ofan; pilturinn er ekki annað en leikbrúða í dæmisögu sem að vísu er raunaleg með tilliti til þess veruleika sem sagan er ofin um, en skortir í sögunni allt tragískt gildi, og raunar allt bókmenntalegt snið.53

 

Það má teljast furðulegt að eins glöggskyggn gagnrýnandi og Ólafur Jónsson fari þarna beinlínis með rangfærslur þegar hann segir að höfundurinn sjái sögupersónuna „ævinlega að utan og ofan“, reyndin er sú að stór hluti textans er lýsing á innra lífi unga mannsins og tilfinningum hans. Einnig er ljóst að Ólafur telur að markmið höfundar sé að vekja upp samúð með piltinum og hana skorti „allt tragískt gildi“ til að svo sé. Þá virðist sú tvöfeldni sem einkennir frásagnarháttinn – og er eitt aðaleinkenni íroníu – fara framhjá gagnrýnandanum sem telur söguna vanta „allt bókmenntalegt snið“. Álykta má að Ólafur líti á söguna sem ádeilu á „kanastand og gæjalíf“, á „ameríkanseríng[u], spilling[u] og niðurlæging[u] æskufólks í sinni verstu mynd“ og segir söguna skrifaða „af biturri fyrirlitningu“. Fyrirlitningu á hverju? Bæði kanastandinu og gæjalífinu? Ég tel ekki að það sé rétt mat. Ásta Sigurðardóttir varð sjálf óþyrmilega fyrir barðinu á fyrirlitningu samborgaranna, margar sagna hennar fjalla beinlínis um slíka fyrirlitningu og ætti að nægja að benda á „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ og „Drauminn“ í því sambandi. Það er því ekki langsótt að álykta að samúð hennar hafi fyrst og fremst beinst að kynsystrum sínum sem urðu svo rækilega fyrir fordómum og ofbeldi á hernámsárunum, eins og rakið hefur verið hér að ofan, en ekki að unga manninum sem er aðalpersóna „Súpermanns“. Með orðum Ingu Dóru Björnsdóttur, sem vitnað var í hér að framan, má segja að líkt og aðrar konur skynji Ásta „hræsnina og tvískinnunginn meðal hinna svo kölluðu þjóðernissinna, sem tala manna hæst um þá ógn, sem íslenskri menningu og þjóðerni stafi af nærveru hersins í landinu, tala með lítilsvirðingu um hermenn og fyrirlíta stúlkur, sem eru með hermönnum“. Það er því nærtækt að álykta að í „Súpermann“ sé hún framar öðru að beina háði sínu að þeim karlmönnum sem fordæma konur fyrir að eiga í samböndum við hermenn og fyrir að vera „hundflatar í amríkudýrkuninni, svo opinskáar í greddunni, svo áfjáðar í dollarana“ (58), eins og ungi maðurinn orðar það í sögunni og bætir við: „amrískan bunaði út úr þeim eins og forarefja í hláku. Jeremías, hvað honum bauð við þeim – að hann skyldi aldrei hafa tekið eftir þessu fyrr, aldrei skilið þetta fyrr en nú“ (58). Þegar líður á frásögnina kemur nefnilega í ljós að hann er sjálfur og ekki síður hundflatur í „amríkudýrkuninni“ þótt hún beinist að öðrum þáttum en hjá konunum og drifkraftur fordæmingar hans á kvenfólkinu er afbrýðisemi.

Einfaldasta skilgreiningin á íroníu er að um „misræmi á ytri og eiginlegri merkingu“ sé að ræða, „á því sem er sagt og raunverulega meint“.54 Það virðist sem þetta misræmi – á milli þess sem pilturinn hugsar og hvernig hann er í raun – hafi farið fram hjá mörgum lesendum sögunnar. Ólafur Jónsson gerir ráð fyrir að sagan eigi að vera „tragísk“ frásögn af raunum unga mannsins. Hins vegar er ljóst að lýsingarnar á honum eru framar öðru mjög ógeðfelldar og aðalstílbragð höfundar í því sambandi er gróteska og háð sem veldur því frásögnin vekur ekki samúð með unga manninum. Með lýsingunni á íslenska piltinum í „Súpermann“ vegur Ásta Sigurðardóttir beint framan að íslenskum karlmönnum, svo vísað sé til orða Einars Braga. Hún sýnir þeim í spéspegli mynd af sjálfum sér og stillir þeirri mynd upp andspænis myndinni af hermönnunum sem stúlkurnar kjósa sér til fylgilags. Ef einhver efast um að ádeila Ástu beinist fyrst og fremst að karlmönnunum og meðferð þeirra á íslenskum konum á hernámsárunum má benda á táknrænt atriði í „Súpermann“ sem lýsir því þegar pilturinn stendur blindfullur með kogaraglasið í höndunum og reynir að festa augun á einhverju og fyrir honum verður blái miðinn á glasinu:

 

Þar voru letruð einhver dularfull orð innan sviga. Honum tókst að hrekja móðuna frá sem snöggvast. Þar stóð: Laugavegs Apótek og einhver óskýr klessa á bak við -vegs. Hann rýndi og rýndi og klessan var þá sjálf fjallkonan, hvorki meira né minna, umleikin geislabaug með stærðar kórónu á höfði, og stóðu út frá henni ljósstafir í allar áttir eins og af sól í upprás um bjartan morgun. En því var þetta haft innan sviga?

Það voru þá ekki svigar þegar að var gætt, heldur tveir höggormar sem hlykkjuðust upp hvor sínu megin. Og í eyðunni fyrir lyfseðil stóð vélritað: Spir. denaturatus. gr. 250. Brúkist Útvortis. (56)

 

Eins og fræðimenn hafa bent á – og fjallað var um hér að framan – koma hugmyndir um konur, náttúru, menningu, þjóðerni og hreinleika, sem saman mynda margslungið tengslanet (eins og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir orðaði það), vel fram í hinni fordæmandi orðræðu íslenskra karlmanna um ástandskonuna. Íslenska fjallkonan er táknið sem sameinar alla þessa þætti og því engin tilviljun að mynd hennar birtist um miðbik „Súpermanns“. Með því sýnir Ásta Sigurðardóttir á ótvíræðan hátt um hvað ástandsorðræðan snerist fyrst og fremst; yfirráð íslenskra karlmanna yfir konum og líkama þeirra sem þeir gera að tákni fyrir íslenskt þjóðerni. Þetta dregur „Súpermann“ vel fram og sagan hefur áreiðanlega verið eins og blaut tuska framan í marga karlkyns lesendur hennar. Hins vegar virðist vera að fyrir mörgum hafi farið líkt og aðalpersónu sögunnar þegar hann leit í spegil og sá þar mynd sína ófegraða; að þeir bæru ekki kennsl á myndina sem blasir við í textanum og hafi ekki skilið að bókmenntalegt snið frásagnarinnar er íronía. Með því að greina tungumál og myndmál frásagnarinnar má sjá að það er hæpið að halda því fram að söguhöfundur beini samúð sinni að aðalpersónunni, Við blasir aumkunarverð persóna sem stendur sem táknmynd fyrir afbrýðisemi íslenskra karlmanna út í erlenda setuliðsmenn sem voru þeim ofurefli í samkeppninni um kvenfólkið og sú mynd er dregin ófögrum og gróteskum dráttum.

Sagt er að gríski heimspekingurinn Sókrates hafi notað íroníu til að afhjúpa sannleika sem gat verið bæði flókinn og falinn.55 Með íroníu gerði hann viðmælendum sínum ljóst að sú þekking sem þeir töldu sig hafa væri ef til vill ekki reist á eins traustum grunni og þeir töldu.56 Í „Súpermann“ tekst Ástu Sigurðardóttur að gera einmitt þetta. Með íroníu að vopni afhjúpar hún flókinn og falinn sannleika sem var grundvöllur hinnar hatrömmu fordæmingar á íslenskum konum sem áttu í samböndum við setuliðsmenn. Hún sýnir okkur að umræðan um laskað siðferði íslenskra kvenna snerist undir yfirborðinu fyrst og fremst um yfirráðrétt karla yfir konum sem liggur til grundvallar feðraveldinu.

 

HEIMILDIR
Alma Ómarsdóttir. „Ástandið“ í fjölmiðlum. Umfjöllun fjölmiðla um íslenskar konur og erlendan her. Óprentuð MA ritgerð í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, 2013: http://hdl.handle.net/1946/15010
Ásta Sigurðardóttir. „Súpermann og blú pælott.“ Líf og list, 1. árg., 2. tbl., 1953 og 2. árg., 1. tbl. 1954.
Ásta Sigurðardóttir. Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Reykjavík: Helgafell, 1961.
Ásta Sigurðardóttir. Sögur og ljóð, Reykjavík: Mál og menning, 1985.
Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni.“ Ríkisafskipti af samböndum unglingsstúlkna og setuliðsmanna.“ Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi, ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl., Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 301-317.
Bára Baldursdóttir, „Kynlegt stríð: íslenskar konur í orðræðu síðari heimstyrjaldar.“ Íslenska söguþingið 30. maí-1. júní 2002. Ráðstefnurit, ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir, bls. 64-74.
Colebrook, Claire, Irony. The New Critical Idiom, London og New York, 2004.
Dagný Kristjánsdóttir. „Árin eftir seinna stríð.“ Íslensk bókmenntasaga IV. Ritstjóri Guðmundur Andri Thorsson. Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 419-661.
Daisy Neijmann, „Óboðinn gestur.“ Fyrstu birtingarmyndir hernámsins í íslenskum skáldskap. Skírnir, vor/2011, bls. 64-88.
Daisy Neijmann, „Hringsól um dulinn kjarna. Minni og gleymska í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar.“ Ritið, 1/2012, bls. 115-139.
Daisy Neijmann, „„Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar.“ Ástandskonur í fyrstu íslensku hernámssögunum.““ Fléttur III: Jafnrétti, menning samfélag, Reykjavík: Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, Háskólaútgáfan, 2014, bls. 196-213.
Eggert Þór Bernharðsson, „Blórabögglar og olnbogabörn. „Ástandskonur“ og aðrar konur í Reykjavík í seinna stríði.“ Sagnir XVII, 1996, bls. 12-23.
Einar Bragi, „Um bækur“, Birtingur 4.-5./1961, bls. 53-55.
Friðrika Benónýs. Minn hlátur er sorg. Ævisaga Ástu Sigurðardóttur. Reykjavík: Iðunn, 1992.
Gerður Steinþórsdóttir, Kvenlýsingar í sex Reykjavíkurskáldsögum eftir seinni heimsstyrjöld. Fræðirit 4, Reykjavík: Rannsóknarstofnun í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Hið íslenska bókmenntafélag, 1979.
Guðlaug Benediktsdóttir, „Laus við fjötra“, Embla, 3. árg. 1949, bls. 60-70.
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „„Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti.“ Skjalasafn Ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar.“ Saga. Tímarit Sögufélagsins, 2/2017, bls. 53-86
Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum: íslenskar konur og erlendur her, Reykjavík: Mál og menning, 2001.
Indriði G. Þorsteinsson, Norðan við stríð, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1971.
Inga Dóra Björnsdóttir, „Íslenskar konur og erlendir hermenn í augum fimm íslenskra skálda“, Íslenskar kvennarannsóknir, 29. ágúst-1. sept. 1985, Háskóli Íslands, Oddi, Reykjavík: Kvennasögusafn, 1985, bls. 206-214.
Inga Dóra Björnsdóttir, „Public View and Private Voices“, The Anthropology of Iceland. Ritstj. E. Paul Durrenberger og Gísli Pálsson, Iowa City: University of Iowa Press, 1989, bls. 98-118.
Inga Dóra Björnsdóttir, „„Þeir áttu sér móður“: kvenkenndir þættir í mótun íslenskrar þjóðerniskenndar“, Fléttur. Rit Rannsóknarstofu í kvennafræðum, 1994, bls. 65-85.
Inga Dóra Björnsdóttir, „Island: Uheldinge kvinder i et heldigt land“, Kvinder, krig og kjærlighet, ritstj. Dag Ellingsen o.fl., Osló: Capelen 1995, bls. 140-196.
Inga Dóra Björnsdóttir, „Nationalism, gender and the body in Icelandic national discourse“, Nora, 5, 1/1997, bls. 3-13.
Jóhannes úr Kötlum, Verndarenglarnir, Reykjavík: Mál og menning, 1943.
Jón Ólafsson og Kristinn Schram, „Merkingarheimur íroníunnar“, Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar, 1/2015, bls. 3-8.
Jónas Jónasson, „Ástandið“ í Reykjavík. Tvær leiðir til úrbóta“, Tíminn, 2. sept. 1941, bls. 350.
Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn.“ Tímarit Máls og menningar 2/1984, bls. 194-212.
Oddný Guðmundsdóttir, Veltiár, Reykjavík: Víkingsútgáfan, 1946.
Ólafur Jónsson, „Íslenzk skáldsagnagerð 1961“, Andvari. Nýr flokkur, sumar 1962, bls. 236-237.
Sigríður Matthíasdóttir, „Kynferði og þjóðerni“, Íslenska söguþingið 28.-31. maí 1997, Ráðstefnurit II, ritstj. Guðmundur J. Guðmundsson o.fl., Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, 1998, bls. 259-263.
Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004.
Svana Dún, Tónar lífsins, Reykjavík: Rún 1955.
Unnur Eiríksdóttir, Villibirta, Reykjavík: Bókaútgáfan Snæfell, 1969.
Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „Af fegurðardísum, ástandskonum og fjallkonum: lesið í táknmyndir hins kvenlega í íslensku menningarumhverfi“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðings, ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl., Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 493-506.
Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin. Stríðið um konurnar 1940-1941.“ Saga. Tímarit Sögufélagsins, 2/2013, bls. 92-142.

 

AFTANMÁLSGREINAR

[1] Ásta Sigurðardóttir, „Súpermann og blú pælott.“ Birtingur, 1. ár, 2/1953, bls. 1-5 og 14-16 og 2. ár, 1/1954, bls. 7-13.
[2] Ásta Sigurðardóttir, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, Reykjavík: Helgafell, 1961; Ásta Sigurðardóttir, Sögur og ljóð, Reykjavík: Mál og menning 1985. Notast verður við síðastnefndu útgáfuna hér á eftir og vísað til hennar með blaðsíðutölum innan sviga í meginmáli.
[3] Friðrika Benónýs, Minn hlátur er sorg. Ævisaga Ástu Sigurðardóttur, Reykjavík: Iðunn, 1992, bls. 10.
[4] Bók Friðriku einkennist mjög af þeirri aðferð höfundar að leggja Ástu orð í munn og spinna upp hugsanir hennar, jafnvel á dánarstundu. Af þeim sökum er hæpið að kalla hana Ævisögu Ástu Sigurðardóttur þótt hún beri þann undirtitil, réttara væri að skilgreina hana sem heimildaskáldsögu.
[5] Friðrika Benónýs, Minn hlátur er sorg, bls. 101.
[6] Uppruna hugtaksins „ástandið“, í þessari merkingu, er að finna í tveimur bréfum sem Vilmundur Jónsson, sem gegndi hlutverki landslæknis á hernámsárunum, skrifaði dómsmálaráðuneytinu sumarið og haustið 1941 „um „ástandið“ í siðferðismálum þjóðarinnar í kjölfar hernámsins“. Sjá Dagný Kristjánsdóttir, „Árin eftir seinna stríð.“ Íslensk bókmenntasaga IV, ritstj. Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2002, bls. 419-661, hér bls. 428.
[7] Dagný Kristjánsdóttir ræðir tvær skáldsögur eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur og eina eftir Oddnýju Guðmundsdóttur í þessu samhengi í kaflanum „Árin eftir seinna stríð“ („Herstöðin Ísland“, bls. 455-476) en önnur verk sem Dagný fjallar um í þessu samhengi eru eftir karlmenn. Aðrir sem hafa fjallað um „ástandið“ í íslenskum bókmenntum eru: Gerður Steinþórsdóttir, Kvenlýsingar í sex Reykjavíkurskáldsögum eftir seinni heimsstyrjöld. Fræðirit 4, Reykjavík: Rannsóknarstofnun í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, Hið íslenska bókmenntafélag, 1979, bls. 101-121; Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn.“ Tímarit Máls og menningar 2/1984, bls. 194-212; Inga Dóra Björnsdóttir, „Íslenskar konur og erlendir hermenn í augum fimm íslenskra skálda“, Íslenskar kvennarannsóknir, 29. ágúst-1. sept. 1985, Háskóli Íslands, Oddi, Reykjavík: Kvennasögusafn, 1985, bls. 206-214; Daisy Neijmann, „„Óboðinn gestur“: fyrstu birtingarmyndir hernámsins í íslenskum skáldskap.“ Skírnir vor/2011, bls. 64-88; Daisy Neijmann, „Hringsól um dulinn kjarna: minni og gleymska í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar“, Ritið 1/2012, bls. 115-139 og Daisy L. Neijmann, „„Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar“: ástandskonur í fyrstu íslensku hernámssögunum““, Fléttur III: Jafnrétti, menning samfélag, Reykjavík: Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, Háskólaútgáfan, 2014, bls. 196-213. Bæta má við að margar konur hafa fjallað um „ástandið“ í lokaritgerðum sínum við Háskóla Íslands og þar koma vitaskuld fram ný viðhorf og sögulegt endurmat.
[8] Inga Dóra Björnsdóttir, „Íslenskar konur og erlendir hermenn í augum fimm íslenskra skálda“. Sögurnar sem Inga Dóra fjallar um eru Sóleyjarsaga I og II eftir Elías Mar (1954, 1959), Seiður og hélog eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson (1977), Veltiár eftir Oddnýju Guðmundsdóttur (1946), „Madam“ eftir Svönu Dún (1955) og „Laus við fjötra“ eftir Guðlaugu Benediktsdóttur (1949).
[9] Dagný Kristjánsdóttir, „Árin eftir seinna stríð“, bls. 428.
[10] Sama heimild, bls. 432-433.
[11] Daisy Neijmann, „Óboðinn gestur“, bls. 64. Ekki var heldur sett spurningarmerki við þá staðreynd að Íslendingar þáðu Marshallhjálp sem ætluð var til að aðstoða Evrópuríki við að rísa úr rústunum eftir stríð“, bls. 65. Sá einnig ítarlega umfjöllun Dagnýjar Kristjánsdóttur í „Árin eftir seinna stríð.“
[12] Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „Af fegurðardísum, ástandskonum og fjallkonum: lesið í táknmyndir hins kvenlega í íslensku menningarumhverfi“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðings, ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl., Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 493-506, hér bls. 493.
[13] Sama heimild, bls. 493. Sjá einnig um þetta flókna net tákna sem varða stöðu kvenna í hugmyndum um þjóðerni: Inga Dóra Björnsdóttir, „„Þeir áttu sér móður“: kvenkenndir þættir í mótun íslenskrar þjóðerniskenndar“, Fléttur. Rit Rannsóknarstofu í kvennafræðum, 1994, bls. 65-85;  Inga Dóra Björnsdóttir, „Nationalism, gender and the body in Icelandic national discourse“, Nora, 5, 1/1997, bls. 3-13; Sigríður Matthíasdóttir, „Kynferði og þjóðerni“, Íslenska söguþingið 28.-31. maí 1997, Ráðstefnurit II, ritstj. Guðmundur J. Guðmundsson o.fl., Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, 1998, bls. 259-263; Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur: þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi 1900-1930, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004 og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „Hún var með eldrauðar neglur og varir, en að öðru leyti ekkert athugaverð í útliti.“ Skjalasafn Ungmennaeftirlitsins og ímynd ástandsstúlkunnar“, Saga. Tímarit Sögufélagsins LV, 2/2017, bls. 53-86..
[14] Sjá einnig Bára Baldursdóttir, „Kynlegt stríð: íslenskar konur í orðræðu síðari heimstyrjaldar“, 2. íslenska söguþingið, 30. maí-1. júní 2002, Ráðstefnurit 1, ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir, Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag, 2002, bls. 64-74, hér 68-70.
[15] Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin: stríðið um konurnar 1940-1941“, Saga. Tímarit sögufélags LI: 2/2013, bls. 92-142“, hér bls. 138.
[16] Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „Hún var með eldrauðar neglur og varir“, bls. 68.
[17] Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin“ og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „Hún var með eldrauðar neglur og varir“. Sjá einnig um þetta efni, auk þess sem þegar hefur verið nefnt: Inga Dóra Björnsdóttir, „Public View and Private Voices“, The Anthropology of Iceland, ritstj. E. Paul Durrenberger og Gísli Pálsson, Iowa: University of Iowa Press, 1989, bls. 98-188; Inga Dóra Björnsdóttir, „Island: Uheldige kvinder i et heldigt land“, Kvinder, krig og kærlighet, ritstj. Dag Ellingsen o.fl., Osló: Cappelen, 1995, bls. 149-171; Eggert Þór Bernharðsson, „Blórabögglar og olnbogabörn: „ástandskonur“ og aðrar konur í Reykjavík í seinn stríði“, Sagnir 17/1996, bls. 12-23; Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum: íslenskar konur og erlendur her, Reykjavík: Mál og menning, 2001; Bára Baldursdóttir, „„Þær myndu fegnar skifta um þjóðerni“: ríkisafskipti af samböndum unglingsstúlkna og setuliðsmanna“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi, ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl., Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 301-317; Alma Ómarsdóttir, „Ástandið“ í fjölmiðlum: umfjöllun fjölmiðla um íslenskar konur og erlendan her, óprentuð MA ritgerð í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, 2013: http://hdl.handle.net/1946/15010.
[18] Alma Ómarsdóttir, „Ástandið“ í fjölmiðlum, 2013, bls. 51.
[19] Jónas Jónasson, „Ástandið“ í Reykjavík. Tvær leiðir til úrbóta“, Tíminn, 2. sept. 1941, bls. 350. Jónas vísar í svokallaða „ástandsskýrslu“, máli sínu til stuðnings, sem birt var í ágúst1941, sjá „Athugun á siðferðislegum vandamálum Reykjavíkur“ og „Skuggalegar myndir af siðferði reykvískra kvenna“, Morgunblaðið 28. ágúst 1941, bls. 3, 5 og 6.
[20] Jónas Jónasson, „Ástandið í Reykjavík“, bls. 350.
[21] Sama heimild, bls. 351.
[22] Sjá nmgr. 4. Ítarlega umfjöllun um efni bréfa Vilmundar má sjá m.a. í: Eggert Þór Bernharðsson, „Blórabögglar og olnbogabörn“ og Dagný Kristjánsdóttir, „Árin eftir seinna stríð“.
[23] Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin“, bls. 92.
[24] Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, „Hún var með eldrauðar neglur og varir“, bls. 53.
[25] Sama heimild, bls. 58.
[26] Daisy L. Neijmann, „Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar“, bls. 196.
[27] Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „Af fegurðardísum, ástandskonum og fjallkonum“, bls. 499-500.
[28] Daisy Neijmann, „Óboðinn gestur“, bls. 68.
[29] Sama heimild, bls. 68.
[30] Sama heimild, bls. 202.
[31] Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn“, bls. 198.
[32] Jóhannes úr Kötlum, Verndarenglarnir, Reykjavík: Heimskringla, 1943, bls. 47.
[33] Sama heimild, bls. 50.
[34] Sjá nánar umfjöllun Kristins Kristjánssonar, „Konan, draumurinn og dátinn“ og Daisy L. Neijmann, „Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar“.
[35] Indriði G. Þorsteinsson, Norðan við stríð, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1971, bls. 65-66.
[36] Unnur Eiríksdóttir, Villibirta, Reykjavík: Snæfell, 1969, bls. 34-35.
[37] Sjá t.d. Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn“, bls. 200-201.
[38] Unnur Eiríksdóttir, Villibirta, bls. 35.
[39] Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn“, bls. 199.
[40] Sama heimild, bls. 199.
[41] Unnur Eiríksdóttir, Villibirta, bls. 35.
[42] Sama heimild, bls. 38-39.
[43] Daisy L. Neijmann, „Sem allur þungi heimsstyrjaldar lægi í skauti hennar“, bls. 197.
[44] Sama heimild, bls. 196.
[45] Sjá tilvitnun Hafdísar Erlu Hafsteinsdóttur í grein í Morgunblaðinu 17. júlí 1942, „Hún var með eldrauðar neglur og varir“, bls. 61.
[46] Kristinn Kristjánsson, „Konan, draumurinn og dátinn“, bls. 195.
[47] Svana Dún, „Madam“, Tónar lífsins, Reykjavík: Rún 1955, bls. 89-108, hér bls. 101.
[48] Guðlaug Benediktsdóttir, „Laus við fjötra“, Embla, 3. árg. 1949, bls. 60-70, hér bls. 69.
[49] Inga Dóra Björnsdóttir, „Íslenskar konur og erlendir hermenn í augum fimm íslenskra skálda“, bls. 211.
[50] Sama heimild, bls. 212.
[51] Sem dæmi má nefna Bambínó í Vögguvísu (1950) eftir Elías Mar, Ragnar í 79 af stöðinni (1955) eftir Indriða G. Þorsteinsson og Pál í Seiði og hélogum (1977) eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.
[52] Einar Bragi, „Um bækur“, Birtingur 4.-5./1961, bls. 53-55, hér bls. 55.
[53] Ólafur Jónsson, „Íslenzk skáldsagnagerð 1961“, Andvari. Nýr flokkur, sumar 1962, bls. 236-237.
[54] Jón Ólafsson og Kristinn Schram, „Merkingarheimur íroníunnar“, Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar, 1/2015, bls. 3.
[55] Claire Colebrook, Irony, London og New York, Routledge, 2004, bls. 22

[56] Sama heimild, bls. 23.

Tengt efni