SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. febrúar 2024

LJÓÐ EMILY DICKINSON Á ÍSLENSKU

Emily Dickinson. Berhöfða líf, ljóðaúrval. Magnús Sigurðsson þýddi. Reykjavík: Dimma 2020, 335 bls.

 

Bandaríska ljóðskáldið Emily Dickinson (1830-1886) er í hópi höfðuðskálda heimsbókmenntanna og stórtíðindi eru fólgin í útgáfu á úrvali úr safni ljóða hennar í íslenskri þýðingu Magnúsar Sigurðssonar. Í september 2019 varði Magnús doktorsritgerð sína, Fegurðin – Er –. Emily Dickinson í íslenskum bókmenntaheimi, en þar fjallar hann um viðtökusögu skáldsins á Íslandi, um hlutverk þýðinga í bókmenntakerfinu, sem og um starf þýðendanna sjálfra sem fræðimanna og skálda. Doktorsritgerðinni fylgdi viðauki með þýðingum Magnúsar á 220 ljóðum Emily Dickinson, enda er það hans eigin glíma við að þýða ljóð Dickinson sem myndar hryggjarstykki ritgerðarinnar.1 Magnús hafði því úr allnokkru safni eigin þýðinga að velja þegar hann tók saman Berhöfða líf en hann bætir einnig við nýjum þýðingum og ritar einkar fróðlegan 50 blaðsíðna inngang að bókinni.

 

Mikill fengur er að ítarlegum inngangi Magnúsar. Þar fer hann í saumana á því hvernig nafn Emily Dickinson „hefur frá upphafi verið tengt dulúð, kenjum og – kannski öðru fremur – óútskýrðri innilokun í föðurhúsum síðustu tvo áratugi“ ævi hennar (14) og með kynjaumsnúningi gerir hann stólpagrín að smækkunartóninum sem ítrekað hefur verið beitt í kynningu á skáldkonunni þar sem áhersla er lögð á áðurnefnda innilokun, klæðaburð og á þá staðreynd að hún giftist ekki. Gætum við til að mynda séð fyrir okkur að karlkyns skáld væri kynnt á sambærilegan máta: „Marcel Proust var viðkvæmur listamaður sem lifði í vernduðu umhverfi alla sína ævi og giftist aldrei.“? (17) „Tæpast“, svarar Magnús, en slíkar kynningar á Emily Dickinson þóttu boðlegar fram á áttunda áratug síðustu aldar – eða þar til femínistar tóku ljóð hennar og líf til gagngerrar endurskoðunar.2

 

Emily Dickinson er flókið og margradda skáld og inngangur Magnúsar verður nýjum lesendum áreiðanlega góður vegvísir í ljóðaheimi skáldsins þar sem ókunnir gætu átt á hættu að tapa áttum í upphafi ferðar. Magnús segir frá fyrstu kynnum sínum af ljóðum Dickinson og tengir hana öðru uppáhaldsskáldi sínu, Ingibjörgu Haraldsdóttur, á áhugaverðan hátt. Hann dregur skýrt fram fjölbreytileika ljóða Dickinson, dýpt þeirra og margræðni. Hann ræðir til að mynda hvernig ljóð sem við fyrstu sýn virðast einföld geta búið yfir marglaga merkingu þegar dýpra er kafað, svo sem hið knappa ljóð þar sem Dickinson snýr kristna signingarversinu yfir á svið sem margir kynnu að láta nægja að tengja við náttúrurómantík:

 

Í nafni Býflugunnar –
og Fiðrildisins –
og Andvarans – Amen!

 

Magnús sýnir hins vegar með sannfærandi rökstuðningi fram á að sakleysislegt ljóðið má allt eins tengja dirfsku, ögrun, uppreisn, villutrú og (bókmenntalegu) föðurmorði. Þá ver hann allnokkru rými í að fjalla um form (eða formleysi) ljóða Dickinson, hina bláðþráðóttu málfræði ljóðanna og eyður þeirra (gjarnan einkenndar með þankastriki) og tengir við móderníska fagurfræði.

 

Í þessu síðastnefnda atriði liggur megináhersla Magnúsar sem þýðanda og túlkanda á ljóðum Emily Dickinson. Sú skoðun að í ljóðum Dickinson megi sjá for-módernísk einkenni liggur til grundvallar þýðingum Magnúsar, eins og hann gerir sjálfur grein fyrir:

 

Í þýðingum mínum hef ég reynt að draga […] for(m)-módernísk eiginleika fram, bæði með því að halda formi Dickinson og sleppa. En þegar því er sleppt er aðferðin engu að síður formlegur afkomandi hennar sjálfrar: tjáningarháttur hins undanskilda, hins margræða, hins formfrjálsa, hins brotakennda, hins hlaðna, hins skorinorða, hins margradda, hins tempraða, hins tilvísanaglaða, hins leikglaða. Ef til vill koma þessir þættir ekki saman í heild fyrr en með tjáningarformi hins móderníska ljóðs, þeirrar skáldskapar hefðar sem Emily Dickinson er um margt eins konar „for(m)-móðir“ að. (29)

 

Magnús vísar í erlend skáld og fræðimenn sem eru á sömu skoðun og hann um módernísk einkenni á ljóðum Emily Dickinson (sjá bls. 26-29), enda er ekki erfitt að greina slík einkenni á ljóðunum. Undirrituð er þó á þeirri skoðun að hér sé að hluta til leitað langt yfir skammt því mörg þeirra einkenna sem notuð eru sem „sönnunargögn“ í málinu, svo sem sérviskulegt rím og hrynjandi, óvenjuleg notkun hástafa og þankastriksins, einkenna einnig ljóð þeirrar skáldkonu sem Emily Dickinson dáði framar öðrum og var henni mikilvæg fyrirmynd, Elizabeth Barrett Browning (1806-1861). Líkt og Dickinson þurfti Barrett Browning að þola að ljóð hennar væru afbökuð með margvíslegum hætti af ritstjórum, að þau væru „lagfærð“ til að þau féllu betur að því kunnuglega og hefðbundna. Barrett Browning lagði áherslu á að bak við frjálslega aðferð hennar lægi íhugun en ekki klaufaskapur og þegar því var haldið fram að hálfrím hennar bæri vitni um hirðuleysi var henni misboðið. Hér væri ekki um kunnáttuleysi að ræða, heldur meðvitað skáldaleyfi sem hún tæki sér.3 Magnús fjallar um álíka afbökun og „bragarbætur“ ritstjóra á ljóðum Dickinson á bls. 25 en segir síðan: „Á síðari hluta aldarinnar var „kunnáttuleysi“ Dickinson tekið til gagngerrar endurskoðunar. Óvanalegt formskyn hennar geymdi þvert á móti vísinn að þeirri umbyltingu ljóðmálsins sem módernísk skáld áttu eftir að boða“ (26). Ef Emily Dickinson er for(m)-móðir módernisma í ljóðagerð er Elizabeth Barrett Browning það líka.

 

Í áðurnefndri doktorsritgerð Magnúsar kemur skýrt fram að hann telur að góður þýðandi sé hvort tveggja skáld og fræðimaður, að starf þýðandans liggi á mörkum frumsamins skáldskapar og túlkunarstarfs fræðimanns. Þessi skoðun, ásamt áherslu Magnúsar á móderníska þætti í ljóðagerð Emily Dickinson, setur afgerandi mark sitt á þýðingar hans á ljóðum hennar. Sumir kynnu að meta það sem svo að þýðandinn tæki sér meira skáldaleyfi en yfirleitt tíðkast í ljóðaþýðingum, til að mynda þegar Magnús umbreytir formi ljóða Dickinson á róttækan máta í þeim tilgangi – mætti ætla – að færa þau í módernískan búning. Sem dæmi má taka eftirfarandi ljóð (F591), á bls. 166-167, og set ég frumtextann á undan svo sjá megi hversu róttæk þýðing Magnúsar er:

 

I heard a Fly buzz – when I died –
The Stillness in the Room
Was like the Stillness in the Air –
Between the Heaves of Storm –
 
The Eyes around – had wrung them dry –
And Breaths were gathering firm
For that last Onset – when the King
Be witnessed – in the Room –
 
I willed my Keepsakes – Signed away
What portion of me be
Assignable – and then it was
There interposed a Fly –
 
With Blue – uncertain – stumbling Buzz –
Between the light – and me –
And then the Windows failed – and then
I could not see to see –
 

 

                          ***

 
Ég heyrði Flugu suða –
þegar ég dó –
 
Einsog Lognið
milli Hviða
ríkti í Herberginu
Ró –
 
*
 
Augun í kring
útgrátin
og Andinn –
viðbúinn –
 
Lokaáhlaupinu þegar
Kóngurinn
stormar inn –
 
*
 
Ég arfleiddi og framseldi
mína Erfanlegu
Hluta – og þá var það
að skarst í leikinn
áðurnefnd Fluga –
 
*
 
með Bláu – óljósu – riðandi Suði
milli ljóssins og mín –
 
Og Gluggarnir brugðust þá
Og þá hætti ég að sjá
til að sjá –

 

Vera kann að ýmsum kunni að finnast þýðandinn fara hér full frjálslega með frumtextann, að þýðandi „trani“  sér fram „á kostnað frumhöfundarins sem fyrir vikið þokist í bakgrunninn“ (58), svo vísað sér í orðalag Magnúsar. En þetta er í samræmi við þá skoðun hans að „í þýðingu [sé] ávinningur eins ekki annars tap“ (58) og að „[m]eð því að taka virkari þátt í merkingarsköpuninni [geti] þýðandi þvert á móti verið í betri aðstöðu en ella til að sýna höfundi sínum tryggð“ (58-59). Það er ljóst að í dæminu hér að ofan tekst Magnúsi prýðilega að koma merkingu frumtextans til skila um leið og hann skilar mögnuð ljóði á íslensku, þótt hið ytra form hafi tekið róttækum breytingum. Það form virðist mér lagað að formi íslenskra módernista á borð við atómskáldin. Magnús ræðir þessa þýðingaraðferð sína skilmerkilega í inngangi bókarinnar og veltir fyrir sér „hvort útvíkkun á „leyfilegum“ vinnubrögðum þýðandans geti ekki stuðlað að breyttri sýn á störf hans“. Hann bætir við: „Mætti ekki hugsa sér að athyglin færðist smám saman frá þjónustuhluverki ósýnilegs handverksmanns sem ávallt stendur vel til höggsins ef augun opnuðust ögn betur fyrir því að frumhöfundi verður tæpast meint af þótt þýðandi geri ekki allt sem hann getur til að afmá verksummerki sín?“ (61). Slíkt sjónarmið er grundvallað á þeirri skoðun að þýðingarstarfið útheimti sköpunaranda – og fjarri mér að gagnrýna þessa aðferð þegar eins vel tekst til og í Dickinson-þýðingum Magnúsar.

 

Berhöfða lífi er skipt í fimm hluta. Í fyrsta hluta eru ljóð frá tímabilinu 1858-1863, annar hluti samanstendur af Mastersbréfunum þremur sem Emily Dickinson skrifaði á vormánuðum 1858 (I), snemma árs 1861 (II) og sumarið 1861 (III).  Í þriðja hluta eru ljóð ort á árunum 1863-1870,  fjórði hluti geymir orðskviði og hendingar úr bréfum og af lausum blöðum, og í fimmta og síðasta hluta eru ljóð frá tímabilinu 1870-1886. Sé bókin lesin vandlega og með íhugun má því glöggva sig á þróun Dickinson sem ljóðskálds, hvað varðar stíl, myndmál og yrkisefni. Val Magnúsar á ljóðum úr hinu 1775 ljóða safni sem Dickinson lét eftir sig gefur ágæta mynd af því breiða rófi tilfinninga sem skáldskapur hennar spannar.

 

Ofan nefnd Mastersbréf hafa alla tíð verið fræðimönnum og öðrum aðdáendum skáldsins mikil ráðgáta. Bréfin voru aldrei send og ekki ljóst hver viðtakandinn átti að vera – ef nokkur. Margar tilgátur hafi komið fram um hverjum bréfin voru ætluð en margir hallast helst að því að þau hafi ekki verið skrifuð til jarðnesks viðtakanda þó innihald þeirra lýsi heitum tilfinningum og ljóðmálið hafi að geyma erótíska undirtóna. Ævisagnaritari Emily Dickinson, Lyndall Gordon, telur til að mynda bréfin vera nokkurs konar gjörning skáldkonunnar, sviðsetningu á tilfinningalegu sambandi bréfritara og meistara, sem gæti í þessu tilviki einfaldlega verið sjálfur skáldskaparandinn – eða karlkyns „músa“ kvenskáldsins.4 Enn aðrir hafa stungið upp á Guði – eða Djöflinum. En að sjálfsögðu skiptir ekki höfuðmáli hver viðtakandi ljóðabréfanna er, heldur er það tilfinningaþrunginn textinn sem heillar, þótt enn sé hann óráðin gáta að miklu leyti. Hvað þýðingu Magnúsar varðar furða ég mig á því hvers vegna hann þýðir ekki orðið master sem kemur margoft fyrir í texta bréfanna, líkt og í yfirskrift þeirra (þó hún sé ekki frá skáldinu komin). Hvers vegna finnst þýðandanum íslenska orðið meistari ekki nothæft?

 

Hér er ekki vettvangur til að rýna djúpt í þýðingar einstakra ljóða. Óhætt er hins vegar að fullyrða að sköpunarandi og leikur séu lykilorðin sem Magnús hefur að leiðarljósi og eru vopn hans í þýðingarvinnunni. Og með þeim vopnum hefur Magnúsi tekist að skila ljóðlist Emily Dickinson til íslenskra lesenda á áhrifaríkan og fullnægjandi hátt. Það er til að mynda ljóst að ljóðskáldið Emily Dickinson sem birtist í Berhöfða lífi er allt annað og betra ljóðskáld en það sem birtist í þýðingum Hallbergs Hallmundssonar sem gefnar voru út árið 1994 í bókinni Emily Dickinson – 100 kvæði. Ég ítreka því í lokin það sem fullyrt var hér í upphafi; í útgáfu á þýðingum Magnúsar Sigurðssonar á ljóðum Emily Dickinson felast stórtíðindi fyrir íslenskar bókmenntir, honum hefur tekist að koma list þessa bandaríska stórskálds á framfæri á íslensku þannig að mikill sómi er að. Vert er að geta þess að Berhöfða líf er sjötta bókin sem komið hefur út með ljóðaþýðingum Magnúsar, auk þess sem hann hefur sent frá sér frumsamdar ljóðabækur og önnur skáldverk. Hann er fæddur árið 1984 og á því væntanlega – og vonandi – enn eftir að áorka miklu á sviði íslenskra bókmennta og þýðinga.

 

[1] Doktorsritgerð Magnúsar Sigurðssonar má nálgast í rafrænu safni námsritgerða á vefslóðinni www.skemman.is. Höfundur þessa ritdóms var andmælandi við doktorsvörn Magnúsar.
[2] Sjá nánar um þetta í doktorsritgerð Magnúsar og einnig: Soffía Auður Birgisdóttir. 2019. „Skáldið og skáldskaparlistin. Um Emily Dickinson og ljóðið „Mitt líf var kyrrstætt – Hlaðið vopn.““ Són, tímarit um óðfræði, bls. 35-47.
[3] Sjá nánar Margaret Forster. Elizabeth Barrett Browing. A Biography. 1988. London: Chatto & Windus, bls. 84-130.
[4] Sjá Lyndall Gordon. 2010. Lives Like Loaded Guns. Emily Dickinson and her Family‘s Feuds. London: Penguin, bls. 91-97.

 

Soffía Auður Birgisdóttir
Greinin birtist fyrst sem ritdómur í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2020.