SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir24. nóvember 2023

„KALT ER AÐ SEGJA ÚR KONURÍKI“ - Um skáldkonuna Kristrúnu Jónsdóttur

Bréf stíluð á Kristrúnu Jónsdóttur hafa nú verið gefin út á bók en bréfritari var Baldvin Einarsson. Bréf hennar til hans hafa því miður ekki varðveist.

Ég er þinn elskari

Verkið ber titilinn Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832 og bjó Erla Hulda Halldórsdóttir bréfin til prentunar og skrifaði inngang. Bréfasafnið er kynnt svo, í Bókatíðindum:

Árið 1826 sigldi Baldvin Einarsson til náms í Kaupmannahöfn. Hann var þá trúlofaður Kristrúnu Jónsdóttur en sveik hana í tryggðum. Við tók flókið bréfasamband ástar, blekkinga og fyrirgefningar. Í bókinni er ástarharmsaga Kristrúnar og Baldvins rakin og bréfin sem hann skrifaði henni 1825–1832 birt með skýringum og færð til nútímastafsetningar.

 

„Harmkvælamanneskja“

Kristrún Jónsdóttir var systir Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum. Guðný er flestum kunnug, enda fyrsta konan til að fá útgefið eftir sig veraldlegt ljóð. Hún er þó einnig þekkt fyrir að hafa verið „harmkvælamanneskja“, og þær báðar systurnar, eins og haft er eftir Sverri Kristjánssyni í gamalli tímaritsgrein, Færri vita að Kristrún var skáldkona sem orti prýðileg ljóð.

Kristrún var ein af fjórum dætrum séra Jóns Jónssonar á Stærra-Árskógi, síðar á Grenjaðarstað, sem var ekki síður þekktur fyrir lækningar sínar en prestverkin. Hún fæddist árið 1806 en kynntist Baldvin árið 1824 þegar hann kom 23 ára gamall á heimili hennar til að leita sér lækninga. Þau felldu hugi saman og trúlofuðust. Þá var Kristrún 18 ára gömul og sögð fríð stúlka og vel gefin. Þau áttu þó mjög stopula samfundi því Baldvin hafði gert hlé á námi sínu vegna veikindanna en þegar hann tók að hressast fór hann burtu til að halda námi sínu áfram og starfa um hríð sem skrifari fyrir amtmann í öðru bæjarfélagi.

Merki um ástir þeirra hafa varðveist í fjölda bréfa sem Kristrún fékk send frá heitmanni sínum. Það dró þó mjög úr bréfaskriftunum þegar Baldvin var farinn til Kaupmannahafnar til frekara náms enda eignaðist hann þar danska kærustu. Vorið 1828 kom Baldvin til Íslands og þá styrktu hann og Kristrún heit sitt þrátt fyrir að Baldin ætti unnustu í Kaupmannahöfn, sem að auki var ólétt, og hann giftist síðan um haustið sama ár. Það liðu þrjú ár þar til hann sagði Kristrúnu frá því hvernig lá í málum. Hugur hans virtist þó ávallt vera hjá Kristrúnu og lofaði hann henni eilífri ást í himnaríki. Sömuleiðis stóð Baldvin jafnan nærri hjarta Kristrúnar.

 

Ástir í himnaríki og á jörðu

Árið 1832 verður bruni á heimili Baldvins og lést hann af sárum sínum árinu síðar. Hann varð mörgum mikill harmdauði og þar á meðal Kristrúnu sem sögð er hafa ort þessa vísu um hann:

Roði sólar Ránar öldur skreytti
rauðleitur, og hvað er fegra að sjá.
Gauka sína gleðisöngva þreytti,
grimmum dauða mér hann var að spá.
 

Kristrún syrgði Baldvin í sjö ár, þar til hún giftist 34 ára gömul, Hallgrími Jónssyni presti á Hólmum, en sagt er að margt hafi bent til að hún hafi tregað Baldvin alla ævi. Þegar hún og maðurinn hennar áttu í orðaskaki orti hún þessa vísu:

Dimmt er úti, dauft er inni,
drottinn hjálpi mér.
Blítt er uppi, bjart þar inni,
Baldvin minn, hjá þér.
 

Skáldkonan Kristrún

Kristrúnar hefur nær eingöngu verið minnst fyrir að vera svikna unnusta Baldvins Einarssonar. Ýmsar mýtur hafa orðið til um hegðun Kristrúnar í kjölfar svikanna, líkt og að þegar þau komust upp hafi Kristrún orðið gráhærð á einni nóttu, hún hafi grátið sig skakka í andliti af sorg og að mynd af Baldvini hafi ætíð prýtt náttborðið hennar. Kristrún svarar í raun þessum mýtum sjálf með þessari íronísku vísu:

Sjúk varð ég svo gekk lengi
svall um hjartað í barmi
ég gat samt ekki dáið
sem ástarsjúk píka í sögum.

 

Kristrún kann að hafa elskað Baldvin á himni en hún elskaði einnig Hallgrím á jörðu líkt og sjá má í ljóðum hennar. Hér er brot úr kvæði, eitt erindi af þremur um eiginmanninn:

Ég skal vera þér aftur góð
með ástarhjali við þig spauga
um þig kveða lipur ljóð
og lundblíð una í þínu auga.

 

Kristrún sagði karlmönnum einnig til syndanna. Hún fjallar um ofdrykkju karla og það sem vel mætti kalla kynferðislega áreitni. Hún beinir spjótum sínum að húsbændum sem beita valdníðslu og lætur þá fá það óþvegið en slík gagnrýni var afar óvanaleg á þessum tíma og er til marks um mikinn kjark. Hér má sjá vísu sem hún yrkir þegar hún situr gegnt 17 ára gamalli brúði sem er svo glöð og áhyggjulaus:

Kvíddu meyja
kalt er að segja
úr konuríki.
Þá ástir deyja
þarftu þegja
þó þér ekki líki.

 

Skilja má vísuna sem svo að konan þurfi að láta ýmislegt yfir sig ganga; þegar mesti ástarbríminn er frá leitar karlinn annað.  Kristrún segir einnig frá því að eitt sinn hafi hún komið á bæ þar sem bæði húsfreyjan og vinnukonan lágu á sæng og átti húsbóndinn bæði börnin. Þá datt henni þessi vísa í hug, sem átti við margar konur í hennar sveit: 

Undan bóndans holds og heims
hér þær búa valdi
(en) andans ráð og ástin blíða
ekki hafa neitt að þýða.

 

Kristrún lést árið 1881, þá 75 ára gömul. Hér hefur aðeins verið fjallað stuttlega um ævi hennar og kveðskap en mun ítarlegri  umfjöllun er að finna í bók Guðrúnar Ingólfsdóttur: Skáldkona gengur laus - Erindi nítjándu aldar skáldkvenna við heiminn, sem kom út árið 2021, og einnig er vert að benda á bráðskemmtilegt og fróðlegt erindi Guðrúnar, sem stuðst hefur verið við í þessari umfjöllun, og nálgast má hér. Þá geymir fyrrnefndur inngangur Erlu Huldu Halldórsdóttur ítarlega umfjöllun um sögu þeirra Kristrúnar og Baldvins en bókin mun rata í búðir og á bókasöfn á næstu dögum.

 

Tengt efni