SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir15. nóvember 2023

STEINUNN S. BRIEM OG MÓNÓDRAMA

 

Steinunn Sigríður Briem fæddist 13. desember árið 1934 í Reykjavík, dóttir Eggerts P. Briem og Sigríðar Skúladóttur Briem. Steinunn lagði upphaflega stund á tónlistarnám hérlendis og síðan í London og Róm, og var við nám ytra í sjö ár. Hér í Reykjavík fékkst hún við píanókennslu í nokkur ár eftir að hún kom heim.

Hún gerðist blaðamaður árið 1963 og starfaði hjá VísiFálkanum og Alþýðublaðinu. Árin 1966–1968 komu út í tveimur bindum samtöl hennar sem blaðamanns undir titlinum Svipmyndir. Hún fékkst töluvert við þýðingar, einkum á bókum um dulfræðileg efni. Einnig þýddi Steinunn nokkrar barnabækur, og árið 1973 hlaut hún verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkurborgar fyrir þýðingar sínar á bókum eftir finnsku sænskumælandi skáldkonuna Tove Jansson um Múmínálfana.

Steinunn lést að heimili sínu í Kaupmannahöfn árið 1974 aðeins 41 árs að aldri, en hún hafði þá verið búsett í Kaupmannahöfn um tveggja ára skeið en átt við vanheilsu að stríða.

 

Bækurnar sem hún þýddi um Múmínálfana voru Halastjarnan og Pípuhattur galdrakarlsins.

 

Meðal annara þýðinga eftir hana eru bækurnar:

Vængjaðir Faróar, Yogaheimspeki, Fullnuminn og Fullnuminn vestan hafs.

 

 

Steinunn gaf út tvær bækur sem innihéldu samtöl hennar sem blaðamanns. Viðtöl og samtöl við fjölmargar konur bæði þekktar sem óþekktar, oftar en ekki leikhúsfólk. Allt áhugavert efni sem nú mörgum árum seinna er gaman að glugga í.

 

 

Eitt viðtalið er við skáldkonuna Steingerði Guðmundsdóttur leikkonu og skáld. Þar spjalla þær saman um leikhústímabil Steingerðar. Grípum niður í upphaf viðtalsins.:

 

Mónódrama: Heill heimur í einni manneskju, 

Stofan er dauffjólulit og angar af mildu reykelsi. Það er svo rólegt þarna inni, að ósjálfrátt færist værð yfir mann. Samstilltir litir, fögur listaverk á veggjunum, sérkennilegir munir á borðum og hillum. Og umhvefið hæfir Steingerði vel. Hún er fíngerð og viðkvæm eins og stofublóm, listræn, elskar fegurðina. Maður getur ekki ímyndað sér neitt gróft koma nálægt henni. Það er eitthvað barnslegt sem hvílir yfir persónuleika hennar og gæðir hana sérstökum þokka. En kannski er það of ójarðneskt til að dafna í mannheimum. 

Þær spjalla svo um mónódrama, Steinunn segir hana vera eina íslenzku leikkonuna sem hafði lagt stund á þá grein leiklistarinnar og eini íslenzki rithöfundurinn sem hefur skrifað verk í þessu sérstæða formi. Árið 1947 hélt Steingerður mónódrama sýningu í Iðnó að loknu námi erlendis, og á undanförnum árum hefur hún öðru hverju flutt mónódrama leikþætti eftir sjálfa sig í útvarpinu.

 

Viðtalið við Steingerði er bæði fræðandi og skemmtilegt. Skáldkonan sem við þekkjum svo vel. Steinunn spyr svo í lok viðtalsins:

,

,,Hvaða boðskap viltu flytja í skrifum þínum?"

,,Boðskapur þarf að koma skálhallt fram, finnst mér, ekki vera áberandi Ég vil halda því fram, að mannsálin eigi sér guðlegan uppruna og leiti jafnan til ljóssins um síðir. Mér finnst vænt um fólk, vænt um mannssálina og alla hennar liti, ég hef samúð með henni á þessari erfiðu göngu hennar hér á jarðríki, og ég trú á bræðralag allra manna undir handleiðslu æðri máttarvalda"

 

Sannarlega gaman að lesa.

Heimild: Í svipmyndum 1966

Íslendingaþættir Tímans - 12. tölublað (18.05.1974) - Tímarit.is (timarit.is)

Heimilispósturinn - 11. tölublað (18.03.1961) - Tímarit.is (timarit.is)